Hlutafélög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 14:38:17 (4384)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[14:38]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Vegna andsvarsumræðu áðan sem ég átti við hæstv. viðskiptaráðherra verð ég að lýsa vonbrigðum mínum með svör hennar eða skort á þeim í þeirri umræðu. Viðskiptaráðherra bar það fyrir sig í skorti sínum á svörum að þetta væri 1. umr. um málið og síðan væri hægt að laga það betur í nefnd.

Þá má spyrja, og ég gerði það reyndar utan stóls, hvort ráðherra ætli sér að sækja nefndarfundina og gefa sjálf þær upplýsingar sem þar ættu að koma fram. Viðskiptaráðherra hæstv. sagði mér utan stóls að það væri ekki, því að hún sækti ekki nefndarfundi. Það er rétt að ráðherrar gera það ekki en ættu kannski að gera það og væri nú rétt að koma því í lög að þeir gerðu það, en það ætlar hæstv. viðskiptaráðherra sér alls ekki að gera.

Því má spyrja, ef hún ætlar ekki að gera það en vísar spurningum um frumvarpið þó inn í nefndina, af hverju ætli sé gert ráð fyrir því í þingsköpum að flutningsmenn mála mæli fyrir þeim við 1. umr.? Þetta er spurning sem er rétt að ég og hæstv. viðskiptaráðherra veltum fyrir okkur vegna þess að það er auðvitað ekkert sjálfgert að það sé svo. Það gæti verið þannig að t.d. frumvörp kæmu hér inn frá ráðherranum eða öðrum flutningsmönnum og rynnu bara beint til nefndar og síðan færu þau í almenna umræðu eða með einhverjum öðrum hætti slíkum. En það er ekki þannig og hefur verið frá upphafi þingsins á hinn veginn, að ætlast er til að flutningsmenn geri grein fyrir málum sínum í 1. umr. Það er meira að segja þannig í þingsköpum, sem hæstv. ráðherra þekkir auðvitað miklu betur en ég, enda hefur hún miklu meiri þingreynslu en ég, að í 38. gr. stendur að þetta skuli gert, að mál skuli vera í 1. umr. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Við fyrstu umræðu skal ræða frumvarpið í heild sinni.“

Síðan fer málið, eins og iðnaðar- og viðskiptaráðherra væntanlega veit, að lokinni 1. umr., ef það er leyft, til nefndar og kemur svo þaðan til 2. umr.

Þá stendur í þingsköpum, 39. gr, með leyfi forseta:

„… skal þá ræða greinar frumvarpsins og breytingartillögur við þær.“

Um þetta frumvarp er það að segja að til að hægt sé að ræða það í heild sinni verður að spyrja ákveðinna spurninga um meginefni þess. Og hvert skyldi nú meginefni frumvarpsins vera? Meginefni frumvarpsins, það kom meira að segja fram í ræðu sjálfs flutningsmannsins, er að með þeirri breytingu að sum hlutafélög verði opinber á að auka á aðgang að upplýsingum beint til almennings eða í gegnum fjölmiðlana.

Svo má segja að það sé efnislega annað mál í einni grein og það varðar aukið jafnrétti kynja í stjórnum félaganna, þó að það sé nú dauflega orðað miðað við hvernig það er t.d. í Noregi.

Meginefni frumvarpsins er því upplýsingagjöf til almennings. Þegar spurt er um hvernig hún eigi að fara fram samkvæmt frumvarpinu, af því að það er óljóst í frumvarpinu, þá svarar ráðherra ekki þeim spurningum. Ég lýsti vonbrigðum mínum með það við forseta áðan og ég get ekki annað en endurtekið það. Mér finnst að ráðherra eigi að vera klár á því hvað hún er flytja hér á þinginu og eigi að geta svarað almennum spurningum um það mál, hvað þetta og þetta merki þegar um aðalatriði máls er að ræða. Ég get hins vegar alveg skilið það að ráðherra eða aðrir flutningsmenn séu ekki alltaf alveg klárir á því hvað getur falist í einstaka greinum og óþarfi að fara í miklar krókaflækjur um það í 1. umr. Eins og ráðherra sagði, hægt er að gera það í nefnd.

Ég spurði þriggja spurninga og ég vil endurtaka þær vegna þess að ég hef ekki fengið svar við nokkurri þeirra. Fyrsta spurningin var þessi: Af hverju tiltekur ráðherra það í lagafrumvarpi sínu að blaðamönnum eigi að hleypa inn á aðalfundi en ekki inn á hluthafafundi?

