Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 06. febrúar 2006, kl. 17:06:58 (4324)


132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:06]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Af ýmsu er að taka í þessu frumvarpi. Fyrst er auðvitað það sem stendur upp úr, að þarna er sóknardagakerfið kistulagt endanlega. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem maður stendur frammi fyrir frumvarpi um það. Ég minnist þess að í janúarmánuði 1999, fyrir réttum sjö árum, var lagt fram stjórnarfrumvarp í framhaldi af hæstaréttardómi sem gerði ráð fyrir því að allar veiðar yrðu kvótabundnar og að ákvæði eldri laga sem þá voru í gildi yrðu afnumin þannig að menn styddust eingöngu við aflamarkskerfið. Það fór þá á þann veg að í meðförum þingnefndar, sjávarútvegsnefndar sem ég veitti þá forstöðu, var frumvarpinu að verulegu leyti breytt og tekið upp nýtt sóknardagakerfi sem hefur verið við lýði þar til nú, og var reyndar breytt á vordögum 2004.

Það má því segja ef maður lítur yfir farinn veg að breytingin sem við gerðum í janúarmánuði 1999, um það að taka upp handfærakerfi á sínum tíma, hafi að mörgu leyti reynst heilladrjúg í því sem henni var ætlað, þ.e. að opna leið fyrir nýja útvegsmenn, sérstaklega í því skyni að tryggja viðgang atvinnugreinarinnar á þeim svæðum landsins sem áttu mest undir högg að sækja vegna framsalsáhrifa kvótakerfisins. Þó að kerfið hafi að sumu leyti verið ósanngjarnt gagnvart útvegsmönnum í aflamarkskerfinu vegna þess að sóknardagabátarnir, handfærabátarnir á þessum tíma, áunnu sér aflaheimildir sem síðar var breytt í kvóta á þeirra kostnað met ég það engu að síður svo að heildaráhrif aðgerðanna hafi verið jákvæð að því leyti sem til var ætlast af hálfu Alþingis á þeim tíma.

Því miður varð þróunin í því kerfi á þann veg að ekki varð samstaða um að viðhalda því og sóknardagakerfið var farið að líkjast æ meira venjulegu aflamarkskerfi þar sem verðlagning á sóknareiningunum tók mið af sömu lögmálum og gilda um aflahlutdeildir. Þannig voru komnar upp sömu aðgangshindranir inn í kerfið og voru í aflamarkskerfinu og engu þægilegri leið fyrir nýliða inn í fiskveiðarnar í gegnum sóknardagakerfið en er í gegnum aflamarkskerfið. Út af fyrir sig leiddi það til þess að menn komust að þeirri niðurstöðu að þá væri rétt skref að hafa sams konar stýringu í báðum kerfunum. Auðvitað má deila um hvort það hafi verið rétt skref en þegar menn bera saman þróunina frá þeim tíma til dagsins í dag og það sem var þá verða menn að gera sér grein fyrir því að jafnvel þótt menn hefðu ekki breytt sóknardagakerfinu vorið 2004 hefði orðið þróun í því. Hvernig hefði sú þróun orðið til dagsins í dag á annan veg en hefur orðið í aflamarkskerfinu?

Ég sé ekki fyrir mér að hún hefði orðið mjög frábrugðin. Ég held að hún hefði orðið mjög svipuð með sömu vanköntum og annmörkum og fækkun báta vegna þess að auðvitað stækkuðu bátarnir, afkastageta þeirra jókst og þá leituðust eigendurnir við að kaupa fleiri sóknardaga á þá báta, rétt eins og menn gerðu eftir breytinguna, þ.e. að kaupa meira af veiðiheimildum í aflamagninu. Ég er ekki svo viss um að breytingin hefði orðið frábrugðin því sem hún varð. Við hefðum staðið í svipuðum sporum og við stöndum nú.

Það eru að vissu leyti tímamót í sögunni að menn séu komnir á það stig að taka út úr lögunum ákvæði um þetta handfærakerfi.

