Áfengislög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 20:05:51 (4437)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Áfengislög.

71. mál
[20:05]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998, með síðari breytingum. Flutningsmenn þessa frumvarps eru ásamt mér hv. þm. Bjarni Benediktsson, Birkir Ármannsson, Drífa Hjartardóttir, Pétur H. Blöndal, Gunnar Örlygsson og Guðjón Hjörleifsson.

Í frumvarpinu eru í raun tvær efnisbreytingar á lögunum, sem ég mun gera grein fyrir. Annars vegar er gert ráð fyrir að við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein og hins vegar lagðar til viðamiklar breytingar á 20. gr. núgildandi áfengislaga.

Í stuttu máli má segja að frumvarpið gangi út á að heimila auglýsingar á áfengi undir styrkleikanum 22%, þ.e. heimila auglýsingar á léttvíni og bjór, þó með mjög verulegum takmörkunum sem ég mun víkja að á eftir. Þær takmarkanir miða að því að vernda börn og ungmenni gegn auglýsingum á áfengi. Frumvarpinu er því annars vegar ætlað að heimila áfengisauglýsingar en hins vegar að standa vörð um verndun barna og ungmenna gegn slíkum auglýsingum. Ég kem að því nánar á eftir.

Herra forseti. Samkvæmt 20. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, sem er samhljóða 16. gr. a í eldri gerð áfengislaga, nr. 82/1969, sbr. 8. gr. laga nr. 94/1995, eru hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum bannaðar. Í 2. mgr. greinarinnar er auglýsing meðal annars skilgreind svo að átt sé við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar séu í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni. Í 2. gr. áfengislaga er áfengi skilgreint sem hver sá neysluhæfur vökvi sem í er að rúmmáli meira en 2,25% af hreinum vínanda.

Bann við áfengisauglýsingum í innlendum fjölmiðlum hefur verið í lögum hér á landi allt frá 1928, en þá gilti hér áfengisbann. Eftir að innflutningur áfengis var leyfður á ný árið 1935 hélt auglýsingabannið áfram gildi sínu. Lengst af var einungis skilgreint í reglugerð hvað teljast skyldi áfengisauglýsing. Þegar núgildandi ákvæði var fyrst lögfest með lögum nr. 94/1995 var ekki gert ráð fyrir slíkri skilgreiningu í upphaflegu frumvarpi heldur var hugtakið skilgreint að tillögu meiri hluta allsherjarnefndar í meðförum Alþingis. Til að eyða réttaróvissu þótti nauðsynlegt að taka slíka skilgreiningu í lög en hún var nær samhljóða þeirri sem áður hafði verið að finna í reglugerð. Var ákvæðið tekið óbreytt upp við setningu núgildandi laga og hafa engar breytingar verið gerðar á því eftir gildistöku þeirra laga.

Á ákvæði 20. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, sem og tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, reyndi fyrir Hæstarétti í máli nr. 415/1998. Í dómi Hæstaréttar, sem kveðinn var upp 25. febrúar 1999, var ekki fallist á að bann gegn auglýsingum sem þessum fæli í sér brot gegn 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi né sambærilegu ákvæði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sagði rétturinn að ljóst væri að tilgangur bannsins væri að vinna gegn misnotkun áfengis og þeim vandamálum sem af henni hlytust. Þau rök sem byggju að baki banninu ættu sér því efnislega stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans, en þar er fjallað um skilyrði þess að tjáningarfrelsið sé skert.

Eins og við vitum hafa fylgismenn þess að áfengisauglýsingar séu heimilaðar á Íslandi flestir, ef ekki allir, haldið því fram að ákvæði núgildandi 20. gr. áfengislaga bryti gegn tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Á það var látið reyna í þessu máli en án árangurs fyrir þann sem málið höfðaði.

Í marsmánuði árið 2000 setti ríkislögreglustjóri á fót vinnuhóp til að gera úttekt á brotum gegn 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Niðurstöður úttektarinnar er að finna í skýrslu vinnuhóps ríkislögreglustjóra um viðbrögð við áfengisauglýsingum sem kom út í nóvember 2001. Skýrslan er birt sem fylgiskjal með frumvarpi þessu. Segir í skýrslunni að auglýsendur séu mjög ósáttir við þau ákvæði áfengislaganna sem banna auglýsingar á áfengi. Einnig kemur fram í skýrslunni að handhöfum rannsóknar- og ákæruvalds þyki ákvæði 20. gr. áfengislaga ekki nægilega ítarlegt og ótvírætt og reynslan hafi sýnt að mál vegna áfengisauglýsinga hafi reynst lögreglu og ákæruvaldi nokkuð erfið. Helsta niðurstaða vinnuhópsins var sú að taka þyrfti 20. gr. áfengislaga til skoðunar og gera ákvæðið ítarlegra, nákvæmara og ótvíræðara. Virðist sú niðurstaða í fullu samræmi við sjónarmið bæði lögregluyfirvalda og auglýsenda, enda óþolandi fyrir þessa aðila að búa við þá réttaróvissu sem skortur á skýrleika núgildandi refsiákvæðis 20. gr. áfengislaga virðist valda.

