Hlutafélög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 15:40:59 (4391)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[15:40]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög. Markmiðið með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er að taka þar inn ákvæði sem lúti sérstaklega að hlutafélögum í opinberri eigu. Í upphafi umræðunnar í andsvari mínu við framsöguræðu hæstv. ráðherra vék ég að nokkrum grundvallaratriðum sem mér finnast vera óljós í málflutningi ráðherrans og þeim markmiðum sem verið er að setja fram.

Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að halda til haga að hlutafélög og ég vek athygli forseta á því, að hlutafélög eru fyrst og fremst ætluð sem umgjörð um rekstur í samkeppni, samkeppnisrekstur. Nú geta fyrirtæki verið í samkeppnisrekstri þótt þau séu ekki hlutafélög, að sjálfsögðu. Hlutafélög hafa þann eina tilgang, fyrsta tilgang, að hlutir geta gengið kaupum og sölum, það er hægt að auka eigið fé hlutafélagsins, fyrirtækisins með því að fjölga hlutum, bjóða inn nýtt hlutafé. Þetta er megintilgangurinn með hlutafélagi. (PHB: Takmarka áhættu.) Takmarka áhættu, já að sjálfsögðu, en að gefa þetta svigrúm á móti þannig að hlutirnir eru fyrst og fremst ábyrgir fyrir skuldbindingum félagsins. Ef maður vill auka eigið fé þá gerir maður það m.a. með því að fjölga hlutum. Þetta eru markmiðin með hlutafélagi. Eigandinn, sá sem á 100% getur selt 10% til að geta losað þar um fé. Þetta eru kostir hlutafélagsins.

Varðandi hlutafélag í eigu ríkisins þar sem er bara einn hlutur þá eru þessir kostir ekki uppi á borðinu, eða hvað? Ekki ef ekki á að nýta þetta hlutafélagaform. (Gripið fram í.) Þá er ekki hægt að nýta þessa hluti ef maður ætlar ekki að selja hlutina, þá er ekki hægt að nýta í samkeppnisrekstri, meginkosti hlutafélagaformsins. Þess vegna er þetta frumvarp sem hér er verið að flytja fullkomlega á villigötum hvað varðar opinber þjónustufyrirtæki.

Hvers vegna ætli sé verið að flytja þetta frumvarp um opinber hlutafélög? Það er vegna þess að nú er ríkisstjórnin undir forustu iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins að hlutafélagavæða hvert almannaþjónustufyrirtækið á fætur öðru.

Við þekkjum sögu hlutafélagavæðingar Símans. Ég kem aðeins að því á eftir. En núna er það raforkan, Rarik. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur lýst miklum áhuga á því að ná í Landsvirkjun svo hægt sé að hlutafélagavæða hana. Það eru Matvælaeftirlitið og þjónustustofnanir sem lúta að rannsóknum í matvælum — það á að stofna hér Matvælastofnun hf. Það eru Flugmálastjórn og Ríkisútvarpið. Þetta er nú það sem rekur á eftir þessari lagasetningu.

Ég held að það sé ekkert á Sjálfstæðisflokkinn hallað, frú forseti, og ég biðst afsökunar ef ég hef hallað á hann með því að segja að Framsóknarflokkurinn og hæstv. iðnaðarráðherra hafi verið látin draga vagninn í einkavæðingarmálum á vegum ríkisstjórnarinnar. (Iðnrh.: Ég vildi draga vagninn.) (PHB: Það er skynsamlegt.) Það er skynsamlegt, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal, að láta Framsókn draga vagninn, láta Framsókn vera undir reiðingnum. Þessi einkavæðingarvagn Framsóknarflokksins er mjög kostulegur ef maður hugar að því úr hverju sá flokkur er sprottinn. Sá flokkur er sprottinn upp úr félagshyggju, upp úr samvinnuhugsjóninni. Það væri fróðlegt að heyra hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra velta því fyrir sér hvernig þessi einkavæðingar- og hlutafélagaárátta í almannaþjónustu samræmist félagshyggju Framsóknarflokksins. Enda minntist hæstv. ráðherra á það í andsvari sínu að þetta væri svo mikið framúrstefnumál hjá henni og í takt við nýjan tíma o.s.frv. Er það það?

Þessi mál hafa einkennt vinnubrögð Framsóknarflokksins, einkavæðing á almannaþjónustunni. Hvernig ætli Framsóknarflokkurinn njóti þess nú í skoðanakönnunum? Hvernig ætli hæstv. viðskiptaráðherra njóti þess í skoðanakönnunum að hafa verið dráttarklár íhaldsins í einkavæðingunni? Borið reiðinginn í einkavæðingarlestinni. Ég held, frú forseti, að forusta Framsóknarflokksins ætti að fara að hugsa sig um, rækilega. Fara að hlusta á fólkið í landinu og spyrja sig: Er flokkurinn á réttri braut eða ekki? Í rauninni heyrist mér sumir þingmenn flokksins ekkert efast um að hann sé á rangri braut í því einkavæðingargaleiðuferli sem hæstv. iðnaðarráðherra er í. Mér heyrist sumir þingmenn, forustumenn í Framsóknarflokknum, reyndar ekki þeir sem eru þar í æðstu metorðum en margir aðrir, efast stórlega um og reyndar vera vissir um að flokkurinn er á rangri leið.

