Útvarpslög o.fl.

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 18:25:14 (4424)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Útvarpslög o.fl.

54. mál
[18:25]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á útvarpslögum, lögum um tekjuskatt og eignarskatt og brottfall laga um Ríkisútvarpið. Meðflytjandi með mér er hv. þm. Birgir Ármannsson.

Ég verð að gera athugasemd við stjórn þingsins í fyrsta lagi við það að þetta frumvarp skuli ekki hafa verið rætt ásamt með frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra svipaðs efnis (Gripið fram í: Fórstu fram á það?) — Já, ég fór fram á það og fékk ekki — sem fjallar um að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag, nákvæmlega eins og þetta frumvarp, reyndar með aðra tekjustofna en þetta frumvarp gerir ráð fyrir og að mínu mati lakari og með því ákvæði að selja ekki Ríkisútvarpið á meðan þetta frumvarp gengur út á það að selja Ríkisútvarpið hf.

Síðan vil ég líka gera athugasemd við það að mér skilst þetta sé í sjötta skipti sem þetta frumvarp er á dagskrá þingsins án þess að koma til umræðu og það er dálítið leiðigjarnt að bíða eftir því að það fáist rætt.

Frumvarpið gengur út á það í megindráttum að stofnað verði hlutafélag um Ríkisútvarpið. Útvarpsgjaldið hið óvinsæla verði aflagt og í staðinn verði persónuafsláttur lækkaður, sem er afskaplega einföld og gjörsamlega kostnaðarlaus innheimta og (Gripið fram í.) — það er hvort sem er persónukostnaður á einstaklinga með nýja frumvarpinu — að útvarpsráð fái fjárveitingar en stundi ekki rekstur. Síðan er líka meginatriði að starfsmenn RÚV, sem eru að sjálfsögðu meginuppistaða í verðmæti fyrirtækisins, fái ákveðinn forkaupsrétt að hlutafénu.

Rökin fyrir frumvarpinu eru þau að eins og menn hafa uppgötvað á ríkisrekstur ekki við í samkeppnisrekstri og oft á tíðum losnar um miklar hömlur þegar ríkisrekstri er hætt. Ég hygg að eftir svona 10, 15 ár og kannski ekki svo langan tíma, muni menn furða sig á þeirri hugsun að það þurfi opinbera starfsmenn til að flytja fréttir og annað dægurefni. Nákvæmlega eins og menn furða sig á því að einhver skuli hafa verið haldinn þeirri hugsun fyrir tíu árum að það þyrfti opinbera starfsmenn til að afhenda peninga yfir kassa í banka. Nú þykir það svo sjálfsagt að bankastarfsemi sé í höndum einkaaðila að ég held að það detti ekki nokkrum einasta manni í hug að hverfa aftur til ríkisrekstrar á því sviði eins og svo mörgum öðrum sviðum. Einu sinni sá ríkið um strandferðasiglingar og alls konar hluti, prentun o.s.frv., allt hlutir sem mönnum finnst í dag vera fráleitir sem hlutverk ríkisins. Ég hygg að eftir einhvern tíma muni menn nákvæmlega eins telja það fráleita hugsun að ríkisvaldið sé að standa í fjölmiðlarekstri og fréttamennsku og slíku, sérstaklega þar sem ríkisvaldið er í eðli sínu alltaf pólitískt og er stjórnað héðan úr Alþingi. Ríkisstjórnir eru pólitískar og Alþingi er að sjálfsögðu pólitískt og þar af leiðandi verður ríkisútvarp alltaf pólitískt.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjurnar skerðist ekki, þ.e. að þær tekjur sem renna í dag til Ríkisútvarpsins verði óskertar og að útvarpsráð starfi áfram en hafi enga stofnun til að framkvæma fyrir sig heldur bjóði alla dagskrána út, hvort sem það er gerð kvikmynda eða skemmtiefnis fyrir börn, fræðsluefni eða fréttir, að þetta verði allt boðið út og allar útvarps- og sjónvarpsstöðvar og leikhús í landinu geti boðið í slík verkefni, þar á meðal Ríkisútvarpið hf. Það njóti reyndar ákveðins forgangs fyrstu þrjú árin til slíkrar dagskrárgerðar og dreifingar hennar og útsendingar en eftir það yrði það að sætta sig við samkeppni og ég efast ekki um, frú forseti, að starfsmenn Ríkisútvarpsins og Ríkisútvarpið hf. muni standa sig í þeirri samkeppni. Það hefur sýnt ákaflega góða takta undanfarna sjö áratugi þó að það hafi verið í eigu ríkisins. Ég reikna með að ef félagið yrði einkavætt losni þar um krafta nákvæmlega eins og á fjármálamarkaðnum, launin hækki og umsvifin vaxi hjá öllum á þessum markaði.

