Hlutafélög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 17:25:53 (4414)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

444. mál
[17:25]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna því frumvarpi sem hæstv. viðskiptaráðherra leggur hér fram, sem byggt er á tillögum nefndar ráðherrans um stefnumótun í íslensku viðskiptaumhverfi, þó að ég hafi ýmislegt við frumvarpið að athuga, eins og fram mun koma í máli mínu á eftir.

Ég fagna sérstaklega upplýsingaskyldunni sem fram kemur í frumvarpinu og snertir starfshætti og kjör stjórnenda og ákvæði sem miða að því að bæta stöðu minni hluthafa. Það er auðvitað mjög mikilvægt, ekki síst í ljósi þeirrar fákeppni, eignatengsla og samþjöppunar sem víða er að finna í íslensku viðskiptalífi, að leikreglur séu í sífelldri endurskoðun og taki mið af þeirri þróun sem átt hefur sér stað, og ekki síst í ljósi gífurlegrar valda- og eignatilfærslu sem orðið hefur í samfélaginu, í íslensku viðskiptaumhverfi og fjármálalífi.

Hér á landi hefur þessi þróun m.a. komið fram í miklum kaupaukum og kaupréttarsamningum og stjarnfræðilega háum starfslokasamningum hjá forstjórum og öðrum stjórnendum í efra lagi viðskiptalífsins og skiptir það fé nú tugum og hundruðum milljóna sem komið getur í hlut hvers og eins. Gegnsæi og sýnileiki er grundvallaratriði í íslensku viðskiptalífi og sem betur fer er vaxandi skilningur á því að opinberlega sé hægt að fá vitneskju um ofurkjör stjórnenda, starfslokasamninga, kaupréttarsamninga stjórnenda fjármálafyrirtækja og hefur Kauphöllin t.d. verið til fyrirmyndar í því máli.

Ég vona, virðulegi forseti, að hæstv. viðskiptaráðherra sé hér nálæg vegna þess að ég hef fram að færa nokkrar fyrirspurnir til hæstv. ráðherra og vona að ekki verði tekið mikið af ræðutíma mínum, sem er naumt skammtaður, á meðan ég bíð eftir ráðherranum.

(Forseti (ÞBack): Forseti vil geta þess að hæstv. ráðherra tilkynnti forseta að hún þyrfti aðeins að bregða sér frá en væri væntanleg innan stundar.)

Ég hefði haldið að tala hefði átt við þá ræðumenn sem voru búnir að setja sig á mælendaskrá þegar ráðherrann þurfti að hverfa af vettvangi og ég óska eftir því að þessu máli verði frestað þar til hæstv. ráðherra kemur. Vegna þess að ræða mín lýtur að miklu leyti að því að fá fram svör frá hæstv. ráðherra og ég get ekki haldið áfram með mál mitt fyrr en hæstv. ráðherra er komin í hús aftur ef hún hefur farið úr húsi.

(Forseti (ÞBack): Forseti mun láta kanna hvenær von er á hæstv. ráðherra.)

Ég minni forseta á að klukkan tifar hér enn þá. Hvað vill hæstv. forseti að ég geri? Ég er ósátt við að klukkan tifi á mig meðan verið er að kanna aðstæður ráðherrans.

(Forseti (ÞBack): Forseti óskar eftir því að hv. þingmaður haldi áfram ræðu sinni á meðan verið er að kanna hvort hæstv. viðskiptaráðherra er í húsinu eða ekki.)

Ræðumaður á þar óhægt um vik þar sem ræða mín lýtur að því að fá svör frá hæstv. ráðherra og ég get þess vegna ekki haldið áfram máli mínu, virðulegi forseti.

(Forseti (ÞBack): Forseti mun bæta hv. þingmanni upp þann tíma sem hún bíður eftir hæstv. ráðherra þar sem hún fór rétt afsíðis og von er á henni innan fárra mínútna og hv. þingmanni verður bættur upp sá tími sem fer í bið.)

Óskar þá virðulegur forseti eftir því að ræðumaður standi hér orðlaus í stólnum á meðan eða …

(Forseti (ÞBack): Eða ræði áfram frumvarpið sem hér er fjallað um án þess að beina spurningu til hæstv. ráðherra.)

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það og það hefur komið skýrt fram í máli mínu að allt sem ég er að segja beinist að ráðherranum þannig að ég get ekki haldið áfram máli mínu meðan ráðherrann er ekki hér á staðnum. Fjórar mínútur er búið að taka af tíma mínum. (Viðskrh: Ég fór á snyrtinguna.) Já, það er alveg afsakað að ráðherrann þurfi að bregða sér þangað þó að mér sé ekki vel við að það sé tekið af mínum ræðutíma.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að þótt ástæða sé til að fagna þessu frumvarpi, að verið sé að setja reglur um stjórnarhætti og starfskjör stjórnenda þá vekur það auðvitað sérstaka athygli að ráðherrann gengur að mörgu leyti mun skemur en tillögur nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi, sem skilaði áliti sínu í september 2004 og lagði þar til margvíslegar reglur til að bæta stjórnarhætti og upplýsingaskyldu stjórnenda, m.a. um starfskjör. Ráðherrann skilur eftir u.þ.b. helminginn af þeim tillögum sem nefndin lagði til um bætta stjórnarhætti í fyrirtækjum og er auðvitað nauðsynlegt að ráðherra fari skilmerkilega yfir hvaða ástæður liggi þar að baki.