Í öðru lagi spurði ég: Hvaða rétt hafa blaðamenn á þessum fundum? Ég þóttist taka eftir því að í ræðu ráðherrans hafi eitthvað verið fram um það tekið og ég bið um endurtekningu á því vegna þess að það stendur ekki í lögunum og ekki í athugasemdum við lagafrumvarpið, hvaða rétt þeir hafa, það stendur bara að boða megi þá á fundina. Þetta er spurning sem er ákaflega mikilvæg vegna þess að ef það er einungis heimilt að boða þá á fundina og ef við skiljum lögin í þrengsta lagi er það í raun og veru þannig að fulltrúi fjölmiðla, hver sem það nú er, getur sest inn á fund. Og hverjir sitja fundi í opinberu hlutafélagi af þeirri gerð sem Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, gerir ráð fyrir? Jú, stjórnarmenn fyrirtækisins og einhvers konar starfsmenn þess sitja fyrir framan hluthafann sjálfan, og hver er það? Það er ráðherrann eða fulltrúi hans.

Þær umræður sem oft verða á aðalfundum í hlutafélögum, og eru kannski aðal þeirra funda, skapast af því að hluthafarnir spyrja, að hluthafarnir eru heimur sem er margsamsettur. Oft er ákveðinn ráðandi hluti, einstakir hluthafar sem hafa bundist einhvers konar samtökum eða eru nógu sterkir sjálfir til að ráða í raun og veru gangi fyrirtækisins og síðan eru aðrir hluthafar sem eru kannski með þeim í ráðum að einhverju leyti. Enn er til í dæminu að það séu menn með lítinn hlut í fyrirtækjum. Það er slík samkunda sem gerir aðalfundi hlutafélaga merkilega og að viðburðum oftast nær eða a.m.k. stundum, sem einmitt fjölmiðlar kynnu að hafa áhuga á og gætu fræðst af, jafnvel þó að þeir hefðu ekki málfrelsi, hvað þá tillögurétt, sem er nú ekki ætlast til á slíkum fundum.

Í ljósi þessa vaknar mikilvæg spurning: Hefur fulltrúi fjölmiðils leyfi til að spyrja spurninga á aðalfundi? Hefur hann rétt til að fá svör við þeim spurningum, t.d. ámóta og hluthafi í venjulegu hlutafélagi? Ef það er svo ber að líta öðruvísi á þetta frumvarp en ég gerði eftir því sem mér heyrðist hæstv. ráðherra tala áðan.

Ef réttur fjölmiðilsins felst einungis í að mæta á aðalfundinn og hlusta á samskipti eina hluthafans, þ.e. þess sem fer með hlutabréfið og lítur á sig sem hluthafa í félaginu, þ.e. ráðherra eða erindreka hans við stjórnendurna, þá geri ég ráð fyrir að fjölmiðlar muni ekki eyða tíma í það. Væri ég ritstjóri á blaði eða fréttastjóri á útvarps- eða sjónvarpsstöð mundi ég ekki senda blaðamenn mína á slíkan fund. Það eina sem ég mundi hugsanlega gera á merkilegum fundum af því tagi væri að senda ljósmyndara og láta hann taka myndir, notfæra mér þann rétt sem ég geri ráð fyrir að ég fengi hvort eð er.

Þriðja spurningin sem ég spurði hæstv. ráðherra en hef ekki fengið svör við er þessi: Ef skilningur minn á því sem ráðherrann sagði er réttur — þótt hún hafi ekki af einhverjum ástæðum hirt um að taka það fram í greinargerðinni um lögin, að blaðamenn hafi engan rétt annan en þann að koma, hlusta eða taka myndir — hverju erum við bættari miðað við það ástand sem nú ríkir? Ég hygg að aðalfundir flestra þeirra félaga sem við tölum hér um séu að þessu leyti opnir, að hægt sé að senda á þá ljósmyndara eða að a.m.k. standi ekki mikið í vegi fyrir því, ef blíðlega er farið að forustumönnum félagsins, og jafnvel hægt að fá að sitja og hlusta á þau formlegu samskipti sem þar fara fram. Þetta þurfti ég að ræða sérstaklega við ráðherrann og bið hana enn að svara þessum þremur spurningum sem ég tel mig eiga rétt á að fá svar við við 1. umr. um þetta mál.