Engar kröfur eru gerðar um það á vegum útvarpsráðs hvort dagskráin sé læst eða ekki. Ljóst er að ef dagskrá er send út læst eru menn tilbúnir til að borga meira eða sætta sig við minni kostnað af hendi útvarpsráðs. Það yrði því matsatriði hverju sinni og mundi fylgja í útboðsskilmálunum.

Í frumvarpinu er gætt sérstaklega að hagsmunum starfsmanna. Þeir halda öllum réttindum sínum á sama hátt og gert var þegar ríkisbankarnir voru hlutafjárvæddir og einkavæddir. Þá njóta starfsmenn forgangskaupréttar að hlutafé í nýju fyrirtæki á lægra verði en aðrir, enda taki þeir við starfi hjá því. Þannig er tekið mið af því að starfsmenn eru veigamesta eign Ríkisútvarpsins eins og annarra fyrirtækja og án þeirra hefur það enga reynslu eða þekkingu og hefur ekkert virði umfram nýstofnað fyrirtæki. Fyrir starfsmenn hlýtur enn fremur að vega þungt að þeir starfi ekki lengur í skjóli skylduaðildar heldur á grundvelli færni sinnar og mikilla hæfileika.

Margir starfsmenn Ríkisútvarpsins starfa sem verktakar í dag. Þetta er nokkuð sem margir vita ekki. Enn fremur hafa aðilar utan Ríkisútvarpsins framleitt dagskrárefni fyrir það. Má í því sambandi benda á tengslin við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska dansflokkinn. Þannig er fordæmi fyrir þeirri breytingu sem hér er lögð til nema miðað er við að útboð sé ætíð viðhaft og gefur það fleirum kost á að spreyta sig og eykur fjölbreytni menningarlífsins. Til dæmis gæti útvarpsráð boðið út tónleika sem dagskrárlið og þá gæti Sinfóníuhljómsveitin boðið í eins og aðrar hljómsveitir, ég reikna með að hún stæði ansi sterkt í þeirri samkeppni, hafandi þá miklu reynslu sem hún býr yfir sem og dansflokkurinn. Útvarpsráð gæti því boðið út balletsýningar og annað slíkt og Íslenski dansflokkurinn boðið í.

Menn hafa dálítið rætt um öryggisþátt útvarpsins. Því er til að svara að í útvarpslögum er ákvæði um að öllum útvarpsstöðvum sé skylt „að láta lesa endurgjaldslaust tilkynningar frá almannavörnum, löggæslu, slysavarnafélögum eða hjálparsveitum og gera hlé á dagskrá ef brýna nauðsyn ber til og almannaheill krefst.“ Þetta er í útvarpslögum í dag, þessir aðilar geta gripið inn í dagskrána hvenær sem er og nauðsyn ber til. Því þarf enga sérstaka útvarpsrás eða sjónvarpsrás til að sinna þessu hlutverki. Sú röksemdafærsla að Ríkisútvarpið sé öryggistæki þjóðarinnar er fallin um sjálfa sig þar sem berlega hefur komið í ljós á síðustu árum að hún á ekki við rök að styðjast. Nægir hér að nefna Suðurlandsskjálftana í júní 2000 þegar Ríkisútvarpið sýndi fótboltaleik í miðjum skjálftanum og atvik þegar utanaðkomandi aðili náði að slökkva á Ríkisútvarpinu án þess að nokkur gerði athugasemdir við ferðir hans. Öryggissjónarmiðs hefur því ekki verið gætt.