Við höfum orðið vitni að því í umræðum á þingi, í ítrekuðum fyrirspurnum til dómsmálaráðherra frá hv. þingmönnum um hvernig taka eigi á þeim áfengisauglýsingum sem birtar eru reglulega. Ég leyfi mér að segja að þær séu birtar á hverjum einasta degi í fjölmiðlum. Við höfum líka orðið vör við að lögregluyfirvöldum, handhöfum rannsóknar- og ákæruvalds, þyki núgildandi löggjöf óskýr og við hana verði ekki búið. Ég minnist þess að á síðustu vikum hafi átt sér stað mikil umræða um auglýsingamál, sem m.a. talsmaður neytenda hefur tekið þátt í og fleiri aðilar sem láta sig málið varða.

Ég held að hvort sem menn eru sammála þeirri leið sem lögð er til í þessu frumvarpi eða andsnúnir henni og vilja fara aðrar leiðir þá getum við öll verið sammála um að núgildandi löggjöf er meingölluð og að gera verði á henni einhverjar breytingar, hvaða leiðir sem eru færar. Sumir eru þeirrar skoðunar að banna eigi alfarið allar áfengisauglýsingar. En ég vil fara aðra leið.

Með frumvarpi þessu er lögð til grundvallarbreyting á ákvæðum áfengislaga um auglýsingar á áfengi. Í stað auglýsingabanns núgildandi laga og ónákvæmra og tvíræðra undantekninga á því banni er lagt til að auglýsingar á áfengi verði frjálsar með ítarlegum, nákvæmum og ótvíræðum undantekningum. Þrátt fyrir þessa grundvallarbreytingu er áfram byggt á þeirri meginreglu að auglýsing og önnur markaðssetning áfengis sæti verulegum takmörkunum í þeim tilgangi að vinna gegn skaðlegum áhrifum áfengis. Ég nefndi þetta í upphafi ræðu minnar. Markmiðin eru tvenns konar. Annars vegar eru þessi forvarnasjónarmið og verndarsjónarmið sérstaklega gagnvart börnum og unglingum og hins vegar að heimila auglýsingarnar með takmörkunum.

Í frumvarpi þessu er mælt fyrir um sérstakar ráðstafanir til að hindra að auglýsingum og annars konar markaðssetningu sé beint gegn börnum og unglingum. Rétt er að taka fram að auglýsingar á léttöli, þ.e. öli sem í er að rúmmáli minna en 2,25% af hreinum vínanda, eru nú leyfðar á öllum tímum dags og í öllum fjölmiðlum. Við vitum að börn og ungmenni gera lítinn greinarmun á slíku léttöli og því sem óheimilt er að auglýsa.

Samkvæmt frumvarpi þessu verður þessi greinarmunur afnuminn og verulegar hömlur lagðar við auglýsingum á áfengi sem einkum er ætlað að koma í veg fyrir að þær komi fyrir sjónir barna og ungmenna án þess að þau séu undir eftirliti foreldra og annarra forráðamanna. Til að koma til móts við þau sjónarmið leggja flutningsmenn frumvarpsins til að óheimilt verði að auglýsa léttöl með þeim hætti sem nú er gert á ákveðnum tímum dags og í ákveðnum fjölmiðlum. Er í frumvarpinu gert ráð fyrir að þær áfengisauglýsingar sem heimilar eru samkvæmt lögunum verði ekki birtar milli kl. 5 að morgni og 20 að kvöldi. Markmið núgildandi auglýsingabanns er að sporna við óæskilegum áhrifum sem neysla áfengis kann að hafa í för með sér. Þetta markmið var lagt til grundvallar þegar Hæstiréttur sagði í áðurnefndum dómi, nr. 415/1998, að auglýsingabannið bryti ekki í bága við stjórnarskrá. En í frumvarpi þessu er áfram byggt á þessu markmiði og í raun gengið lengra í því að koma í veg fyrir að hvers kyns auglýsingar á áfengi komi fyrir sjónir barna og ungmenna.