Ég vil hvetja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem hér var að guma af einkavæðingarverkum sínum, til að staldra við og fara að hlusta á grasrótina. Rifja upp gömul félagsgildi Framsóknarflokksins og reyna að ná áttum. (HBl: Eru þau bara ekki talin úrelt?) Það má vel vera að það sé satt, frú forseti, það sem hv. þm. Halldór Blöndal leggur hér inn í umræðuna, að Framsóknarflokkurinn og sjónarmið hans séu orðin úrelt. Það má vel vera. En þetta er eitthvað sem íhaldið notast við og reynir að kreista síðustu blóðdropana út úr í því einkavæðingarferli sem keyrt er áfram. (HBl: Það voru góðir framsóknarmenn á Ströndum.) Það voru góðir framsóknarmenn á Ströndum. Það er alveg hárrétt. Úr því að hv. þingmaður vill rifja upp góða daga Framsóknarflokksins þá minnist ég þess þegar Hermann Jónasson var þingmaður Strandamanna. Ég hefði ekki séð hann sem meðflutningsmann hæstv. ráðherra hér, að einkavæða almannaþjónustuna. Það hefði ég ekki séð. Ég hefði seint trúað því að Hermann Jónasson, þingmaður Strandamanna, hefði staðið að því.

Ég minnist þess þegar Hermann Jónasson barðist fyrir lagningu símans. Ég minnist þess. (HBl: Var það ekki Hannes Hafstein aðallega sem ...?) Það lögðu fleiri lið. En ég minnist þess að Hermann Jónasson barðist mjög fyrir lagningu símans út um allt land, heim á hvern einasta bæ. (PHB: Hvað varstu gamall þá?) Ég er ekki viss um að Hermann Jónasson hefði gefið mikið fyrir það hvernig hæstv. þáverandi samgönguráðherra brást yfirlýsingum sem hann gaf — ég skal rifja það hér upp varðandi það þegar þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, hlutafélagavæddi Póst og síma. Hv. þingmaður var í viðtali við BSRB-tíðindi sem birtist í 4. tbl. 8. árg. frá 1995. Ég segi þetta vegna þess að hv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir: Ég ætla mér að hlutafélagavæða Rarik en við ætlum ekki að selja það. Við ætlum að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið en við ætlum ekki að selja það. Við ætlum að hlutafélagavæða Matvælastofnun en við ætlum ekki að selja hana. Bíddu við. Hvað sagði hæstv. þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, sem hér blandar sér í umræðuna úr salnum þegar verið var að fjalla um Póst og síma? Hvernig ætli hann hafi staðið við það? Með leyfi forseta:

„Póstur og sími er vel rekin stofnun. Þjónustan ódýr og mjög vel er fylgst með tæknisviðum.“ — Er þetta ekki nákvæmlega það sama og við segjum um Rarik? Ríkisútvarpið gerir það besta úr því sem það fær.

Síðan segir hér áfram, með leyfi forseta:

„Á hinn bóginn geldur Póstur og sími óneitanlega þess í daglegum viðskiptum og markaðssetningu að vera opinber stofnun sem rekin er eftir fjárlögum. Póstur og sími gæti t.d. ekki gerst hluthafi í hlutafélögum þótt í smáu sé. Ákvarðanataka með þessum hætti er of þung í vöfum og samræmist ekki nútímaviðskiptaháttum. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að breyta rekstrarformi Pósts og síma til að styrkja samkeppnisstöðu hans og starfsöryggi þess fólks sem þar vinnur.“ — Takið eftir því, frú forseti, að þáverandi samgönguráðherra segir „starfsöryggi þess fólks sem þar vinnur“. — „Ég legg áherslu á að í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Póstur og sími verði áfram alfarið í eigu ríkisins.“

Þetta var yfirlýsing þáverandi samgönguráðherra, sem hann gaf þegar verið var að breyta Pósti og síma í hlutafélag. Er þetta ekki nákvæmlega sama yfirlýsingin, er þetta ekki nákvæmlega sami textinn og hér hefur verið farið með af menntamálaráðherra varðandi Ríkisútvarpið? Af iðnaðarráðherra hæstv. varðandi Rarik? Jú. Ætli svardagarnir séu ekki nákvæmlega jafnmikils virði og svardagarnir sem gefnir voru fyrir því að Póstur og sími yrði aldrei seldur?

