Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 06. febrúar 2006, kl. 16:24:46 (4314)


132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[16:24]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar rétt í stuttu andsvari að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra út í það sem varðar 4. liðinn sem talað er um, þ.e. þær breytingar sem gerðar eru vegna vannýtingar á úthlutuðum aflaheimildum í úthafsrækju og eins út af veiðigjaldinu á úthafsrækju. Ég fyrir mitt leyti fagna því sem hér er gert en tel kannski að það hefði mátt ganga örlítið lengra. Þetta er þó skref í rétta átt og ég hef spurst þó nokkrum sinnum fyrir um þetta atriði, sérstaklega hvað varðar veiðigjaldið.

Fyrirspurn mín til hæstv. sjávarútvegsráðherra er sú hvers vegna stjórnvöld koma ekki til móts við úthafsrækjuveiðiútgerðir í sambandi við 9. gr. og úthluti úr þessum varasjóði okkar 9. gr., sem geymir 12 þúsund tonn, og við notum m.a. til að láta 1.650 tonn í uppbætur vegna hruns í skelveiðinni í Breiðafirði og eins vegna innfjarðarrækjuveiði. Ég tel þennan varúðarsjóð af hinu góða og úthlutanir hans, annars vegar út af skelveiðinni og hins vegar innfjarðarrækjunni. En hvers vegna í ósköpunum er ekki gripið til þessa sama ráðs gagnvart úthafsrækjuveiðiskipunum og þeim útgerðum sem hafa stundað úthafsrækjuveiðar og hafa orðið fyrir þeim mikla skell sem hér er lýst? Má ég minna á það, virðulegi forseti, að eitt árið vorum við að veiða næstum 70 þúsund tonn af úthafsrækju. Hvað er það sem gerir það að verkum að stjórnvöld vilja ekki nýta 9. gr. fyrir úthafsrækjuveiðibátana?