Önnur meginbreytingin með frumvarpinu er sú að gerður verður skýr greinarmunur í lögum á því sem kallað er sterkt áfengi og því sem kallað er létt áfengi, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Þessi breyting endurspeglar fyrst og fremst þá þróun sem átt hefur sér stað á neysluvenjum Íslendinga síðustu árin. Frá því að sala á áfengu öli hér á landi var leyfð með lögum nr. 38/1988, sem tóku gildi 1. mars 1989, hefur neyslumynstur Íslendinga gerbreyst. Léttvín og bjór skipa mun ríkari sess í matarmenningunni en áður tíðkaðist og verulega hefur dregið úr hlutfallslegri neyslu sterkara áfengis.

Samkvæmt frumvarpi þessu verður áfram óheimilt með öllu að auglýsa sterkt áfengi. Farin hefur verið sú leið í frumvarpinu að miða við að sterkt áfengi teljist sá neysluhæfi vökvi sem í er að rúmmáli meira en 22% af hreinum vínanda, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Í lögum um gjald af áfengi, nr. 96/1995, er gerður greinarmunur á öli og víni með allt að 15% af hreinum vínanda að rúmmáli og öðru áfengi. Í finnskum lögum er hins vegar gerður sá greinarmunur á sterku og léttu áfengi þegar kemur að auglýsingum að markið er sett við 22%.

Eins og fyrr segir hafa neysluvenjur Íslendinga tekið miklum breytingum frá því að sala á áfengu öli var leyfð hér á landi árið 1989. Verulega hefur dregið úr hlutfallslegri neyslu á sterku áfengi en neysla léttvína og bjórs hefur farið vaxandi. Hafa stjórnvöld stutt þessa þróun, m.a. með því að gera greinarmun á sterku áfengi og léttu áfengi þegar kemur að álagningu gjalda. Með breytingu á lögum nr. 96/1995, sem tóku gildi 29. nóvember 2004, var gjald á sterkt áfengi skv. 3. gr. laganna hækkað um 7% en engin hækkun varð á gjöldum af léttu áfengi, þ.e. öli og víni með allt að 15% af hreinum vínanda að rúmmáli. Kom fram í athugasemdum með frumvarpinu að gjald á léttvín hefði ekki hækkað síðan 1998. Er það ótvíræð vísbending um þann vilja löggjafans að ofangreind þróun haldi áfram og nýtt neyslumynstur festi sig í sessi. Sambærileg rök eru fyrir því að leyfa auglýsingar á léttu áfengi en banna alfarið og undantekningarlaust auglýsingar á sterku áfengi eins og gert er ráð fyrir með frumvarpi þessu.

Í frumvarpi 23 þingmanna úr fjórum af fimm þingflokkum, sem lagt var fram á 131. löggjafarþingi, var gerður sá greinarmunur á léttu og sterku áfengi að létt áfengi telst vera sá neysluhæfi vökvi sem í er að rúmmáli allt að 22% af hreinum vínanda. Þykir eðlilegt að sambærilegt viðmið gildi um auglýsingar á áfengi.

Herra forseti. Ísland er eitt örfárra Evrópulanda þar sem almennt bann gildir við auglýsingum á áfengi en í flestum Evrópuríkjum eru þó í gildi einhvers konar takmarkanir á áfengisauglýsingum. Þar sem áfengisauglýsingar eru ekki bannaðar er meginefni áfengislaga og reglna þar að lútandi að mæla fyrir um hvað má koma fram í áfengisauglýsingum og að hverjum þær mega beinast að því er fram kemur í áðurnefndri skýrslu vinnuhóps ríkislögreglustjóra. Norðurlöndin, að Finnlandi frátöldu, skera sig nokkuð úr hópi Evrópuríkja og eru takmarkanir þar mun strangari en annars staðar í Evrópu.

Nýlega hefur reynt á bannákvæði norsku og sænsku áfengislaganna gagnvart skuldbindingum þessara ríkja samkvæmt EES-samningnum í tilviki Noregs og gagnvart ESB-sáttmálanum í tilviki Svíþjóðar. Þann 8. mars 2001 kvað Evrópudómstóllinn upp forúrskurð sinn í máli sem undirréttur í Svíþjóð, þ.e. Stockholms Tingsrätt, skaut til hans og varðaði gildi auglýsingabanns gagnvart reglum Evrópusambandsins um frjálst flæði vöru og þjónustu innan sambandsins. Bannákvæði sænsku laganna er svipaðs eðlis og 20. gr. áfengislaganna íslensku.

