Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 06. febrúar 2006, kl. 17:35:23 (4329)


132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:35]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst frekar dapurlegt að heyra málflutning hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Ég man vel þá daga þegar verið var að setja þessa sóknardagabáta í kvóta á vordögum árið 2004. Ég man vel þá orrahríð sem þá átti sér stað í þingsalnum. Ég man vel þær ræður sem voru fluttar. Því miður hafa þau varnaðarorð sem við höfðum þá í þingflokki Frjálslynda flokksins komið fram af fullum þunga. Það er beinlínis sorglegt að sjá menn koma upp í ræðustól einu og hálfu ári síðar, stjórnarþingmenn eins og hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, og hreykja sér af þeim verkum.

Ég er hér með nokkrar fréttir úr Bæjarins besta, ég tók útskrift af þeim rétt áðan. Hvernig eru fyrirsagnirnar? Jú, 17. ágúst 2005: Ríflega þriðjungssamdráttur í afla milli ára í júlí. 28. ágúst: Afli og aflaverðmæti minnkar á milli ára. 15. september 2005: Tæplega 40% samdráttur í lönduðum afla í ágúst á milli ára og svona má lengi telja. Hér er síðan viðtal við Aðalstein Óskarsson, framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, þar sem hann segir að afdrif sóknardagakerfisins séu meðal skýringa á minni vexti launagreiðslna á Vestfjörðum.

Virðulegi forseti. Ég held að engum íbúa á Vestfjörðum dyljist hvílíkt reiðarslag afnám sóknardagakerfisins var fyrir hagkerfi Vestfjarða. Nokkrir sægreifar fengu milljónatugi í vasann. Margir þeirra hafa selt sig út úr greininni, eins og fram kom í ágætri ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar, en eftir situr almenningur með sárt ennið. Það væri gott að fá svar við þeirri spurningu hvort hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sjái ekki eftir því að hafa tekið þátt í þessu voðaverki.