Hlutafélög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 16:04:56 (4394)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:04]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Eftir tæp ellefu ár á þingi þá verð ég nú að segja eins og er að þetta var ein sú dapurlegasta og jafnframt ómerkilegasta ræða sem ég hef heyrt í þingsölum.

Hv. þingmaður var að ræða um breytingu á lögum um hlutafélög. Hann eyddi drjúgum tíma sínum í að ræða um Framsóknarflokkinn, aðallega þó í fortíð. Það sem var kannski kátbroslegt við það er að hv. þingmaður harmar að Framsóknarflokkurinn, sem stofnaður var fyrir um 90 árum, skuli hafa breyst. Ég segi: Til allrar hamingju hefur sá flokkur breyst en hangir ekki í þeirri íhaldssemi og forpokun sem gjarnan einkenna fortíðarræður hv. þm. Jóns Bjarnasonar.

Það sem hins vegar er ómerkilegt í ræðu hv. þingmanns er að hann kemur með sem útganspunkt í seinni hluta ræðu sinnar fullyrðingar um að hér sé verið að einkavæða Ríkisútvarpið, þrátt fyrir þá staðreynd að í frumvarpinu er beinlínis kveðið á um að Ríkisútvarpið verði ekki selt. Hvað felst í því? Það felst í því að þeir flokkar sem standa að frumvarpinu hafa komið sér saman um að Ríkisútvarpið sé ekki til sölu. Þrátt fyrir það kemur hv. þm. Jón Bjarnason ítrekað og talar um einkavæðingu RÚV. Hann veit betur.

Hins vegar virðist hafa farið fram hjá hv. þingmanni að það er ákall frá útvarpsstjóra, það er ákall frá starfsfólki Ríkisútvarpsins um að það verði að breyta forminu. Hvers vegna? Vegna þess að Ríkisútvarpið þarf að standast samkeppni við aðra fjölmiðla. En hv. þm. Jón Bjarnason vill halda óbreyttu formi og leggja nánast eins og hönd dauðans yfir stofnunina sem á í harðri samkeppni við ört vaxandi og kraftmikla fjölmiðla.