Hlutafélög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 16:13:56 (4398)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:13]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil eins og fleiri þingmenn fagna þessu frumvarpi sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi til laga um opinber hlutafélög. Þetta er ákaflega brýnt mál og kemur til móts við ýmsar spurningar sem vaknað hafa á Alþingi um t.d. upplýsingaskyldu slíkra félaga.

Eins og komið hefur fram í umræðunni er markmið hlutafélagaformsins að takmarka áhættu eigandans. Í þessu tilfelli væri það að takmarka áhættu opinberra aðila, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, þannig að viðkomandi fyrirtæki væru betur samkeppnisfær. Í samkeppni er það talið ómögulegt fyrir einkafyrirtæki að berjast við fyrirtæki í opinberum rekstri þar sem er ótakmörkuð ábyrgð, þar sem stjórnendur fyrirtækisins geta gripið sífellt dýpra ofan í vasa skattgreiðenda. Það er talið skekkja alla samkeppni og gerir það. Hlutafélagavæðingin gerir það að aðalatriði, að meginatriði, að takmarka áhættu eigandans, þ.e. ríkis og sveitarfélaga. Fyrirtækið verður því að standa sig í samkeppninni.

Alls konar fyrirtæki eru hugsanleg. Mér skilst að Landsvirkjun eigi nokkuð mörg hlutafélög, bæði ein og með öðrum. Þau fyrirtæki sem Landsvirkjun á ein falla þá væntanlega undir lögin því opinberir aðilar eiga Landsvirkjun og einnig þau fyrirtæki sem Landsvirkjun á með öðrum, t.d. með sveitarfélögum eða með öðrum opinberum aðilum. Ef Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur tækju sig saman og stofnuðu hlutafélag og tækju t.d. eitt sveitarfélag með, Hveragerði eða eitthvað slíkt, þá væri það líka hlutafélag sem væri alfarið í eigu opinberra aðila þó sá aðili sé ekki einn. Þar sem Landbúnaðarháskólinn á Hólum er í mikilli samkeppni við aðra háskóla í landinu, þetta er orðinn samkeppnismarkaður, háskólastigið, gæti maður hugsað sér að um hann yrði stofnað hlutafélag til að skekkja ekki samkeppnina. Þá mundi hann heita Landbúnaðarháskólinn á Hólum hf. og mundi þá falla undir þessi lög sem sýnir hvað þau eru mikilvæg.

Um 2. gr. stendur að gæta eigi að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Þetta getur orðið dálítið erfitt viðureignar. Segjum að þrír opinberir aðilar eigi hlutafélag, Landsvirkjun, Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur, þeir eigi jafna hluti og tefldu fram listum þar sem konur væru efstar á þeim öllum en karlmenn númer tvö og þrír menn í stjórn. Síðan væri kosið og eintómar konur fengju kosningu. Samkvæmt ákvæðinu ætti einhvern veginn að reyna að jafna kynjahlutfallið. Þá yrði að taka eina konu út og skipta henni út fyrir einhvern karlmann sem ekki fékk kosningu. Þetta leiðir til ákveðinna vandkvæða en ég skil alveg hugsunina á bak við þetta vegna þess að hlutfall kvenna í stjórnum hlutafélaga er afskaplega rýr hér á landi. Maður getur ekki annað en vonað að krafan um arðsemi geri það að verkum að eigendur hlutafélaga fari að nýta konur betur en gert hefur verið því það er ónýtt auðlind á því sviði.

Í 3. gr. er sagt að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar í opinberum hlutafélögum skuli gefa stjórninni skýrslu um eign sína í félögum almennt. Það er spurning hvort þetta sé ekki of opið. Hvort það þurfi að telja það allt upp ef menn eiga pínulítinn hlut einhvers staðar sem skiptir engu máli. En þetta getum við rætt frekar í nefndinni.

Í 5. gr. er ákvæði um að fulltrúum fjölmiðla sé heimilt að sækja aðalfundi og jafnframt í 6. gr. að boða eigi fulltrúa fjölmiðla á aðalfund. Það getur orðið vandkvæðum bundið þar sem það er ekki skilgreint hvað fjölmiðill er. Á t.d. að boða Víkurfréttir á aðalfund o.s.frv.? Hvar á að setja mörkin? Ég tel betra að sameina þetta í eina grein sem segði að fulltrúum fjölmiðla sé heimilt að sækja aðalfund enda sé þess getið í fundarboði og það auglýst, þ.e. að það komi þannig fram.

Allt í frumvarpinu um upplýsingaskyldu á vefsíðu og annað slíkt held ég að sé mjög jákvætt. Frumvarpið kemur til móts við kröfur margra hv. þingmanna og annarra um upplýsingagjöf opinberra fyrirtækja. Það er spurning hvort menn eigi að fara út í það að það sé í eigu opinberra aðila að öllu leyti, þ.e. 100%, eða hvort menn setji einhver lægri mörk, 99% eða 97% eins og Síminn var lengi vel. Við getum rætt það í nefndinni og athugað kosti og galla. Hins vegar er ljóst að frumvarpið er ákveðinn línudans á milli þess að gæta samkeppnissjónarmiða, þ.e. upplýsa ekki um upplýsingastöðu fyrirtækja sem eru í samkeppni og hins vegar þess sjónarmiðs að upplýsa sem allra mest. Þau sjónarmið bæði rekast á og mér sýnist að frumvarpið sem hér er lagt fram taki mjög yfirvegað á þeim vanda.