Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 06. febrúar 2006, kl. 18:42:23 (4336)


132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[18:42]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum nú enn eitt frumvarpið til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38 15. maí 1990, með síðari breytingum.

Ekki hef ég lengur töluna á því hversu oft við höfum rætt breytingar á þessum blessuðum fiskveiðistjórnarlögum, þetta er líklega ein stagbættasta löggjöf sem finna má á byggðu bóli a.m.k. í hinum vestræna heimi. En hér eru sem sagt enn einar breytingarnar á þeim lögum, enn og aftur erum við farin að ræða um stjórn fiskveiða í þessum sal.

Í þetta skipti ætla menn að setja þak á kvótaeign í trilluflotanum, á þorsk og ýsu, eingöngu á þorsk og ýsu. Mig langar í upphafi máls míns meðan ég man að koma þeirri spurningu á framfæri við hæstv. sjávarútvegsráðherra hvers vegna menn hafi ekki tekið aðrar tegundir með, t.d. ufsa og steinbít, hvað valdi að þær tegundir séu ekki líka teknar með í þennan pakka, því að þetta eru að sjálfsögðu tegundir sem eru mikilvægar hjá þessum flota, a.m.k. svo mikilvægar að menn sáu ástæðu til að grípa til þess óyndisúrræðis fyrir nokkrum árum að kvótasetja einmitt trillurnar í þeim tegundum, þ.e. ufsa og steinbít. Þetta eru að sjálfsögðu tegundir sem skipta miklu máli fyrir þennan flota, það vitum við öll.

Ég kom áðan upp í andsvör við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, sem því miður er nú horfinn úr salnum, vegna þess að frumvarpið vekur upp afskaplega dapurlegar minningar. Það vekur upp minningarnar um það þegar sóknardagatrillurnar voru settar í kvóta hér á vordögum árið 2004 þvert á fyrri loforð sem margir stjórnarþingmenn höfðu gefið, til að mynda í kosningabaráttunni á vordögum árið 2003. Ég átti mjög erfitt með að skilja það þá hvað vakti fyrir mönnum með því að grípa til þess voðaverks gegn sjávarbyggðunum og ég verð að segja að þó að nú sé liðið eitt og hálft ár síðan þetta var gert þá á ég í raun enn þá verr með að skilja hvað vakti fyrir mönnum.

Staðreyndirnar eru því miður þær, virðulegi forseti, að það hefur komið í ljós með mjög svo sársaukafullum hætti hvaða afleiðingar þessi aðgerð hafði fyrir byggðirnar. Hér hafa aðrir þingmenn talað á undan mér, bæði Jón Bjarnason, hv. þingmaður Vinstri grænna, og Jón Gunnarsson, hv. þingmaður Samfylkingar, og farið yfir tölur, blákaldar staðreyndir sem sýna hvernig bátunum hefur fækkað og um leið atvinnutækifærunum í þessum byggðum. Það hefur reyndar fjölgað aðeins á öðrum stöðum, en samt sem áður hefur byggðum sem máttu ekki við því að verða fyrir slíkri blóðtöku þurft að blæða og þeim hefur blætt mjög alvarlega. Við getum talað um Snæfellsnes. Við getum talað aðeins um Suðurland. Við getum nefnt Strandir. Við getum nefnt Norðausturland, Vesturland, Austurland, höfuðborgarsvæðið jafnvel og kannski síðast en ekki síst Ísafjarðarsýslur og Barðastrandarsýslur þar sem mínusarnir eru mjög stórir þegar breytingar á kvóta í smábátakerfinu eru skoðaðar frá 1. september 2004 til 1. september 2005. Nú vill svo undarlega til að einmitt þessar byggðir — sem eru heimabyggðir til að mynda hæstv. sjávarútvegsráðherra og hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, sem báðir voru í sjávarútvegsnefnd á þessum tíma og hafa báðir verið talsmenn sinna ríkisstjórnarflokka í sjávarútvegsmálum — hafa farið verst út úr þessum gjörningi.

