Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 06. febrúar 2006, kl. 17:27:04 (4325)


132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:27]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég er á því að í þessari umræðu og í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar hafi þingmaðurinn leikið tveim skjöldum. Hann talar bæði með og á móti kvótakerfinu. Þess vegna væri mjög gott að fá upp úr þingmanninum hvort hann er með eða á móti kvótakerfinu og hverju hann vilji breyta. Hann hefur alltaf stutt breytingar til hins verra og gert byggðunum á Vestfjörðum erfiðara fyrir. Þess vegna finnst mér löngu orðið tímabært að hv. þingmaður komi hreint fram í þessari umræðu. Hann segist stundum fylgja sannfæringu sinni og þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann, frú forseti, hvort hann sjái eftir því að hafa stutt breytingarnar á þessu fiskveiðistjórnarkerfi okkar sem leiddu til þess að sóknardagakerfið var lagt niður. Sér hann eftir því í ljósi þess hve slæmar afleiðingarnar hafa verið fyrir Vestfirðinga? Landaður afli á t.d. Tálknafirði, norðurfjörðum og Ströndum hefur dregist saman.

Allt sem við sögðum í Frjálslynda flokknum þegar verið var að setja þessi lög — eða ólög, vil ég segja — og afleggja sóknardagakerfið hefur nánast orðið að veruleika. Því miður. Þess vegna er tímabært að hv. þingmaður segi okkur hvort hann sjái eftir þessu. Mér finnst ömurlegt þegar menn tala um afturför fyrir byggðirnar úr þessum ræðustól og tala jafnframt um það sem einhverja þróun á kerfi. Þetta kerfi sem við sjáum hér er að leggja sjávarbyggðirnar í rúst og því miður hefur hv. þingmaður tekið þátt í að styðja breytingar sem allir vissu að mundu koma byggðunum illa, sérstaklega á Vestfjörðum.