Mest um vert er að meiningin er að breyta útvarpsgjaldinu, sem er mjög óvinsæll skattur og er alveg úr takti við allan tíma í dag. Skylduáskrift að Ríkisútvarpinu skekkir allan markaðinn og kemur í veg fyrir eðlilega samkeppni. Það er fráleitt að skylda fólk til að greiða áskrift til aðila A þegar það ætlar að kaupa eða jafnvel ná ókeypis í þjónustu hjá aðila B. Vilji unglingur, sem nýfluttur er að heiman og býr einn í herbergi, nýta sér ókeypis dagskrá Skjás 1 verður hann að greiða útvarpsgjald til Ríkisútvarpsins sem hann hefur kannski engan áhuga á að horfa á. Þegar öryggisrökin eru auk þess ekki lengur til staðar er fráleitt að skylda landsmenn til að borga af dagskrá sem þeir hafa e.t.v. engan áhuga á að færa sér í nyt. Útvarpsgjaldið er þess vegna trauðla þjónustugjald heldur nokkurs konar nefskattur. Sem skattur stingur þetta gjald mjög í stúf við aðra skatta sem með réttu eða röngu eru sniðnir að greiðslugetu fólks. Þessi skattur er mjög ófélagslegur því að allir verða að greiða hann óháð tekjum eða greiðslugetu. Gjaldið er umtalsverður hluti af launum lágtekjufólks en hátekjufólk munar lítið um að greiða þennan skatt. .

Það má svo velta upp þeirri spurningu hvort heimilt sé að framselja skattlagningar- og álagningarvaldið með þessum hætti eftir breytingu á 77. gr. stjórnarskrárinnar 1995, þ.e. hvort heimilt sé að fela öðrum aðila en ríki og sveitarfélagi heimild til að leggja á skatta og innheimta þá.

Útvarpsgjaldið er núna 2.705 kr. á mánuði fyrir hverja fjölskyldu eða 32.460 kr. á ári. Það kemur sérstaklega illa við einstaklinga sem hafa lágar tekjur og búa einir eða með börn á framfæri. Það kemur betur við heimili þar sem fyrirvinnur eru tvær en best kemur það við heimili með mörgum fyrirvinnum, t.d. hjón með tvö fullorðin fullvinnandi börn og góðar tekjur fjögurra einstaklinga.

Með frumvarpi þessu er aðstöðumunurinn minnkaður með því að persónuafsláttur einstaklings er lækkaður um 1.123 kr. á mánuði — þ.e. þá mundi sérhver skattþegn borga 1.123 kr. á mánuði nema þeir sem eru skattfrjálsir, þeir mundu ekki greiða neitt — eða 13.476 kr. á ári, á móti niðurfellingu útvarpsgjalds. Þetta á að gefa ríkissjóði sömu tekjur og veittar yrðu til útvarpsráðs en bætir stöðu einstaklingsins um tæp 19 þús. kr. á ári, hjónin græða 5.500 kr. en fjölskyldur með margar fyrirvinnur þurfa að greiða meira enda eðlilegt, þær hafa meiri greiðslugetu. Það væri náttúrlega æskilegt að það færi eftir hlustun, frú forseti, en það getur nú verið erfitt að mæla það nákvæmlega hvað menn hlusta mikið og það getur líka komið illa niður á gömlu fólki og öldruðu fólki sem horfir mikið á sjónvarp.

Innheimta útvarpsgjaldsins er svo kapítuli út af fyrir sig. Smásmugulegt eftirlit með viðskiptum einstaklinga sín á milli og spurningar um hvar hver sefur eru ekki í takt við tímann og minna á lögregluríki eða sovétskipulag. Á heimasíðu RÚV kemur eftirfarandi fram undir liðnum tækjaleit, með leyfi forseta:

„Tækjaleitin fer þannig fram að öllum þeim sem ekki eru á skrá með viðtæki, og eru ekki tengdir með fjölskyldunúmeri við annan greiðanda, eru send fyrirspurnarbréf. Berist ekki svar við fyrirspurn afnotadeildarinnar fer tækjaleitarfólk á staðinn og spyr um viðtæki á heimilinu. Í flestum tilvikum er tekið vel á móti tækjaleitarfólkinu en komi sú staða upp að rökstuddur grunur er um að tæki sé á heimilinu en heimilisfólk neitar því og vill þess utan ekki sýna fram á að heimilið sé tækjalaust“ — þ.e. bjóða fólkinu inn til sín að rannsaka heimilið — „verður tæki skráð á heimilið og gíróseðlar sendir fyrir afnotagjöldunum.“