Þá er ástæða til að spyrja: Í hvaða sporum erum við núna og hvers konar kerfi erum við með? Erum við búin að finna upp hið fullkomna kerfi sem við þurfum ekkert að huga að breytingum á? Höfum við náð hinum fullkomna sannleik í fiskveiðistjórn, getum við lagst til hvílu og sagt að þessu verkefni sé lokið og búið svo um aldur og ævi við það sem er í lögunum í dag? Er svo komið, virðulegi forseti, að Alþingi geti lagt það verkefni á hilluna að glíma við löggjöf um stjórn fiskveiða? (GAK: Örugglega.) Örugglega, er kallað hér fram úr salnum og ég heyri á tóninum að ekki fylgir mikil alvara þeim orðum, eða kannski ætti ég að segja að ekki fylgdi mikil trú þeim orðum að svo væri. Ég minni á könnun, þá síðustu sem ég hef séð, um afstöðu landsmanna til kvótakerfisins. Gallup gerði hana og birti í september 2004. Spurt var hvort menn væru ánægðir með kvótakerfið og svo var spurt hvort menn vildu breyta því. Svörin eru mjög athyglisverð vegna þess að könnunin er gerð af viðurkenndu fyrirtæki og gefur góðar vísbendingar um vilja þjóðarinnar og afstöðu. Í ljós kemur að aðeins 18% eru ánægð með kerfið, aðeins 18% eru ánægð með kvótakerfið fyrir einu og hálfu ári. Ég geri svo sem ráð fyrir að það hafi ekki mikið breyst frá þeim tíma. 64% voru óánægð með kerfið og þar er dálítið mikill munur á þegar meira en þrír eru óánægðir á móti hverjum einum sem er ánægður.

Ef við skoðum svo seinni spurninguna, um það hvort menn vilji breyta kerfinu, kemur í ljós að aðeins 16% vilja halda kerfinu óbreyttu en heil 84% vilja breyta því eða leggja það niður. Ef við skoðum þann hóp sérstaklega og kljúfum hann í tvennt vilja 19% leggja kvótakerfið niður. Fleiri vilja sem sagt leggja kerfið niður en hinir sem vilja halda því óbreyttu. 65%, þ.e. tveir þriðju þjóðarinnar, vilja breyta kerfinu. Ef við segjum að það sé verkefni stjórnmálamanna að hlusta á það sem þjóðin hefur fram að færa og leitast við að haga löggjöf þannig að hún falli að hagsmunum og þörfum hennar mundi ég segja að niðurstaðan úr þessari könnun væri sú að við ættum að breyta kerfinu. Þjóðin er að segja okkur það.

Viðfangsefni okkar er þá að velta fyrir okkur hvernig við eigum að breyta kerfinu. Hvað er það sem þjóðin er óánægð með og hvernig getum við breytt lögunum þannig að við tökum á þeim atriðum og mætum þeim vanköntum sem almenningur sér greinilega á kerfinu? Svarið við spurningunni sem ég varpaði fram áðan er það að okkur hefur ekki enn tekist að ljúka löggjöf um stjórn fiskveiða á þann hátt að um það sé sæmileg sátt í þjóðfélaginu. Við eigum mikið verk óunnið til að breyta, skulum við segja, — ég segi ekki að við eigum að leggja það niður — kvótakerfinu þannig að ásættanlegt verði til einhverrar framtíðar. Ég vil draga þetta fram þannig að menn standi ekki í þeirri trú að ég telji að verkefninu sé lokið með því frumvarpi sem við glímum við núna.

Ég vildi kannski í framhaldinu aðeins fara yfir það hverju við eigum að breyta. Ég held að það séu ákveðin atriði sem valda verulegri óánægju. Ég held að það séu fyrst og fremst áhrifin af framsalinu, áhrif sem verða á atvinnulíf einstakra byggðarlaga vegna hreyfinga á veiðiheimildum. Ég held að löggjöfin eins og hún er taki ekki nægilega á þessum áhrifum þannig að þau eru í allt of ríkum mæli slæm og það er að mati almennings, skulum við segja, ósanngjarnt. Því þarf að breyta.

