Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 06. febrúar 2006, kl. 19:51:55 (4354)


132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:51]
Hlusta

Sandra Franks (Sf):

Virðulegi forseti. Núverandi kvótakerfi hefur verið umdeilt um langt skeið og líklega hafa ekki jafnmiklar deilur staðið um nokkurt mál síðustu ár. Ég minnist þess reyndar að núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, hvar sem hann nú er, var einn af helstu gagnrýnendum þessa kerfis og mótmælti mörgum ágöllum þess. Það er eðlilegt í ljósi þess að hæstv. ráðherra er þingmaður Vestfirðinga og líklega hafa engir farið jafnilla út úr núverandi kvótakerfi og einmitt Vestfirðir.

Ég þarf örugglega ekki að lýsa því fyrir hæstv. ráðherra hversu grátt byggð á Vestfjörðum hefur verið leikin vegna þeirra möguleika sem kvótakerfið veitir til að flytja kvótann burt úr byggðum svæðisins. Hann og ekki síst Ísfirðingar og Bolvíkingar vita það flestum betur. Það má vel fallast á að kvótakerfið hefur ýmsa kosti í för með sér. Ég á sjálf rætur í sjávarútvegi og þekki af eigin raun ýmsa kosti þess. En ég þekki líka alvarlega galla þessa kerfis.

Ég vil í upphafi ræðu minnar leggja á það áherslu að kvótakerfið var í upphafi sett á stofn til að vernda fiskstofna við Ísland. Yfirlýstur tilgangur þess í upphafi var fyrst og fremst að tryggja að nytjastofnar við Ísland yrðu ekki ofveiddir. Það var aldrei ætlunin að kvótakerfið leiddi til stórkostlegrar samþjöppunar á aflahlutdeild sem auðvitað gat ekki þýtt annað en að hinir stóru og fjársterku stækkuðu á kostnað hinna smærri sem höfðu ekki sama aðgang að sjóðum í árdaga kerfisins. Framsalið, sem er undirstaða samþjöppunarinnar, og mest hefur verið deilt á, var aldrei meginmarkmið kvótakerfisins. Það kom ekki fram fyrr en eftir að kvótakerfið í núverandi grunnmynd kom fram. Þegar horft er til baka og kerfið er metið út frá mælikvarða fiskverndar, sem var upphaflegur tilgangur þess, er óhætt að segja að það sé í besta falli mikið vafamál hvort núverandi kvótakerfi hafi verndað fiskstofnana jafn vel og í upphafi var áformað.

Það þarf ekki annað en að líta til þorsksins. Kvótakerfið átti að byggja þorskstofninn upp en stofninn hefur minnkað frá því að kerfið var tekið upp og það leikur töluverð óvissa um vísindin sem liggja að baki stofnstærðarmælingum eins og reynsla síðustu ára hefur sýnt með ótvíræðum hætti. Ég veit vel að þetta snertir ekki meginatriði þess frumvarps sem við ræðum hér í dag en mig langar samt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að það sé í besta falli vafamál hvort kvótakerfið hafi náð tilgangi sínum sem fiskverndarkerfi. Framsalið, sem að vísu kom ekki fyrr en töluvert eftir að kvótakerfið kom á, hefur verið gagnrýnt harðlega vegna þess að það gerði mönnum kleift að selja frá sér kvóta eða veiðirétt, skv. 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, sem var almannaeign. Þetta varðar auðvitað grundvallaratriði og snýst í reynd um spurninguna um hvort almenningur sem lögbær eignaraðili fær það sem honum ber fyrir not afmarkaðs hóps af auðlindinni. Ég ætla nú ekkert að fara frekar út í þá deilu hér. En framsalið skiptir hins vegar máli fyrir það frumvarp sem hér er rætt í dag. Það frumvarp hefur bersýnilega þann tilgang að sporna gegn því að heildarkrókaaflahlutdeild safnist á of fáar hendur. Ákvæðin sem heimiluðu framsalið voru strax í upphafi gagnrýnd fyrir að skapa möguleika á of mikilli samþjöppun í greininni. Reynslan sýnir að sú gagnrýni var á rökum reist. Allar götur síðan hefur kvótinn verið að þjappast saman. Hann hefur í krafti framsalsins verið að færast frá minni útgerðum yfir á stærri útgerðir. Frá þeim sem höfðu minni aðgang að fjármagni yfir í hendur hinna stóru og fjársterku. Aðgangur að auðlindinni er fyrir vikið takmarkaður og nýir og öflugir aðilar eiga erfitt með að koma inn í greinina.