Ég velti því fyrir mér hvort þessir hv. þingmenn séu stoltir af þeim ljóta leik sem þeir léku hér á vordögum árið 2004 þegar þeir brugðust hreinlega því trausti sem þeim hafði verið sýnt í alþingiskosningunum árið 2003, á grundvelli loforða. Á grundvelli loforða, virðulegi forseti, sem þessir þingmenn höfðu ítrekað gefið í ræðu og riti. Ég fór yfir það hér vorið 2004 hvað þessir menn höfðu sagt og hvað þeir höfðu skrifað. Ég las það hér upp í ræðustól. Ég get svo sem gert það aftur. Það hefur allt saman verið fært til bókar í þingtíðindum. Fólk getur lesið, séð og skoðað, hvað þessir menn höfðu sagt og síðan getur fólk rannsakað hverjar afleiðingarnar hafa orðið.

Ég fór hér áðan yfir fréttir af fréttavef Bæjarins besta, sem er mjög auðvelt að finna á netinu. Fréttir frá því í lok síðasta sumars og síðan í haust af lönduðum afla, tölur yfir landaðan afla, til að mynda á Vestfjörðum. En þá voru einmitt að koma fram af miklum þunga afleiðingar þess að sóknardagatrillurnar voru settar í kvóta á sínum tíma. Þetta var annað sumarið eftir að þessi gjörningur fór fram. Fyrsta heila sumarið, ef svo má segja, þar sem kerfið hafði fulla virkni. Ég las yfir titla þessara frétta hér áðan en ég ætla að gera það aftur þannig að ekkert fari á milli mála. Hér er frétt frá 16. ágúst 2005 á vef Bæjarins besta, með leyfi forseta, þar sem fyrirsögnin er: Ríflega þriðjungssamdráttur í afla á milli ára í júlí.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Í júlí var landað 3.182 tonnum af sjávarfangi á Vestfjörðum. Í sama mánuði í fyrra var landað 4.886 tonnum og er samdrátturinn á milli ára því tæp 35%. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands. Mestur hefur samdrátturinn orðið í þorskafla. Í ár var hann 1.913 tonn en í fyrra var hann 3.019 tonn. Samdrátturinn er því rúm 1.100 tonn eða rúm 36%.“

Virðulegi forseti. Það eru fleiri svona fréttir. Hér er önnur frétt frá 25. ágúst árið 2005. Með leyfi forseta, er fyrirsögnin: Afli og aflaverðmæti minnkar á milli ára. Og hér eru menn að tala um aflann í maí, en þar hefur orðið verulegur samdráttur á milli ára, einmitt á Vestfjörðum. Við getum líka skoðað tölurnar yfir ágúst. Tæplega 40% samdráttur í lönduðum afla í ágúst á milli ára. Mestu munar þar um mikinn samdrátt í þorskaflanum sem minnkaði þá úr 2.936 tonnum í 1.783 tonn. Eða um 40%. Á sama tíma dróst þorskaflinn á landinu öllu saman um 12,5%. Ýsuaflinn dregst líka mikið saman og ufsaaflinn dregst saman um hvorki meira né minna en 90% tæp á milli ára í þessum mánuði.

Virðulegi forseti. Ég held það þurfi ekki frekari vitnanna við. Ég held að það verði afskaplega aumt yfirklór ef menn ætla að reyna að fara að útskýra þetta einhvern veginn öðruvísi en með þeim hætti að þarna hafa byggðirnar orðið fyrir mjög stóru áfalli. Skýringarnar er síðan að finna í tölum yfir þróun og tilfærslu á bátum, hvernig bátunum hefur fækkað og hvernig þeir hafa færst til og hvernig þeir eru að færast á færri hendur. Hvernig kvótarnir eru teknir og sameinaðir af þessum bátum og þeim síðan hent á bálið, þeir brotnir mélinu smærra eða seldir fyrir slikk til kvótalausra útgerðarmanna eða annarra sem hyggjast nota þá til annarra verka en fiskveiða í atvinnuskyni.