Við höfum fullt af dæmum sem við getum rakið sem sýna hve mikið hefur breyst í atvinnumálum heilla byggðarlaga við framsal á veiðiheimildum. Bara frá síðustu alþingiskosningum hafa bæst við byggðarlög sem hafa orðið fyrir miklum áhrifum vegna eignabreytinga á veiðiheimildum og stóðu áður nokkuð styrkum fótum, t.d. Akranes, Skagaströnd og Akureyri. Sjálft höfuðvígi kvótakerfisins, Akureyri, er nú í þeirri stöðu að atvinnuhagsmunir margra þeirra, skulum við segja, sem starfa í sjávarútvegi þar eru í óvissu. Menn óttast að þróunin hjá eiganda fyrrum Útgerðarfélags Akureyringa sé á þann veg að veiðiheimildirnar séu að fara í burtu frá staðnum og störfin þar með. (MÞH: Hvað með Akranes?) Akranes, já, ég nefndi það. (MÞH: … tilviljun.) Þetta er bara frá síðustu alþingiskosningum. Menn sjá því að þetta er alltaf að gerast og við þurfum að hafa betri svör fyrir umbjóðendur okkar en þau sem núverandi löggjöf býður upp á. Það er alveg ljóst mál.

Hvernig geta þau verið? Menn hafa bent á byggðakvóta, að veiðiheimildir séu teknar frá sem hægt er að ráðstafa inn í sömu byggðarlög aftur þannig að nýir aðilar geti fengið þær til að hefja atvinnurekstur með útgerð og skapað ný störf. Það er alveg möguleiki. Vandinn við núverandi kerfi er að byggðakvótinn er svo lítill að aflið með því er ekkert í líkingu við skaðann sem verður vegna framsalsins. Það þarf miklu stærri hluta af heimildunum til að geta bætt fyrir með þessum hætti.

Ég held hins vegar að besta ráðið við svona sé að taka á því með almennum hætti, finna leiðir þannig að við getum stuðst við almennar reglur. Þá hljótum við að koma að veiðiheimildunum sjálfum, úthlutun þeirra, hvernig menn geta nálgast þær, og verðlagningu þeirra. Þó að kvótakerfið sé í orði kveðnu sett á til að vernda fiskstofna er það fyrst og fremst markaðskerfi, kerfi til að leiða sjávarútveginn inn í markaðsumhverfi sem síðan á að leiða til þess að atvinnureksturinn verði hagkvæmur o.s.frv. Það er í sjálfu sér ekki slæmt, við erum ekki andvíg því að hafa markaðskerfi í okkar helstu atvinnugrein.

Ef við skoðum veiðiheimildirnar er ekkert markaðskerfi í þeim. Þeim er úthlutað frá ríkinu, ótímabundið. Ef einhverjir vilja komast yfir veiðiheimildir verða þeir að kaupa af þeim sem hafa þær fyrir og á því verði sem þeir setja upp. Þeir sem eru fyrir í greininni geta dálítið mikið ráðið verðlagningunni vegna þess að engar reglur gilda um markaði fyrir veiðiheimildir eða eitthvað slíkt. Við sjáum að 3–4 fyrirtæki á landinu stjórna algjörlega verðlagningunni á veiðiheimildunum, fyrst og fremst aflamarkinu. Þau hafa svo mikið af veiðiheimildunum undir höndum, ráða eiginlega algjörlega þróuninni í útleigunni og geta nokkurn veginn spennt upp verðið með tiltölulega einföldum hætti.

Ég held að þetta kerfi sé mjög ófullkomið markaðskerfi, hafi marga galla og menn þurfi að finna leiðir til að gera það þannig að þegar veiðiheimildir eru seldar taki verðlagningin á þeim mið af tekjumöguleikum veiðiheimildarinnar. Það er alveg galið að menn kaupi veiðiheimildir á verði sem er það hátt að þeir fá ekkert fyrir sinn snúð í 10–15 ár. Hvers konar markaðskerfi er það?

Það eru verulegir gallar á þessu kerfi, virðulegi forseti, sem ég hugsa að Alþingi eigi eftir að glíma við og reyna að bæta úr. Ég held að við ættum að gera það, setjast niður og betrumbæta þetta kerfi þannig að betur verði hægt að styðjast við það til lengri framtíðar, rétt eins og viðhorfskönnun um afstöðu almennings segir okkur.