Frá hagfræðilegu sjónarmiði er efalítið auðvelt að verja þetta. Aukin samþjöppun getur leitt til aukinnar hagræðingar og aukinnar arðsemi af greininni sem birtist í ýmiss konar formi. Kosturinn við þetta kerfi er t.d. sá að til hafa orðið stór og fjársterk fyrirtæki sem hafa getað farið í útrás og haslað sér völl erlendis með því kaupa upp útgerðir, eins og nokkrar útgerðir hafa nú þegar gert. Það á vafalítið eftir að leiða til sterkrar stöðu Íslendinga í alþjóðlegum sjávarútvegi. En ókostirnir eru hins vegar augljósir. Samþjöppunin hefur leitt til byggðaröskunar. Sjávarbyggðir vítt og breitt við strendur landsins hafa tapað kvóta, ekki síst í kjördæmi hæstv. sjávarútvegsráðherra þar sem vestfirskum sjávarbyggðum hefur blætt í mæli sem enginn sá fyrir í upphafi. Þetta öðru fremur hefur hert á þeirri byggðaröskun sem hefur einkennt Ísland síðustu áratugi og hefur t.d. leitt til verulegrar fólksfækkunar eins og í kjördæmi ráðherrans.

Þetta sáu menn hins vegar fyrir. Af þeirri ástæðu var sett ákveðið hámark á aflahlutdeild í helstu nytjategundum beinlínis til að stemma stigu við þróun sem strax fór af stað í kjölfar framsalsheimildar laganna. Það hámark felur í sér takmarkanir á samanlagða aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila í fimm helstu tegundum botnfisks, auk síldar, loðnu og úthafsrækju. Miðast hámarkið við 12% í þorski, 35% í karfa en 20% í öðrum tegundum. Þá segir líka í 2. mgr. 11. gr. laganna í a-lið að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa megi aldrei nema meira en 12% af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um heildarafla.

Þessi hámörk um aflahlutdeild eru auðvitað ekkert annað en viðurkenning kvótaflokkanna á því að samþjöppun er mikil innan kvótakerfisins í krafti framsalsins. Hún er líka viðurkenning á því að of mikil samþjöppun er óæskileg og röskun á byggðarlögum vegna flutnings kvóta er að sama skapi jafnmikil. Ég hélt sem kona með rætur í sjávarútvegi hafandi fylgst með umræðu stjórnmálamanna að þetta væri einmitt eitt af því sem andstæðingar kvótakerfisins hefðu gagnrýnt hvað harðast á árum áður. En ég hélt að hæstv. sjávarútvegsráðherra væri í þeim hópi. Margir voru þeirrar skoðunar að til langs tíma væru þessi hámörk ekki nóg til að koma í veg fyrir byggðaröskun. Ég eins og margir aðrir beið auðvitað eftir því að kvótaandstæðingar í hópi stjórnarliða létu orð fylgja efndum. Ég hélt að þeir mundu beita sér fyrir því að þessi hámörk yrðu lækkuð til að draga úr samþjöppun kvóta til stóru fyrirtækjanna og þar með til að styrkja undirstöðu smærri fyrirtækja og landsbyggðarinnar. Ég átti satt að segja von á því að þetta yrði eitt af fyrstu verkum hæstv. sjávarútvegsráðherra. Frumvarpið sem hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir vil ég hins vegar leyfa mér að túlka sem gagnrýni á ákvarðanir fyrri ráðherra um kvótahámark í einstökum tegundum þó hann þori ekki að stíga skrefið til fulls og leggja til lækkun á þeim. Hæstv. ráðherra leggur hér til að hámark verði sett á krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila eða í eigu tengdra aðila. Hæstv. ráðherra leggur til að hún verði 6% í þorski, 9% í ýsu og 6% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar þeirrar tegundar sem krókaaflahlutdeild er úthlutað í.