Þetta er mikill harmleikur, virðulegi forseti. Þetta er ekkert sniðugt. Það er afskaplega dapurlegt að sitja hér undir málflutningi hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem hélt því fram að við í Frjálslynda flokknum værum eitthvað sárir yfir þessu. Vegna þess, eins og hann orðaði það, að það hefði verið hafður af okkur glæpurinn — það sagði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hér í ræðustól og glotti út að eyrum. Ég gat ekki skilið það öðruvísi en svo að hann meinti það þannig að þarna hefðu menn virkilega náð að bregða fæti fyrir Frjálslynda flokkinn, náð sér niður á honum og hreinlega, hvað á maður að segja, eyðilagt tilverurétt hans. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur líka fullyrt svipaða hluti á heimasíðu sinni og hlakkaði mjög í honum, að þarna hefðu menn nú loks náð að kveða Frjálslynda flokkinn í kútinn, ef svo má segja.

Málflutningur af þessu tagi er ekkert fyndinn þegar um jafnalvarlegt mál er að ræða. Mér finnst þetta varla svaravert. Þetta snýst um miklu meiri og alvarlegri hluti en þá að hér séu menn að reyna að ná sér niðri á einhverjum stjórnmálaflokkum. Það er mjög alvarlegur hlutur ef stjórnarþingmenn eru hér að setja lög í þeim tilgangi einum að ná sér niðri á stjórnarandstöðuflokki með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir efnahag hundruða ef ekki þúsunda fólks á landsbyggðinni. Hvað skyldi fólkið í litlu byggðunum segja, fólkið sem hefur orðið að líða fyrir aðförina sem gerð var að sóknardagaflotanum? Hvað skyldi það fólk segja um tekjumissi sinn og þann samdrátt sem hefur orðið í atvinnulífinu á þessum stöðum í kjölfar þessara aðgerða? Skyldi það vera sammála hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og Birni Bjarnasyni, hæstv. dómsmálaráðherra, um að þetta hafi nú heldur betur verið flott aðgerð því þarna hafi mönnum virkilega tekist að bregða fæti fyrir Frjálslynda flokkinn? Ég held ekki. Ég held að þessu fólki sé alls ekki hlátur í huga, langt í frá, kannski þeim sem gátu selt sig út úr þessu kerfi og fengið gullpeninga fyrir kvótann sem þeir fengu í staðinn fyrir sóknardagana. Það má vel vera að það hlakki í þeim í dag og þeir séu ánægðir. En maður hlýtur að minna það ágæta fólk á það að einn góðan veðurdag verður síðasta eyrinum eytt og þá munu menn átta sig á því að þeir hafa selt mjólkurkúna. Þeir hafa selt mjólkurkúna frá börnunum sínum og það mun hafa alvarlegar afleiðingar, ekki bara fyrir þá sjálfa heldur byggðirnar þeirra, fyrir börnin þeirra, fyrir framtíðina alla.