Ég vil svo segja það sérstaklega um eitt fyrirtæki eða stofnun, sem ég vil frekar kalla fyrirtæki hvernig sem menn vilja flokka það, þ.e. Ríkisútvarpið. Ég vildi ræða aðeins um það í tengslum við þetta frumvarp, vegna þess að ég hygg að frumvarpið sé einkum fram komið vegna Ríkisútvarpsins. Að minnsta kosti er sérstaklega til þess vísað, frumvarps viðskiptaráðherra, í greinargerð með frumvarpi um Ríkisútvarpið hf. sem hæstv. menntamálaráðherra flytur. Þar er þáttur í rökstuðningi menntamálaráðherra fyrir því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag að á leiðinni sé þetta fína frumvarp um opinber hlutafélög og þar með þurfi ekki að hræðast neitt það sem menn hafa hræðst og óttast við breytingu Ríkisútvarpsins í hlutafélag.

Það er einkum tvennt sem maður skoðar í því samhengi. Áður en lengra er haldið er þó kannski rétt að taka fram að við í Samfylkingunni höfum í sjálfu sér ekkert á móti orðinu. Við höfum enga stefnuyfirlýsingu gegn orðinu eða hugtakinu hlutafélag. Það er ekki þannig. Það hefur margoft komið fram og óþarft að snúa út úr því. Við teljum að hlutafélög geti átt rétt á sér. Hlutafélag hefur, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson lýsti ágætlega áðan, marga kosti í samkeppnisrekstri. Það getur líka haft kosti í rekstri þar sem samkeppnisþátturinn er einn af nokkrum þáttum og jafnvel einnig haft kosti í rekstri, þótt það þurfi að rökstyðja sérstaklega, þar sem ekki er um samkeppni að ræða. Þetta er algengt form eins og menn hafa margtuggið hér. Menn þekkja það.

Við höfum hins vegar bent á að eðlilegra sé að Ríkisútvarpið sé sjálfseignarstofnun, eins og ýmis ágæt fyrirtæki og stofnanir eru sem starfa á almannasviði, á sviði almannaþjónustu, heilbrigðissviði eða menntasviði. Við höfum ekkert á móti orðinu hlutafélag og sérstaklega ekki, það höfum við sagt, ef til væru reglur um opinber hlutafélög sem fullnægðu þeim skilyrðum sem menn hljóta að setja fram um fyrirtæki eins og Ríkisútvarpið, þ.e. um aðgang almennings, fulltrúa almennings á þingi og fulltrúa almennings í fjölmiðlunum, að sem mestum upplýsingum um félagið, um rekstur þess, gang, skipulag þess og stjórnarhætti. Sá aðgangur yrði takmarkaður að því leyti sem samkeppnisrekstur þess gefur tilefni til, að sjálfsögðu. Það kemur ágætlega fram í frumvarpinu sem við samfylkingarmenn flytjum undir forustu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Sá ágæti þingmaður skýrði það frumvarp sérstaklega út fyrir ráðherra eftir andsvar sem ráðherra gaf áðan, án þess að hafa lesið frumvarpið til hlítar. Hún hefur þá ekki fengið nægar ráðleggingar frá aðstoðarmanni sínum sem situr í hliðarsal og hefur stjórnað ráðherranum í þessu máli og kannski fleirum. (Viðskrh.: Hvers lags er þetta?)

Er þetta rangt, forseti, að þetta sé svona? Ég held að þetta sé einfaldlega svona. (Viðskrh.: Karlrembuháttur.) Hæstv. ráðherra fór með staðlausa stafi um frumvarp sem við samfylkingarmenn flytjum og á að skammast sín fyrir það og biðjast afsökunar á því frekar en að kalla fram í ræður.

Annað varðandi Ríkisútvarpið, af því að sporin hræða varðandi stofnun hlutafélaga hér á landi úr ríkisstofnunum, er að slík stofnun hlutafélags hefur í yfirgnæfandi meiri hluta tilvika — ég hygg að Flugstöð Leifs Eiríkssonar sé eina undantekningin sem nú er uppi — verið undanfari sölu. Kannski er, a.m.k. í öðrum ríkisstjórnarflokknum, litið þannig á Flugstöð Leifs Eiríkssonar að sala gæti verið rökréttur endir á því ferli.

Í okkar frumvarpi, sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er 1. flutningsmaður að, gerum við ráð fyrir sérstakri heimild í hlutafélagalögum til að gera ráð fyrir auknum meiri hluta á þingi við að selja fyrirtæki. Sú heimild mundi ná til að setja það í sérlögin um hvert fyrirtæki eða að gera það í samþykktum eftir atvikum.

Ef maður lítur á þessa tvo þætti í frumvarpi ráðherrans um opinber hlutafélög þá er síðari þáttinn hvergi að finna. Hvergi er gert ráð fyrir því lýðræðisleg nauðsyn kunni að kalla á aukinn meiri hluta. Það er að vísu ekkert sem bannar það í þessum lögum, enda væri ekki hægt að banna slíkt ákvæði í sérlögum, en það er ekki gert ráð fyrir því. Ég tel það mikinn galla á lögunum.

