Hlutafélög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 17:24:18 (4413)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

444. mál
[17:24]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar síðara atriðið sem hv. þingmaður nefndi þá kom ég inn á það í ræðu minni. Þannig er, eins og komið hefur fram, að þessi frumvörp hafa verið til umfjöllunar lengi og m.a. verið í opinni umræðu á netinu. Vissulega höfum við fengið ýmsar athugasemdir sem að einhverju leyti hefur verið tekið tillit til. Þetta er eitt af því sem tekið var tillit til, það komu fram miklar athugasemdir við þetta ákvæði, og er eitt af þeim atriðum sem að sjálfsögðu verður farið yfir í hv. nefnd. En niðurstaðan var sú að flytja frumvarpið eins og raun ber vitni.

Um hitt atriðið — ég held að við séum að tala um sömu hlutina, ég og hv. þingmaður — þá er það þannig að þessi ákvæði þurfa samþykkt á aðalfundi. Einhver þarf að koma fram með tillögu um hvernig þessu skuli háttað, og það gerir stjórnin, en síðan verður hún ekki að raunveruleika fyrr en aðalfundur hefur samþykkt hana. Ég held að það hljóti að vera aðalatriðið.