Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 06. febrúar 2006, kl. 16:20:30 (4312)


132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[16:20]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra fór yfir þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um stjórn fiskveiða. Mig langar að reyna að fá svör áður en umræðan fer mikið lengra, það er oft betra að gera það strax í upphafi frekar en vera að ræða eitthvað sem maður veit ekki almennilega um og kannski skýrist það svo í lokaumræðu með hvaða hætti hlutirnir eru.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í prósenturnar, 6% í þorski og 9% í ýsu. Ég náði því ekki nægilega vel í framsögunni hvað liggur á bak við þessar prósentur, í fyrsta lagi að þær skuli valdar og í öðru lagi að það skuli vera munur á prósentu í þorski og ýsu. Einnig langar mig að spyrja hæstv. ráðherra af hverju ekki sé þá gert ráð fyrir hámarki í öðrum tegundum eins og steinbít, ufsa o.s.frv. Hvaða rök liggja fyrir því? Í stóra kerfinu er gert ráð fyrir hámörkum á öllum þeim tegundum sem úthlutað er í kvótanum.

Maður veltir líka fyrir sér hvort einhverjar útgerðir séu komnar yfir þessi mörk eins og þau liggja núna og þá vil ég fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort hann telji að svona lög geti orðið afturvirk. Gætu þeir sem hafa verið að sækja sér heimildir í núverandi kerfi, og gert það samkvæmt þeim lögum sem gilda, þá horft fram á það að þurfa að breyta ákvörðunum sínum og rekstri þrátt fyrir að þeir hafi á þeim tíma sem um ræðir náð í heimildirnar samkvæmt þeim lögum sem gilda í landinu?