Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 06. febrúar 2006, kl. 20:51:30 (4366)


132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:51]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skapar fjölmörgu fólki vinnu um allt land, já, kannski alls staðar nema á Vestfjörðum. Ég skal ekki segja. Þeim hefur a.m.k. fækkað mjög verulega þar eftir að þetta óhæfuverk var unnið hér í maí árið 2004.

En víkjum aftur að þessu atriði varðandi hlutdeildina, 6% þorskur, 9% ýsa. Hvers vegna ekkert í ufsa og steinbít? Mér fannst ráðherrann ekki svara því nægilega vel. Hann sagði að heimildirnar í þeim tegundum væru svo dreifðar hingað og þangað að það væri engin þörf á að setja neinar reglur um það. En er þá ekki einmitt þess vegna þörf á að setja einhverjar reglur, byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann? Það er talað um að þetta sé svo lífvænlegt kerfi og það hafi heldur betur komið á daginn að menn vilji vera í því.

Ástæðan er sú að braskararnir eru á fullu í kerfinu núna að mata krókinn. Er það ekki rétt að kvótinn hafi hækkað úr 700-kalli í 1.400-kall í þessu kerfi? Braskararnir eru á fullu að mata krókinn í kerfinu. Það er það sem er að gerast núna. Það mun halda áfram að gerast þangað til menn komast vart lengra. Þetta ferli er búið að vera að gerast í stóra kerfinu og sami leikurinn endurtekur sig aftur í þessu kerfi. (Gripið fram í.) Það er ekkert flóknara en svo.

Það er þetta sem við í Frjálslynda flokknum höfum verið að benda á og það er þetta sem stjórnarliðar eru núna, í einhverri örvæntingu, að reyna að koma í veg fyrir — en þeir passa sig á því að gleyma steinbítnum og ufsanum. Skyldi það ekki vera vegna þess að einmitt þessa stundina eru útvaldir gæðingar í Sjálfstæðisflokknum að safna til sín steinbítskvóta, nú eða ufsakvóta en þó sérstaklega steinbítskvóta fyrir vestan? Skyldi það ekki eiga eftir að koma á daginn? Mig grunar að svo sé. Einn helsti kvótapésinn var snöggur til á heimasíðu Landssamtaka smábátaeigenda þegar hann frétti af þessu frumvarpi og skrifaði þar inn í kommentakerfið: En hvað með steinbítinn?

Já, hvað með steinbítinn? Þar sjá braskararnir (Forseti hringir.) tækifærið núna.