Það vekur strax athygli mína að mörkin sem hæstv. ráðherra leggur til eru töluvert lægri en hámörkin fyrir samanlagða aflahlutdeild í helstu nytjategundum sem ég rakti áðan. Ég spyr: Getur það stafað af öðru en því að hæstv. ráðherra telji þau hámörk of há? Það er af þessari ástæðu sem ég lít á tillögu hæstv. ráðherra í þessu frumvarpi sem óbeina gagnrýni á ákvarðanir sem fyrirrennari hans beitti sér fyrir. Í ljósi þeirrar staðreyndar að framsal innan greinarinnar hefur stöðugt leitt til aukinnar samþjöppunar tel ég tillögur frumvarpsins vera að mörgu leyti skynsamlegar þó að sjálf hafi ég viljað sjá enn lægri prósentutölur en þær sem ráðherrann setur fram.

Menn gera sé fémæti úr því verðmæti sem felst í krókaaflahámarkinu með því að framselja hlutdeild sína til stærri og sterkari aðila. Við það tapast sannarlega störf þó að vissulega megi segja að hagkvæmni og arðsemi þeirra útgerða sem fá meiri kvóta aukist. Þarna vegast á hagsmunir. Ég tel ríkari hagsmuni felast í því að verja hagsmuni hinna smáu því að þeir leggja meira til styrkingar á landsbyggðinni að jafnaði en hinir sem hafa tilhneigingu til að hafa rótfestu í stórum byggðarlögum eins og í Reykjavík.

Það er einfaldlega ljóst, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að mikil sameining kvótaaflahlutdeildar hefur orðið og það er ástæðan fyrir því að rétt þykir að setja þær takmarkanir sem hér er lagt til þannig að krókaaflahlutdeildir dreifist á fleiri fyrirtæki og þar með fleiri sjávarbyggðir. Það sem vekur hins vekur mesta athygli í frumvarpinu eru þær tölur sem hæstv. ráðherra leggur til sem hámörk hjá krókaaflabátum, þ.e. 6% í þorski og 9% í ýsu og 6% í eigu tengdra aðila. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki hefði verið eðlilegra að fyrir lægju vísindaleg rök að baki þessum tölum. Mér leikur þó mest hugur á því að vita eða að hann skýri muninn á tölunum fyrir hámarkið annars vegar á krókaaflabátunum og hins vegar á flotanum í heild þar sem fyrirtæki mega veiða allt að 12% heildaraflamarks þorsks og 35% í karfa og 20% í öðrum kvótasettum tegundum. Þetta er sláandi munur.

Ef það er svo að löggjafinn telur að ekki eigi að fara hærra en 6% í þorski, 9% í ýsu og 6% í eigu tengdra aðila í krókaaflaflotanum, er þá ekki jafnnauðsynlegt að hafa hámörkin jafnlág í öðrum greinum flotans? Mig langar til að spyrja hvaða rök liggja fyrir því að það er ekki gert. Ég spyr af því að ég vil reyna að skilja samræmið í rökum ráðherrans. Má ekki alveg eins segja að hér sé verið að mismuna útgerðargreinum eftir því hvort þær eru á krókaaflahámarki eða á venjulegri aflahlutdeild? Mér finnst hæstv. ráðherra þurfa að skýra þetta betur.

Ég ítreka að ég er ekki að gagnrýna að tölurnar í tilviki krókabátanna séu of lágar, þvert á móti. En telji ráðherrann þessar tölur nauðsynlegar hjá bátum á krókaaflahámarki eru þá ekki tölurnar fyrir hámarkssamþjöppun á hinum skipum flotans of háar og hvað réttlætir þann mun? Ég bið ráðherra um að útskýra þetta fyrir mér. Er alveg ljóst hvort það samræmist jafnræðisreglunni að þetta fari svona? Í því ljósi spyr ég ráðherra hreint út hvort hann telji þá ekki nauðsynlegt að leggja fram frumvarp sem lækkar hámarkið á aðrar útgerðir og hvað þær megi þá hafa.