Ég heyrði að hæstv. ráðherra nefndi í andsvörum sínum við hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að þetta mál hefði verið í opinni umræðu á netinu og ýmsir aðilar hefðu tjáð sig um það og þá væntanlega hagsmunaaðilar sem eiga að búa við þessi lög. Ráðherrann hefur þá tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem þar hafa komið fram og ráðherrann verður auðvitað að stíga varlega til jarðar í því að fara að koma verulega til móts við óskir hagsmunaaðila í þessu efni. Það er jú verið að setja þessi lög, þessar leikreglur til þess að styrkja þann lagaramma sem við búum við bæði að því er varðar minnihlutaverndina og upplýsingaskyldu. Og auðvitað er það svo að þeir sem við eiga að búa vilja kannski draga úr þeirri upplýsingaskyldu eða vernd minni hluthafa. Ráðherrann verður því að skýra miklu betur en hún hefur gert hvers vegna fallið var frá ýmsum af þeim tillögum sem komu fram hjá nefndinni og ég mun fara inn á í mínu máli.

Hefur ráðherrann verið beittur óeðlilegum þrýstingi í þessu efni? Er ágreiningur á milli stjórnarflokkanna í þessu máli, vegna þess að það eru mjög mikilvægar tillögur sem nefnd viðskiptaráðherra um stefnumótun í íslensku viðskiptaumhverfi lagði til sem hæstv. ráðherra annaðhvort hefur dregið verulega úr í þessu frumvarpi frá því að nefndin lagði það fram eða hreinlega ekki fellt þær inn í frumvarpið. Þetta vil ég fá frekari umræður um.

Ég ætla því að fara yfir það sem ég tel að ráðherrann þurfi að skýra betur hvers vegna hún hefur breytt þessu frá tillögunum sem nefndin lagði til, það er ástæða til að skoða hvers vegna það hefur verið gert og efnahags- og viðskiptanefnd hlýtur að fara rækilega yfir allar tillögur frá nefndinni, sem ég held að hafi verið sérstaklega vel unnar yfir höfuð.

Fyrst er það gildissviðið. Nefnd viðskiptaráðherra lagði til að stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga með fleiri en fjóra hluthafa verði skylt að fá samþykki hluthafa á starfskjarastefnur fyrir stjórnendur, þar á meðal varðandi kaupréttarsamninga og árangurstengdar greiðslur, hlunnindi, uppsagnarfrest og starfslokasamninga. Í frumvarpi ráðherrans er miklu skemur gengið, miðað við þau hlutafélög og einkahlutafélög þar sem skylt er að hafa löggiltan endurskoðanda samkvæmt ákvæðum ársreikningalaga, þ.e. stærri félög, t.d. þar sem ársverk eru minnst 50. Gildissviðið hefur því verið þrengt verulega frá því sem nefnd viðskiptaráðherra lagði til. Það væri fróðlegt að sjá miðað við þessa breytingu sem hér er lögð til, hversu mörg félög verða undanþegin ákvæðum þessara laga eftir að ráðherrann hefur gert þær breytingar á frumvarpinu sem hún hefur gert frá því sem nefndin lagði til og ég vil gjarnan fá það fram annaðhvort í nefndinni eða hjá hæstv. ráðherra varðandi gildissviðið.

Lífeyrissjóðirnir eru undanþegnir og sparisjóðirnir ef þeim hefur ekki verið breytt í hlutafélög. Og af því að við erum að ræða hér um starfskjör og upplýsingaskyldu gagnvart þeim vil ég spyrja varðandi sparisjóðina hvort eitthvað sé á leiðinni frá ráðherra sem tryggir að þeir séu háðir sömu upplýsingaskyldum um starfskjör, starfslokasamninga og fleiri þætti sem nú er almennt viðurkennt að eigi að vera uppi á borðinu og vera gegnsæi í, og nefni ég Kauphöllina enn einu sinni til fyrirmyndar í því efni. Þarna er verið að taka … — Ég hef fengið upplýsingar um að hæstv. ráðherra þurfi að bregða sér aðeins frá í viðtal við sjónvarpsstöð og það er alveg ósárt af minni hendi að ég fari úr ræðustól og fresti aðeins ræðu minni ef hæstv. forseti óskar þess. Það nægir mér ekki að aðstoðarmaður ráðherrans taki bara niður punkta fyrir hönd ráðherrans þannig að mér er vandi á höndum, virðulegi forseti. Ég get alveg fallist á að gefa ráðherranum þrjár, fjórar mínútur í viðtal við NFS. (Viðskrh: Þá verð ég bara að hætta við.)

(Forseti (ÞBack): Forseti gerir tíu mínútna hlé á fundinum. Það verður hlé á fundi þar til klukkuna vantar korter í sex.)