Ég er þeirrar trúar og þeirrar sannfæringar að fiskimiðin kringum landið séu auðlind. Þetta er endurnýjanleg auðlind sem getur gefið af sér einn þann besta afrakstur sem við sjáum í heiminum þegar verðmæti eru annars vegar. Við vitum það ef við skoðum sögulegar staðreyndir. Ég er þeirrar skoðunar að sjávarbyggðirnar allt í kringum landið séu mjög mikilvægar fyrir framtíð okkar Íslendinga sem þjóðar. Þær eru mjög mikilvægar fyrir sjálfsvitund okkar sem þjóðar. Þær eru mjög mikilvægar fyrir menningu okkar sem þjóðar. Þær eru mjög mikilvægar fyrir framtíð allrar þjóðarinnar. Það er ábyrgðarhluti, það er ábyrgð sem á að hvíla á herðum okkar stjórnmálamanna og ég skal glaður takast á við þá ábyrgð. Það er á ábyrgð okkar að sjá til þess að sú barátta sem forfeður okkar stóðu fyrir við að byggja þessi landsvæði verði ekki að engu. Við það að koma þessum þorpum upp. Við það að byggja upp atvinnulíf á þessum stöðum. Við það að byggja upp skóla, heilbrigðisþjónustu, hafnir, samgöngur, fjarskipti. Þar er okkar skylda að takast á við þá ábyrgð að halda þessu við. Þeirri ábyrgð megum við ekki gleyma og það er alvarleg aðför að framtíð þessara staða þegar við tökum lífsviðurværið frá þeim, gerum það að söluvöru á frjálsum markaði með hrikalegum afleiðingum. Menn geta ekki þrætt fyrir það að kvótakerfið, eins og það er útfært í dag, hefur haft mjög alvarleg áhrif á byggðaþróun í landinu. Menn geta ekki þrætt fyrir það. Það eru staðreyndir sem menn komast ekkert fram hjá. Ég held reyndar að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé innst inni sammála mér í þessu. Að minnsta kosti kýs ég, þegar ég les gamlar greinar eftir hann, að trúa því að þær hafi verið skrifaðar í góðri trú. Þar kemur fram sami grundvallartónn og kom fram í máli mínu hér áðan.

En einhvers staðar á ferli hans sem stjórnmálamanns kom eitthvað fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra, þegar hann var enn þá þingmaður og ákvað að kúvenda í vörninni fyrir flotann sem skiptir svo miklu máli fyrir þessa litlu staði. Hann ákvað að kúvenda, ekki bara þegar trillurnar voru teknar úr sóknardagakerfi og settar í kvóta heldur líka þegar trillurnar voru kvótasettar í hinum svokölluðu aukategundum eins og ýsu, ufsa og steinbít — sem var algerlega óþörf aðgerð. Það hefur sýnt sig að þar voru gerð mikil mistök. Þá fóru menn að stíga fyrstu skrefin í þá átt að gera þessa smábáta að algerri markaðsvöru með því að kvótasetja þá þannig að það var hægt að selja þá hvert á land sem er. Það fór að skipta miklu minna máli hvaðan þessir bátar voru gerðir út. Þeir þurftu ekki lengur að njóta nálægðar sinnar við fiskimiðin. Þessir bátar hurfu. Þetta var algjör óþarfi, það hefur komið í ljós að hvorki ýsa, ufsi né steinbítur voru í þeirri hættu að það réttlæti þessa aðgerð. Hvorki ýsa, ufsi né steinbítur.

Þetta eru kannski þeir þrír bolfiskstofnar hér á Íslandi sem hafa spjarað sig nokkuð vel undanfarin ár. Það er allt fullt af ýsu allt í kringum landið núna. Það er ekki kvótakerfinu að þakka. Það er alger fásinna að halda því fram. Við getum farið yfir það hvers vegna það er ekki kvótakerfinu að þakka. Það gerðist nefnilega eitthvað í líffræðinni hér í Norður-Atlantshafi í kringum árið 2000. Þá varð allt í einu ýsusprenging, við getum kallað það það, í öllu hafinu, allt frá Kanada austur um Færeyjar í Norðursjó við Ísland og í Barentshafi. Þá komu fram mjög sterkir árgangar af ýsu af ástæðum sem enginn skilur, enginn veit út af hverju það gerðist. En þetta gerðist og síðan hefur ýsustofninn verið að sækja mjög í sig veðrið á kostnað annarra fiskstofna, eins og til að mynda rækju og mjög sennilega þorsks líka því ég hef ýsuna grunaða um að éta sandsíli frá þorskinum og hugsanlega þorskseiðin líka. Þetta gerðist í náttúrunni en ekki vegna kvótakerfisins. Ef þetta hefði verið kvótakerfinu að þakka hefði þetta ekki líka gerst við Færeyjar því þar er ekkert kvótakerfi eins og við vitum, þar er sóknardagakerfi. Ufsinn hefur líka blómstrað við Færeyjar. Hann hefur líka sótt í sig veðrið hér. Það er ekki kvótakerfinu að þakka að ufsinn hefur sótt í sig veðrið. Þar hefur líka verið mjög góð nýliðun, bæði við Færeyjar og hér við Ísland.

