Hlutafélög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 16:37:59 (4404)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:37]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur mér nú ekki á óvart að hv. þingmaður sé óánægður með frumvarpið mitt. En það sem ég vil fá að segja við hann er að það er mjög áberandi í Samfylkingunni að hv. þingmenn hennar hafa ekki skilning á þörfum atvinnulífsins. Þetta er dæmigerður flokkur sem kallar sig nútímaflokk en eins og hann talar hér á hv. Alþingi þá talar hann fyrst og fremst gegn hagsmunum atvinnulífsins. Þau ákvæði sem hv. þingmaður hrífst svo mjög af og eru í frumvarpi hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur ganga einmitt út á slíkt. Eins og t.d. það að alþingismenn og sveitarstjórnarmenn eigi að sækja hluthafafundi og þar fram eftir götunum.

Mér finnst líka áhugavert að vita hvort hv. þingmaður getur svarað þeirri spurningu sem aðrir hv. þingmenn innan Samfylkingarinnar hafa ekki getað svarað og það er það hvernig á að leysa málið í sambandi við stjórn þegar það er þriggja manna stjórn og það er þetta ákvæði um 40% af hvoru kyni. Það hefur ekki borist svar við þessu.

Mér finnst um ákvæðið um þennan aukna meiri hluta fyrst og fremst vera svona sýndarmennska og ekki til þess að auðvelda starfsemi í atvinnulífinu.

Ég ætla ekki að segja meira núna. Ég vonast til þess að hv. þingmaður hafi svör við þessu.