Hlutafélög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 18:11:40 (4419)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

444. mál
[18:11]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður tekur nú oft og tíðum dálítið mörg mál upp og fer kannski aðeins út fyrir það málefni sem er til umfjöllunar hverju sinni. (Gripið fram í.) En ég dáist mjög að þekkingu hennar á þessu sviði og efast ekki um einlægni hvað það varðar að þarna séu lög og reglur í lagi.

Það er svo sem ýmislegt verið að vinna í viðskiptaráðuneytinu og ýmis frumvörp í undirbúningi sem ég tel ekki ástæðu til þess að fara frekar út í hér. Það gefst þá tími til þess síðar að fjalla frekar um ýmislegt annað sem varðar markaðinn. Ég vil hins vegar segja það hreint út og sagði það reyndar hér áðan að við erum ekki með í undirbúningi neitt frumvarp sem varðar sparisjóðina að þessu sinni — sem er eiginlega frétt út af fyrir sig því að við höfum verið með mörg frumvörp um sparisjóðina. Ég horfi hér á hv. þm. Pétur Blöndal, ég sé að hann er mjög leiður að heyra að ekki skuli neitt vera á ferðinni um sparisjóðina en þannig er það nú.

Ég ítreka að tækifæri gefst til þess í hv. nefnd að fara miklu nánar yfir það hvers vegna frumvarpið er ekki nákvæmlega það sem kom út úr viðskiptalífsnefndinni. En ég segi það eitt að ég er mjög stolt og sátt við frumvarpið eins og það lítur út núna.