Hlutafélög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 13:54:14 (4378)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[13:54]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er ákaflega leitt að koma í ræðustól og spyrja tveggja spurninga, mjög einarðrar og eðlilegrar spurningar um það af hverju hluthafafundurinn er ekki með, og fá ekkert svar við því. Og síðan um hvaða rétt blaðamenn hafa á þessum fundum, og fá ekkert svar við því heldur. Ráðherra á að veita slík svör. Þess vegna kemur hún í þingið með frumvörp sín. Það er til þess að þau verði rædd í þinginu. Hún á að geta gert það án þess að reyna að eyða því í almennu skvaldri eins og var hjá ráðherra hér áðan.

Ég endurtek spurningar mínar fyrir seinni framkomu ráðherrans í ræðustólnum. Hvaða ástæður eru fyrir því að ráðherrann og menn hennar í ráðuneytinu hafa ákveðið að fulltrúum fjölmiðla sé einungis boðið á aðalfund en ekki á hluthafafund?

Í öðru lagi. Hvaða rétt hafa blaðamenn, fulltrúar fjölmiðla, á þessum eina fundi sem þeir koma á, aðalfundinum?

Í þriðja lagi. Hvaða réttur er það í raun og veru umfram þann rétt sem fulltrúar fjölmiðla hafa nú? Því ég hygg að þær upplýsingar sem koma fram á aðalfundi þar sem einn hluthafi situr fundinn, er þingheimur á fundinum, séu upplýsingar sem blaðamenn hafa þegar aðgang að núna og allur almenningur. Það er spurning um ársskýrslu. Það er spurning um einfaldar staðreyndir sem koma yfirleitt fram á netinu hjá jafnvel þeim fyrirtækjum sem hér er um að ræða, þó að hinn mikli kostur sem ráðherra nefndi yfir hlutafélagsformið virðist vera sjálf leyndin sem ekki á að aflétta nema með einhverjum örlitlum táknrænum hætti. Ég spyr því þessara þriggja spurninga:

1. Af hverju ekki hluthafafund?

2. Hvaða réttur er það sem blaðamenn nákvæmlega hafa á þessum aðalfundi?

3. Að hvaða leyti bætir sá lögfesti réttur, ef af verður, hag fjölmiðlastéttarinnar og þar með almennings gagnvart þessum upplýsingum?

Og nú vil ég fá skýr svör og bið forseta að fylgjast með því að ráðherra veiti þau. Til þess er hún hér á þinginu.