Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 06. febrúar 2006, kl. 18:04:03 (4334)


132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[18:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur mælt fyrir, felur tvennt í sér, í meginatriðum.

Í fyrsta lagi að fella burt þau lagaákvæði sem stóðu eftir varðandi sóknardagakerfið sem var greinilega aflagt hér í þinginu fyrir um ári eftir að hafa fengið mjög sérstæða meðferð í sjávarútvegsnefnd eins og þingheimi er kunnugt. Hins vegar er verið að setja ákveðin hámörk á heildarverðmæti krókaaflabáta, hámörk á hlutdeild þeirra í heildarkrókaaflaheimildum.

Það má svo sem margt segja um þá aðgerð að fella niður sóknardagakerfið og ég vil bara halda því hér til haga að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vorum andvígir því og töldum það mjög óskynsamlegt. Við töldum rétt að fiskveiðiflotinn væri sem fjölbreyttastur og að sem flestar stoðir rynnu undir sjávarútveginn. Þar á meðal væri sóknardagakerfið sem gæfi ákveðið svigrúm til fjölbreytni í atvinnuveginum og einnig töldum við að sá veiðimáti hentaði nokkuð vel við strandbyggðirnar þar sem um tímabundnar fiskveiðar gæti verið að ræða innan ársins. Þessar breytingar hafa þegar á einu ári komið fram og menn geta deilt um hvort það sé til bóta eða ekki. Í grein þar sem vitnað er í Morgunblaðið 19. október sl. er farið yfir þær breytingar sem hafa orðið á smábátaflotanum við afnám sóknardagakerfisins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Bátarnir hafa stækkað og þeim hefur fækkað. Við upphaf þessa fiskveiðiárs voru krókaaflamarksbátar 628 og hafði fækkað um 108 á einu fiskveiðiári. Meðalstærð bátanna er nú 6,19 brúttótonn of hafa þeir að meðaltali stækkað um 17,5% frá árinu 2003. Nú eru 571 krókaaflamarksbátur með hlutdeild í þorski og hefur þeim fækkað um 113 báta á einu ári.

Nú eru 78 bátar, 13,7% heildarinnar, með helming allra aflaheimilda í þorski en fyrir ári voru 128 bátar með helming veiðiheimildanna.“

Þannig að veiðiheimildir í þessum flokki, sem áður fóru á 128 báta, deilast nú á 78 báta, fækkunin er því um 40 bátar á einu ári, þ.e. 50% þessara veiðiheimilda.

„Það hefur því orðið veruleg samþjöppun í þessum flota, bátum lagt og heimildir færðar yfir á aðra báta.“

Síðan er rakið hvert þessar veiðiheimildir sóknardagabáta hafi farið. Þar segir áfram, með leyfi forseta:

„Mikil tilfærsla hefur orðið á aflaheimildum milli staða. Langmest hefur flust til Reykjaness, sem hefur bætt við sig 2.903 þorskígildum og 1.621 tonni af þorski. Mest af þessu hefur flust til Grindavíkur … Mest hefur verið flutt frá Vestfjörðum …“

Ég vek athygli á því að fyrir þessum breytingum tala hv. þingmenn sem telja sig oft þingmenn Vestfjarða og eiga þar heimili, hæstv. sjávarútvegsráðherra og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Þeir hafa staðið að breytingum varðandi það að leggja niður sóknardagakerfið og með þessum breytingum hafa á einu ári hafi verið flutt 1.840 þorskígildi og 1.704 tonn af þorski frá Vestfjörðum. Þetta eru þær breytingar sem urðu þarna. Ég skal ekki segja hvort það hefði breyst eitthvað þótt sóknardagakerfið hefði verið áfram en engu að síður innan þessa flota hefur þetta gerst. Ég hélt að einmitt á þessum stöðum, í byggðarlögum á Vestfjörðum, hefði verið pólitískur áhugi á að treysta útgerðina, fiskvinnsluna og sjávarútveginn í sessi. En allar lagasetningar ganga í þveröfuga átt. Herra forseti. Því miður stöndum við frammi fyrir því hér að talsmenn stjórnarflokkanna segja eitt en gera annað.

Ég get í sjálfu sér tekið undir þau sjónarmið sem hér er verið að leggja til varðandi það að setja hámark á hlutfall af þorski og ýsu og öðrum kvótasettum fisktegundum á krókaaflamarksbáta. Ég get alveg stutt það sjónarmið út af fyrir sig. Ég tel reyndar, og tek undir þar með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, að þetta mark sé of hátt. Við megum ekki heldur nota það sem afsökun að einhverjir séu kannski komnir upp undir þetta þak. Því þetta er ekki varanleg eign. Þetta er eins og hver önnur rekstrarréttindi sem fyrnast með sama hætti og aðrir útgerðarþættir þannig og það má ekki horfa á þetta sem eign. Sé hins vegar einhver kominn upp fyrir þetta mark sem sett er, þá er hægt að gefa aðlögunartíma til að hann fari þá niður í þau mörk sem sett eru samkvæmt lögum. Sá aðlögunartími getur verið það rúmur að eðlilegt geti talist.