Menn skulu því fara varlega í því að fullyrða að kvótakerfinu megi þakka fyrir þetta. En hitt er svo annað mál, eins og ég sagði áðan, að smábátarnir hefðu átt að hafa áfram það frelsi sem þeir höfðu allt í kringum landið til að stunda þessar veiðar. Ég tel að þessir bátar séu engin ógn við vistkerfið. Veður og annað hamlar þeim í það miklum mæli að ekki þarf að hafa svona afskaplega miklar áhyggjur af þeim. Hafi menn áhyggjur af þessum bátum er mjög auðvelt að setja reglur um hversu mikið af veiðarfærum þeir megi hafa í sjó á hverjum tíma og hafa síðan eftirlit með því. Flóknara þarf þetta nú ekki að vera. Það þarf ekkert að búa til eitthvert miðstýrt kerfi ríkisvaldsins til að stjórna fiskveiðum með þessum hætti. Það er alveg með ólíkindum að frelsishugsjónamennirnir í Sjálfstæðisflokknum skuli fallast á þetta. Þeir eru þar komnir mjög langt frá til að mynda skoðanabræðrum sínum í Færeyjum sem fussa og sveia allt hvað af tekur í hvert skipti sem talað er um kvótakerfi við þá og fara mjög svo háðulegum orðum um hið íslenska kerfi sem ég ætla ekki að hafa eftir hér. Hið sama má segja um íhaldsmenn á Bretlandi sem nú hafa lagt fram tillögur um það að fiskveiðistjórnun í Norðursjó verði endurskoðuð og þar verði tekið upp sóknarmarkskerfi í staðinn fyrir kvótakerfi því að kvótakerfið þar hefur ekki skilað neinum árangri.

Virðulegi forseti. Ég gæti svo sem haldið hér langa ræðu áfram um fiskveiðistjórnarmál og það má vel vera að ég biðji um orðið aftur til að halda hér seinni ræðu mína. Ég sé að tíminn líður hratt og ræðutími minn er senn á þrotum. Ég vil að lokum lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að þau hlutföll sem nefnd eru í þessu frumvarpi, bæði á þorski og ýsu, séu of há. Þau eiga að vera lægri, og það er sannfæring mín, vegna þess að þessir smábátar eiga að vera atvinnutæki úti á landsbyggðinni. Þeir eiga að vera sem dreifðastir allt í kringum landið til að halda uppi atvinnu á þessum stöðum. Þessar byggðir eiga að njóta nálægðar sinnar við fiskimiðin. Þær eiga að njóta þess að fá að eiga þessa báta í friði fyrir mönnum sem vilja safna þeim saman og búa til sem stærstan kvóta til að geta síðan smíðað sem stærsta báta til að auðgast á þessum kvótum með þeim hætti. Við verðum að fara að líta á þessa báta í miklu stærra samhengi en við höfum gert hingað til. Þeir skipta mjög miklu máli fyrir okkur Íslendinga sem þjóð. Þeir skipta mjög miklu máli fyrir mannlífið í landinu og ég mun hvenær sem er rísa til varnar og verja þennan flota. Ég mun hvenær sem er taka þátt í þeirri vinnu að koma þessum flota út úr kvótakerfinu aftur þannig að byggðirnar nái aftur vopnum sínum en þurfi ekki að upplifa lengur þá niðurlægingu og þær hörmungar sem þær hafa þurft að gera undanfarin ár meðan að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa ráðið ríkjum í landinu.