Það er sem sagt gengið út frá því að það sé tæki á heimilinu þó að fólkið hafi sagt að svo væri ekki. Síðan þarf fólkið að sýna fram á að ekki sé tæki á heimilinu. Þetta er náttúrlega mjög undarleg innheimta og afskaplega óeðlileg.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1757/1996 segir, með leyfi forseta:

„Þá tel ég, að í þeim tilvikum, er maður neitar að vera eigandi eða vörslumaður viðtækis, sem nýta má til móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins, og neitar jafnframt að sýna starfsmönnum innheimtudeildar Ríkisútvarpsins fram á það, en starfsmennirnir hafa engu að síður rökstuddan grun um, að á heimilinu sé slíkt tæki að finna, geti innheimtudeildin allt að einu beint kröfu um greiðslu útvarpsgjalds að þeim einstaklingi, sem í hlut á, og látið reyna á réttmæti kröfunnar, eftir atvikum fyrir dómi.“

Þetta er sem sagt mjög skrýtin innheimta. Þrátt fyrir þessa sterku innheimtu er talið að um 9% notenda sleppi við að greiða afnotagjald sem ættu að greiða það. Því eru um 9% sem njóta útvarps og sjónvarps án þess að greiða gjald. Með því kerfi sem hér er lagt til, að persónuafslátturinn yrði lækkaður, kemst enginn hjá að greiða gjaldið sem hefur tekjur yfir skattleysismörkum.

Frumvarpið, ef að lögum yrði, mundi stórauka samkeppni á markaði þar sem útvarpsráð mundi bjóða út öll verkefni og mikið líf og fjör mundi verða í því að bjóða í verkefni jafnt meðal Ríkisútvarpsins hf., annarra útvarpsstöðva og sjónvarpsstöðva sem og leikhúsa, áhugamannaleikhúsa um allt land, kóra o.s.frv. Þetta gæti því orðið mikil upplyfting fyrir íslenskt menningarlíf.

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta meira. Í greinargerð með frumvarpinu er gerður samanburður á frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra sem rætt var hérna fyrir tveim vikum og er búið að vísa til hv. menntamálanefndar. Hún gerir ráð fyrir sérstöku gjaldi sem tengist gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra en þó ekki alveg því að öll fyrirtækin í landinu eiga að borga útvarpsgjald. Það verður gaman að heyra hvað gerist þegar um 20 þúsund fyrirtæki eiga að fara að borga útvarpsgjald, jafnvel fyrirtæki sem hafa enga starfsmenn og hvað þá útvarpstæki. Ég hélt að það þyrfti nú að hafa starfsmenn til að geta hlustað á og notið útvarpsins. Ég hugsa að það verði dálítið skrýtin innheimta þar. Það er ekki einu sinni að farið sé eftir þeim lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra heldur er hér verið að búa til alveg sérstök skattalög þó að þau fari að mestu leyti eftir gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra.

Það sem gerist í því tilfelli er að ef menn fara umfram frítekjumarkið eða skattleysismörkin, sem núna eru 855.231 kr., ef þeir hafa 1 kr. til viðbótar skulu þeir borga 5.000 kr. í Framkvæmdasjóð aldraðra og 13.500 kr. til Ríkisútvarpsins hf. Menn borga sem sagt nærri 20.000 kr. fyrir að fara 1 kr. umfram mörkin. Þetta er náttúrlega ekki sérstaklega skemmtileg skattlagning, frú forseti, og eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir bendir á er þetta afskaplega hár jaðarskattur, hann er mörg þúsund prósent og ætti í sjálfu sér ekki að vera.

Þessi jaðarskattur er ekki í því frumvarpi sem ég mæli fyrir.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar, frú forseti, en vísa í greinargerð með frumvarpinu og að lokinni þeirri umræðu sem hér fer fram legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. menntamálanefndar og ég skora á þá nefnd að ræða það samhliða frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra þannig að málin verði rædd samhliða og rökstuðningur beggja mála komi til umræðu.