Hlutafélög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 16:02:39 (4393)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að því leyti til sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal að einmitt hlutafélögin takmarka ábyrgðina og þá erum við að tala um fjárhagslegu ábyrgðina, (PHB: Áhættuna.) fjárhagslegu áhættuna og fjárhagslegu ábyrgðina, eigendurnir eru aðeins ábyrgir fjárhagslega fyrir því sem hlutir þeirra nema.

Hvernig passar þetta þá við að hlutafélagavæða Rarik ef þannig færi að Rarik færi á hausinn? Hvaða hlutverk hefur Rarik? Rarik hefur það hlutverk að veita rafmagni inn á stóran hluta heimila í landinu. Mundum við bara láta það gerast sisona, að við værum bara ábyrg hvað hlutafénu nemur en okkur væri alveg sama hvað gerðist umfram það?

Hvað varðar Ríkisútvarpið þá er það alveg hárrétt að ef búið væri að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið þá væri ríkið, þjóðin bara ábyrg fyrir því fyrirtæki fjárhagslega að því marki sem hlutaféð nemur. Ef Ríkisútvarpið færi síðan á hausinn, berum við þá enga ábyrgð? Það er nefnilega svo, frú forseti, að þetta passar við ýmis fyrirtæki í atvinnurekstri en ekki fyrirtæki sem hafa grunnalmannaskyldur. Þess vegna eru menn á svo rangri leið með því að hlutafélagavæða Rarik og hlutafélagavæða Ríkisútvarpið, því að við getum ekki látið þau ganga veg hlutafélagakostanna, látið þau verða gjaldþrota. Það getum við ekki gert, frú forseti, (Forseti hringir.) og því er þetta röng vegferð að ætla að (Forseti hringir.) einkavæða Rarik og Ríkisútvarpið.