Ég rifja þetta hér upp, frú forseti, til að vekja athygli á þeirri vegferð sem menn eru á. Þegar menn breyta í hlutafélög er það til þess að geta selt. Þegar hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra flytur hér frumvarp um hlutafélög í opinberri eigu, þar sem litlu er breytt frá núgildandi hlutafélagalögum, þá er það fyrst og fremst yfirklór. Þegar maður breytir almannaþjónustufyrirtæki í hlutafélag þá er maður að búa það undir sölu. Þegar maður breytir fyrirtæki í hlutafélag þá er maður að búa það undir sölu. Það er bara svo augljóst mál. Annars væru menn að misnota hlutafélagaformið.

Það er líka eitt, frú forseti, sem væri fróðlegt fyrir íslenskufræðinga að velta fyrir sér. Lögin heita „Lög um hlutafélög“. Eiga þau líka að geta gilt um félög þar sem aðeins er einn hlutur? (HBl: Hafa bara eitt hlutabréf í því.) Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni sem grípur hér fram í. Hafa bara eitt hlutabréf. Enda var það tilgangurinn. Þá er svo auðvelt að selja það. Það skal bara selt í einu lagi, var það ekki sagt þegar farið var af stað? Hluthafafundur með einum manni mættum, það er verið að skrumskæla hlutafélagaformið með þessum hætti.

Hinn kosturinn við hlutafélög er sá að það er hægt að kalla eftir arði. Það er hægt að kalla eftir arði úr félögunum. Er það ætlunin, t.d. með því að hlutafélagavæða RÚV, að gera það að fyrirtæki sem kallar eftir arði? Nei, það dettur mér ekki í hug. Það er líka eitt atriði varðandi hlutafélagaformið, frú forseti, og hlutafélög í eigu ríkisins. Samkvæmt fjárreiðulögum er almennt gert ráð fyrir að hlutafélög í rekstri, eða fyrirtæki á vegum ríkisins, lúti stjórn eða að fjármálaráðherra fari með slík hlutabréf. Mér er spurn: Er það eðlilegt að hin einstöku fagráðuneyti, sem eru fyrst og fremst þjónusturáðuneyti, séu svo almennt orðin handhafar hlutabréfs í fyrirtækjum — sem samkvæmt skilgreiningu þess ráðherra sem flytur mál hér eru fyrirtæki sem eru komin á samkeppnismarkað? Ég dreg stórlega í efa að það sé stjórnsýslulega rétt. Enda var það svo með Símann að hlutabréf hans var hjá samgönguráðherra en síðan var tekin sú ákvörðun að flytja það hlutabréf til fjármálaráðherra. Það var fjármálaráðherra sem í raun fór með hlutabréfið á síðustu missirum Símans. En þetta, að hvert og eitt ráðuneyti, hvort sem það er viðskiptaráðuneyti, samgönguráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, jafnvel umhverfisráðuneyti eða hvað það nú er — ef þau eiga öll að fara að standa í umsjón með ríkishlutafélögum. Ég dreg í efa að við séum þar á réttri leið, burt séð frá þeirri umræðu hvort stofna eigi slík hlutafélög eða ekki. Ég vil alla vega kasta fram því sjónarmiði mínu að hlutafélög í opinberri eigu, hvort sem þau eru að hluta eða að öllu leyti í eigu ríkisins, ættu að vistast hjá einu ráðuneyti. Ég tel að minnsta kosti mjög eðlilegt að það væri skoðað. Frekar en að láta þau vera út um allt í stjórnkerfinu. Því það þarf þá nefnilega líka að njóta sérþekkingar þeirra sem með hlutafélagamál fara. Er það ekki tilgangurinn með hlutafélagavæðingunni?

Ég vil leyfa mér að gera athugasemdir og spyrja hvers vegna ekki sé eðlilegast og hvers vegna það sé ekki kannað að hlutafélögin öll séu á einum stað. Það er ekkert óeðlilegt að ríkið geti átt hlut í hlutafélagi í atvinnurekstri. En hér er verið að leggja upp með lög um opinber hlutafélög sem eru bara sýndarlög. Það á að strika yfir upplýsingaskylduna. Það á að strika yfir aðkomu stjórnsýslulaga sem gilda um opinbera þjónustu og um opinbera starfsemi. Það á að strika það út. Þá sé ég ekki hver er ávinningurinn af því að búa til hlutafélag um þetta ef ekki á að selja.

Hérna er verið að leggja upp í einkavæðingarvegferð til að liðka fyrir hlutafélagavæðingu og í framhaldi af því sölu Ríkisútvarpsins, Matvælastofnunar, Flugmálastjórnar, Rariks og annarra þeirra almannaþjónustufyrirtækja sem ríkisstjórnin er að beita sér fyrir að verði sett á markað. Skoðun Sjálfstæðisflokksins liggur fyrir í þessu máli og Framsóknarflokkurinn hefur hingað til gengið undir klyfberann sem á hann hefur verið lagður af Sjálfstæðisflokknum og gengið þar fram þvert á gamlar hugsjónir Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn dregur nú einkavæðingarvagninn, einkavæðingu almannaþjónustu í landinu. Mér finnst það dapurt hlutskipti Framsóknarflokksins.