En ég leyfi mér að halda því fram að þau hámörk sem þarna eru, 6% af þorski og 9% af ýsu, séu í hærri kantinum og fróðlegt væri að fá upplýsingar um það í hv. sjávarútvegsnefnd þegar málið kemur þangað hvernig raunstaðan er. Ég vitnaði til þess í upphafi máls míns hvað hefur gerst á einu ári og vil endurtaka það. Það eru 78 bátar, eða 13,7% heildarfjölda bátanna, sem nú eru með helming allra aflaheimilda í þorski en fyrir ári voru 128 bátar með helming veiðiheimildanna. Þannig er þróunin. Að sjálfsögðu þarf að vera rými innan þessa flota í sjálfu sér svo hægt sé að stunda þar hagræðingu að einhverju marki en við þurfum líka að huga að hinum atvinnupólitíska þætti sem þessar veiðar hafa gagnvart byggðunum.

Hér vil ég einmitt koma að því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram mjög ítarlega stefnu í sjávarútvegsmálum. Þar leggjum við áherslu á að allir þeir þrír þættir sem skipta meginmáli í sjávarútveginum, þ.e. að réttur byggðanna, réttur fólksins sjálfs sem býr á viðkomandi svæðum sem hafa byggst upp í kringum fiskveiðar, í kringum landvinnslu, sé virtur en ekki fullkomlega fyrir borð borinn eins og nú er gert í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, þar sem réttur íbúanna, réttur fólksins, réttur byggðanna er að engu hafður. Því viljum við breyta.

Í öðru lagi viljum við að sjálfsögðu líka tryggja ákveðinn grunnrétt þeirra sem stunda útgerðina, hafa gert og það eðlilega.

Í þriðja lagi viljum við að þess vegna geti ákveðinn hluti fiskveiðiheimildanna verið á uppboði. Við höfum lagt til að þetta geti skipst til þriðjunga, þriðjungur sé í rauninni forgangsréttur byggðanna, fólksins sem býr, þriðjungur sé til ráðstöfunar fyrir útgerðina og þriðjungur geti farið á uppboð eða gengið á markaði.

Þá leggjum við líka þunga áherslu á það í okkar tillögum að veiðar á strandgrunninu næst landi séu sóttar af sérflota, dagróðraflota, og ekki hvað síst að þær veiðiheimildir og sá floti tengist viðkomandi heimabyggð ásamt því að rétturinn og skyldan til að landa þar og vinna sé mjög rík.

Við sjáum í fiskveiðistjórnarkerfi okkar að þorskstofninn við landið er ekki í rauninni einn einsleitur stofn, heldur er hann samsettur af fleiri undirstofnum sem geta verið meira eða minna staðbundnir og inni á ákveðnum fjörðum fyrir ákveðnum landshluta. Úthlutun samkvæmt núverandi kvótakerfi út frá því að þetta sé einn stofn er ekki mjög skynsamleg ráðstöfun, reyndar bara vitlaus. Þess vegna er mjög brýnt að fiskveiðistjórnarkerfið, ekki hvað síst með tilliti til þeirra þátta sem núna eru að uppgötvast og menn byrjaðir að viðurkenna, þættir sem sjómenn þekktu — ég minnist þess t.d. að þegar ég var krakki við Húnaflóann þekkti faðir minn í sundur Húnaflóafisk og fisk af Grænlandsmiðum sem var allt annars konar fiskur. Fyrir þeim var alveg ljóst að það voru staðbundnir stofnar, það voru stofnar sem voru líka á ferðinni kringum landið þannig að veiðar úr einum þessara stofna gátu haft áhrif á endurnýjun þess stofns. Þetta tel ég mjög brýnt að verði skoðað.

Herra forseti. Ég hef áhyggjur af fiskvinnslunni. Ég óttast að þar megi ekki ganga miklu lengra áður en við förum að eiga á hættu að tapa meginþorra fiskvinnslunnar úr landi. Úr því að við erum að ræða um sjávarútvegsmálin hefði ég gjarnan viljað spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvernig hann líti nú á stöðu fiskvinnslunnar með óbreytta gengisvísitölu. Gengið er svo hátt, dollarinn er nú í kringum 105, og fyrir nokkrum árum sögðu fulltrúar fiskvinnslunnar að færi gengið niður fyrir 115 yrði ástandið mjög erfitt. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði í ræðu á Alþingi að hann yrði mjög hræddur fyrir hönd íslenskra útflutningsgreina, þar á meðal fiskvinnslunnar, ef gengið héldi áfram að vera með þeim hætti sem það var þá. Þá stóð það í kringum 115. Núna er það búið að vera niður undir 100 í heilt ár, enda sjáum við hvað er að gerast, hver fiskvinnslan á fætur annarri leggst af. Mér finnst hæstv. sjávarútvegsráðherra taka þessi mál allt of kæruleysislega, allt of létt. Hann heldur ræður, skrifar greinar og segir að gengið fari að lagast.

