Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 06. febrúar 2006, kl. 20:43:03 (4360)


132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:43]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki veit ég betur en að hæstv. ráðherra hafi tekið þátt í semja þessi lög og setja þau hér á Alþingi. Það er bara verið að tala um það hvort fara eigi eftir þeim eða ekki. Það er verið að tala um að gera hér breytingar til þess að þurfa ekki að fara eftir þeim lögum sem eru núna í gildi. Ég held að menn þurfi að hugsa sig svolítið um áður en þeir hlaupa til og breyta lögum, berandi enga virðingu fyrir lögum sem í gildi eru, t.d. stjórnarskránni. Þar finnst mönnum bara allt í lagi að nota einhverjar nýjar röksemdir núna sem snúa í allt aðra átt en giltu í upphafi þegar rökin voru sótt í að það þyrfti að stjórna veiðum úr fiskstofnum til að vernda þá. Nú snúa rökin í hina áttina af því að það stendur illa á.

„Hvað á að gera?“ spyr hæstv. ráðherra. Það er hægt að styðja við þessa útgerð ef ríkisstjórnin (Gripið fram í.) kýs svo. Það er hægt að styðja við útgerð (Gripið fram í.) með ýmsum hætti. Það hefur verið gert áður á Íslandi. Vel kann að vera að ástæða sé til að gera það og full ástæða er til að fara yfir það. En það er ekki bara (Forseti hringir.) hægt að nota þá aðferð að breyta hér lögum og hafa einhverjar allt aðrar reglur fyrir þessar útgerðir en einhverjar aðrar.