Á dögunum kom út skýrsla frá iðnaðarráðuneytinu um þróun fasteignaverðs á landsbyggðinni. Hún leiddi í ljós mjög athyglisverða niðurstöðu sem var sú að á ákveðnum landsvæðum hefði fasteignaverð lækkað, á öðrum hækkað, og það réðist af atvinnuástandi, þ.e. hvernig þróunin varð á vinnumarkaðnum. Skýrsluhöfundar drógu það fram að það þyrfti að vera hagvöxtur á hverju atvinnusvæði. Þar sem ekki var hagvöxtur heldur dró úr fjármagni í umferð, m.a. vegna þess að veiðiheimildir fóru í burtu, lækkaði verð á fasteignunum. Þetta bendir okkur á að við þurfum að tryggja það að byggðarlög sem hafa orðið til vegna sjávarútvegs eigi þann möguleika að geta þróast áfram, að þeir peningar sem atvinnugreinin skilar séu til atvinnusköpunar og styrkingar atvinnulífs á viðkomandi svæðum. Eins og kerfið hefur þróast tekur það ansi mikla peninga út úr greininni í formi afgjalds fyrir auðlindina, svo sem með háu verði á aflahlutdeildum eða háu leiguverði. Jafnvel þótt menn veiði mikið magn á einhverjum stöðum og heildarverðmæti sé nokkuð margir milljarðar fer svo og svo há fjárhæð út úr hagkerfi viðkomandi svæða sem leigugjald. Krafturinn sem leiðir af atvinnustarfseminni er miklu minni en áður var.

Ein leiðin sem ég velti fyrir mér hvort menn ættu að fara til að dreifa hagvextinum um landið er að nota gamla bolvíska aðferð. Virðulegi forseti, ég sé að hæstv. sjávarútvegsráðherra glennir upp augun því að ég er ekki viss um að hann átti sig á því hvaða frumkvöðul við Bolvíkingar eigum í stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum. Ég held að það sé algert einsdæmi. Þar er ég auðvitað að tala um norska konu, virðulegi forseti. Konur eru, eins og menn vita, oft frumkvöðlar að ýmsum nýjungum. Þuríður sundafyllir frá Hálogalandi sem settist að í Bolungarvík setti Kvíarmið, hafði ákveðna gáfu og gat að einhverju leyti stjórnað fiskgengd ef marka má Landnámu. Þegar hún hafði þetta gert ákvað hún að hver sá sem nýtti þessi mið yrði að borga toll eða afgjald, eina á kollótta. Það var nokkurt gjald á þeim tíma og ég held að menn ættu að velta því fyrir sér að fara þessa gömlu bolvísku leið sem er líklega fyrsta útgáfa af veiðileyfagjaldi og athuga hvort ekki sé sanngjarnt og eðlilegt að sjávarplássin um landið, sem hafa í gegnum aldirnar nýtt auðlindina þar fyrir utan, fái ákveðnar tekjur á ári hverju sem afgjald fyrir nýtingu miðanna, rétt eins og Þingeyingarnir eru núna að fara fram á fyrir sína hönd fyrir nýtingu jarðorku sinnar. Þeir setja upp þá kröfu að orkan verði því aðeins nýtt að hún leiði til atvinnusköpunar í þeirra eigin héraði. Þeir hafa lýst því yfir með digrum yfirlýsingum að þeir muni ekki fallast á að orkan verði flutt frá Þingeyjarsýslu til þess að skapa atvinnu í öðrum héruðum vestan Þingeyjarsýslu. Þetta er út af fyrir sig alveg sama sjónarmiðið. Ef menn fallast á að það sé eðlilegt og sanngjarnt að Þingeyingar hafi jarðorkuna undir sínu landi sem auðlind eða til atvinnusköpunar í sínu héraði gildir auðvitað hið sama um fiskimiðin.

Ég held að kannski ættu menn að íhuga að ráðstafa aflahlutdeildum eða veiðiheimildum til byggðarlaga sem þau hafa til að nýta eða selja eða fái beint ákveðið afgjald í gegnum ríkissjóð sem er þá hugsað sem gjald fyrir nýtingu auðlindarinnar undan byggðarlagi þeirra. Þetta vildi ég láta duga, virðulegur forseti, til umfjöllunar um málið almennt. Ég hef ekki sagt mikið um einstök efnisatriði frumvarpsins. Það spara ég mér til 2. umr. málsins en hef fjallað, eins og oft er ætlast til, almennt um málið við 1. umr.