Nú segja allir … (SigurjÞ: Hvar er hæstv. sjávarútvegsráðherra?) Hann er sjálfsagt að leita að genginu, herra forseti, gengi íslensku krónunnar. Nú segja greiningardeildir bankanna og Seðlabankinn að miðað við núverandi stefnu í efnahagsmálum, eins og hún er keyrð upp af þessari ríkisstjórn, muni gengið áfram verða mjög hátt og jafnvel fara hækkandi, þ.e. krónan verður síst lægri á næstu árum, fram til 2008, jafnvel 2012 ef virkjunarframkvæmdirnar ganga eftir sem ríkisstjórnin boðar. Þá dugar ekkert að segja, herra forseti: Þraukið núna einn mánuð til.

Ég er hér t.d. með frétt frá Akranesi. Við gætum haldið að Akurnesingar stæðu lengi vel með þetta gríðarlega stóra fyrirtæki sitt, HB Granda, sameinað á Akranesi. Þar dregst samt fiskvinnslan alveg stórkostlega saman og menn segja, með leyfi forseta, í grein sem birtist í Morgunblaðinu 18. janúar sl.:

„Árið 2004 þegar HB var hluti af Brimi lengst af ársins var landað 8.220 tonnum af bolfiski, 6.210 tonnum af frosnum fiski, 48.500 tonnum af loðnu og 38 þúsund tonnum af kolmunna … Á síðasta ári var landað í Akraneshöfn tæpum 6 þúsund tonnum af bolfiski, rúmlega 5 þúsund tonnum af frosnum afurðum …“

Þetta er gríðarlegur samdráttur og það verður ekki séð annað en að sá samdráttur muni halda áfram. Akranes, sú höfn, sú verstöð, sá sjávarútvegsbær sem við héldum að mundi standa hvað best og standa af sér veðrið með sameiningu fyrirtækja, stendur nú frammi fyrir stórkostlegum samdrætti í fiskvinnslu. Hvað þá um önnur pláss eins og við höfum rakið hér, Vestfirði, Norðurland vestra, Austfirði, Vestmannaeyjar svo að dæmi séu tekin? Alls staðar er fiskvinnslan í miklum vanda.

Í lokin, herra forseti, langar mig til að minnast á rækjuna. Hérna er ákvæði til bráðabirgða um að úthlutaðar veiðiheimildir í rækju sem eru vannýttar megi færa á milli ára og að skip missi ekki aflahlutdeild sína í úthafsrækju eða öðrum tegundum vegna þess að ekki er hægt að nýta hana. Menn monta sig af því að viðkomandi fyrirtæki þurfi ekki að greiða veiðigjald fyrir úthafsrækju. Drottinn minn dýri, auðvitað munar um það en ég held að flestir hafi verið á móti því að þetta veiðigjald yrði lagt á rækjuna á sínum tíma.

Staða rækjufyrirtækjanna er mjög alvarleg og það er ekki það eitt að ekki berist rækja, heldur líka sú fjárhagsstaða þeirra fyrirtækja sem eru í þessari grein. Það þarf að greiða afborgun af skuldum sem og rekstur verksmiðjunnar þó að henni sé lokað. Ég spyr hæstv. sjávarútvegsráðherra: Eru engar aðgerðir á döfinni, t.d. til að koma til móts við rækjuverksmiðjur og rækjuútgerðir á Hvammstanga, í Súðavík, þessar litlu rækjuverksmiðjur? Litlu, jæja, þær eru býsna stórar en hafa skipt atvinnu á viðkomandi stöðum gríðarlega miklu máli. Það var farið út í þessa sérhæfingu. Einn sjávarbær skyldi hafa rækju, annar saltfisk og sá þriðji frystan fisk. Með þessu átti að ná fram hagræðingu og þessi hagræðing var lögð svona á þessi byggðarlög. En svo þegar eitthvað bjátar á, hvar er þá samkenndin? Það var hluti af þeirri samkennd sem keyrð var yfir byggðarlögin að þau skyldu sérhæfa sig með þessum hætti. Hvar er þá samkenndin í hina áttina (Forseti hringir.) þegar einn þáttanna gengur alls ekki upp? Á þá bara að láta byggðarlögin standa ein (Forseti hringir.) og bera þessa stefnu?