Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 06. febrúar 2006, kl. 19:25:01 (4348)


132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:25]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þessi rök nú eiginlega ekki boðleg. Mér finnst að á Alþingi eigi menn að horfa almennt á vandamálin og stuðning við einstakar atvinnugreinar eigi þá að ræða sérstaklega og hann kemur alveg fullkomlega til greina. Hins vegar er mjög varasamt að breyta reglum alveg sérstaklega um stjórn fiskveiða ef koma upp alveg sérstök vandamál í einhverjum einstökum greinum. Það eru almenn ákvæði t.d. sem hafa komið mönnum til hjálpar hvað varðar skelina. Og auðvitað er hægt að setja almenn ákvæði hvað varðar einhverjar svona uppákomur. En hér er alveg sértæk aðgerð til að koma í veg fyrir að menn missi kvóta í þeirri tegund sem um er að ræða. Það er nýtt í sölum Alþingis og full ástæða til að skoða það vandlega. Fyrir nú utan það að mjög vafasamt er hvort þetta mál eins og það er lagt fyrir stenst ákvæði stjórnarskrárinnar.