Varðandi upplýsingarnar þá er ákaflega fátæklega um þær fjallað í lagafrumvarpi hæstv. ráðherra. Það eru mikil vonbrigði að líta á þetta frumvarp frá því sjónarmiði. Í raun gerist það eitt, fyrir utan að fyrirtækjum sé gert að setja ákveðna pappíra á netið, að fulltrúum fjölmiðla er hleypt á aðalfund, ekkert annað. Það er ekki gert ráð fyrir því að upplýsingalög gildi um þessi fyrirbæri. Þannig er komið í veg fyrir að almenningur geti sótt upplýsingar samkvæmt upplýsingalögunum. Almenningur getur því ekki gengið að stjórninni og starfsmönnum fyrirtækisins og sótt þær upplýsingar sem upplýsingalögin gera ráð fyrir og hann getur ekki þegar stjórn eða starfsmenn heimila ekki slíkar upplýsingar til almennings, sótt sinn rétt til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og fengið um það úrskurð. Það er ekki gert ráð fyrir því og ekki gert ráð fyrir því heldur að þingmenn, í þessu tilviki — við gerum líka ráð fyrir sveitarstjórnum í okkar frumvarpi, geti sótt sér upplýsingar, annaðhvort sjálfir eða með fyrirspurnum á þingi um rekstur, starfsemi og stjórnarhætti í þessum opinberu hlutafélögum.

Ég veit því ekki til hvers ráðherra flytur þetta frumvarp. Ég held að það séu í raun ekki efnislegar ástæður fyrir því, enda kom það ágætlega fram í fyrra í umræðunum að ráðherra hafði ekki mikinn skilning á því að slíkar reglur þyrfti. Mín ályktun er sú að hér sé um það að ræða að ráðherrarnir og ríkisstjórnin séu í dulbúningi að setja upp pótemkintjöld til að hlutafélagavæðing ríkisstofnana gangi betur, að fegurra yfirbragð verði á henni þar sem menn geti talað um opinber hlutafélög með þeim hætti að ljósmyndurum dagblaðanna sé hleypt inn á aðalfundi. Það er í raun hið eina sem gerist. Eina gagnið sem menn hafa af þessum lögum er að fjölmiðlum skapast réttur til að senda ljósmyndara á aðalfundinn. Ef menn tíma að eyða vinnustund blaðamanns í að sitja og hlusta á formleg samskipti ráðherra og þeirra sem hann hefur komið fyrir inni á þeim aðalfundi þá er það heimilt líka.

Gagnvart Ríkisútvarpinu eru þessi lög handónýt. Það er afstaða okkar í Samfylkingunni. Það kom fram við 1. umr. að við erum ekki til umræðu um hlutafélagaform á Ríkisútvarpinu með vísun til þessa frumvarps. Í það vantar allt um upplýsingaþáttinn og að trygging fáist fyrir því að ekki sé um það að ræða að Framsóknarflokkurinn skipti enn einu sinni um skoðun í þeim efnum og fallist á sölu á Ríkisútvarpinu, annaðhvort á næstu árum, í tíð þessarar ríkisstjórnar, eða síðar. Þetta er allmikill galli. Ríkisútvarpið mun hin beina ástæða þess að þetta frumvarp er flutt.

Forseti. Ég vona að ráðherrann skoði þetta betur. Ráðherrann er að ég hygg ágætur maður og vonandi til viðræðu um breytingar. Þær þyrftu að vera þannig að þær dragi dám af frumvarpi okkar í Samfylkingunni, sem meira að segja hv. þm. Ögmundur Jónasson er hrifinn af. Hann er þó ekki hrifinn af hlutafélögum yfirhöfuð. Ég bendi, í tengslum við Ríkisútvarpið, á heimildina í frumvarpi okkar til að búa til skilyrði um aukinn meiri hluta við sölu. Það sem sem núna er í ríkisútvarpsfrumvarpinu er bara táknrænt og heldur ekki sjó, jafnvel þó að hann sé tiltölulega sléttur, gagnvart sölunni.

Varðandi það hins vegar að opna aðganginn að upplýsingunum er það í tilviki Ríkisútvarpsins sérstaklega mikilvægt. Hjá því ættu menn að eiga greiða leið að öllum upplýsingum nema hugsanlega þeirra sem varða samkeppnisrekstur. En við hæstv. ráðherra erum væntanlega sammála um að samkeppnisrekstur sé ekki fyrsta og fremsta hlutverk Ríkisútvarpsins heldur að standa fyrir góðu almannaútvarpi á Íslandi.