Útvarpslög o.fl.

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 19:07:04 (4431)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Útvarpslög o.fl.

54. mál
[19:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það er rétt að Ríkisútvarpið hafi fjarlægst eigendur sína, hafi fjarlægst þjóðina, þá hefði ég haldið að viðfangsefnið væri að færa það nær þeim, að færa Ríkisútvarpið nær þjóðinni. Út á það gengur okkar frumvarp, frumvarp þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að efla þessi tengsl enn á þeim forsendum að fagleg vinnubrögð verði styrkt innan stofnunarinnar. Það held ég að sé það atriði sem mestu máli skiptir þegar upp er staðið, að styrkja slík vinnubrögð.

Frumvarp þeirra hv. þm. Péturs H. Blöndals og Birgis Ármannssonar fer hins vegar í aðra átt og styrkir þessi pólitísku yfirráð yfir dagskrárgerð í landinu. Ég hefði haldið að þeir myndu láta markaðinn stýra. Ég er í sjálfu sér tilbúinn að skoða hugmyndir um með hvaða hætti fjármunum hins opinbera er varið til að efla og styrkja menningarefni í landi og gerð þess. Ég tel hins vegar að mun heppilegra form sé að styrkja og efla Ríkisútvarpið, efla stjórnsýsluna og breyta tengslum við þing og þjóð í stað þess að fara út á þá braut, sem ég tel reyndar mjög háskalega, að fela pólitísku meirihlutavaldi ráðstöfun á fjármunum, þar á meðal í gerð fréttatengds efnis.