Útvarpslög o.fl.

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 19:09:06 (4432)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Útvarpslög o.fl.

54. mál
[19:09]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þarf enn einu sinni að mótmæla því að þjóð sé sama og ríki. Í síðasta lagi þegar skattgreiðandi þarf að fara að borga innheimtumönnum ríkisins hluta af laununum sínum þá tekur hann eftir því að hann er ekki sama og ríkið. (Gripið fram í.) Skattgreiðandinn, já. Það er mikill munur á ríki, sem er einn lögaðili, og allri þjóðinni, sem er samansafn einstaklinga. Ég ætla því að biðja hv. þingmann að tala aldrei um það að ég eigi Ríkisútvarpið eða aðrir sem tilheyra þjóðinni. Við getum ekki labbað þangað inn og náð í einhvern stól eða eitthvað slíkt. Þessara eigna er vandlega gætt af ríkinu, stóra bróður.

Varðandi þær hugmyndir sem hér eru lagðar til þá er einmitt lögð áhersla á markaðinn. Útvarpsráð fær ákveðna peninga, það á að ráðstafa þeim til menningar samkvæmt ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði eru talin upp í frumvarpinu og það á að bjóða þetta út, líka fréttirnar. Það á að bjóða allt út á markaði, menningarmarkaði. Það kemur til með að myndast mjög skemmtilegur menningarmarkaður og ég er nærri viss um að útvarpsráð mundi ekki setja jafnmikla peninga í erlenda fótboltaleiki eða erlendar kvikmyndir, sumar hverjar dálítið billegar, eins og nú er gert. Féð færi nánast allt til innlendrar menningarstarfsemi og hitt efnið yrðu útvarpsstöðvarnar að útvega sér með öðrum hætti, jafnt Ríkisútvarpið hf. sem aðrar sjónvarpsstöðvar. En þetta yrði mikil lyftistöng fyrir innlent efni því útvarpsráð væri þá óbundið af því að það mundi bara bjóða upp á innlent efni á innlendum markaði og því er lýst í frumvarpinu hvernig það skuli gerast. Þannig að við erum ekki að tala um pólitík, við erum að tala um markað.