Niðurstaða Evrópudómstólsins varð sú að reglur um frjálst flæði á vörum og þjónustu komi ekki í veg fyrir auglýsingabann nema hægt sé að ná markmiðum bannsins, sem er heilsuverndarmarkmið eins og hér á Íslandi, með aðferðum sem hafa minni áhrif á markaðsfrelsið. Dómstóllinn eftirlét síðan sænskum dómstólum að meta hvort meðalhófs væri gætt með þágildandi bannákvæðum. Í nóvember árið 2003 féll síðan dómur í þessu sama máli í Svíþjóð að gengnum þessum forúrskurði sem ég vék að áðan. Komst yfirréttur að þeirri niðurstöðu að áfengisbannið bryti gegn reglum um frjálst flæði vöru og þjónustu. Taldi rétturinn að hægt væri að halda áfengisneyslu niðri með aðferðum sem hefðu minni áhrif á markaðsfrelsið. Með öðrum orðum má því segja að auglýsingabannið hafi að mati hins sænska dómstóls talist brot á meginreglunni um meðalhóf.

Þann 25. febrúar 2004 komst svo EFTA-dómstóllinn að sömu niðurstöðu og Evrópudómstóllinn í máli nr. E-4/04, Pedicel AS gegn Sosial- og helsedirektoratet, er dómstóllinn veitti norskum undirrétti ráðgefandi álit um sömu álitaefni og uppi voru í sænska málinu sem ég vék að hér áðan. Niðurstaðan varð sú að reglur um frjálst flæði á vörum og þjónustu komi ekki í veg fyrir auglýsingabann nema hægt sé að ná markmiðum bannsins, sem eru heilsuverndarmarkmið, með aðgerðum sem hafa minni áhrif á markaðsfrelsið og það kæmi síðan í hlut dómstóla í einstökum aðildarríkjum að úrskurða hvort meðalhófi væri fylgt að landslögum. Segja má að EFTA-dómstóllin hafi gengið lengra en Evrópudómstóllinn að því leyti að hann setti fram nokkur viðmið sem dómstólar aðildarríkjanna ættu að hafa að leiðarljósi við slíkt mat.

Í fyrsta lagi benti dómstóllinn á að samkvæmt dómaframkvæmd Evrópudómstólsins væri það ekki brot á meðalhófi að banna auglýsingar á áfengi sem væri sterkara en 23%. Í öðru lagi benti dómstóllinn á að talið yrði heimilt að banna auglýsingar sem beindust að ungmennum eða ökumönnum. Í þriðja lagi var bent á að Evrópudómstóllinn hefði nýlega fallist á að bann við áfengisauglýsingum í sjónvarpi væri ekki brot á meðalhófsreglunni.

Í frumvarpi þessu er reynt að taka mið af þessum viðmiðunum Evrópudómstólsins.

Herra forseti. Í áðurnefndri skýrslu vinnuhóps ríkislögreglustjóra er vísað til þess álits Evrópudómstólsins að skoðað verði hvort hægt sé að ná markmiðum auglýsingabannsins um að vernda heilsu almennings fyrir skaðvænlegum afleiðingum áfengisneyslu með öðrum aðferðum sem minni áhrif hafa á innri markað aðildarríkjanna. Segir svo í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Þessi spurning er allrar athygli verð og fyllsta ástæða fyrir löggjafann að skoða málið frá þessari hlið ef til endurskoðunar ákvæðis laga um bann við áfengisauglýsingum kemur.“

Flutningsmenn þessa frumvarps telja mikilvægt, í ljósi tilvitnaðra orða úr áðurnefndri skýrslu ríkislögreglustjóra, þeirra dóma sem gengið hafa í nágrannalöndunum um málið og þeirra álita Evrópudómstólsins sem fyrir liggja, að núgildandi reglur um áfengisauglýsingar í íslenskum fjölmiðlum verði teknar til endurskoðunar á Alþingi Íslendinga. Meginbreytingin sem lögð er til í þessu frumvarpi kemur fram í 2. gr. þess.

Í 1. mgr. er lagt til að bann við auglýsingum á áfengi verði afnumið að teknu tilliti til þeirra takmarkana sem koma fram í 4. mgr. Samkvæmt ákvæðinu er lögð sú skylda á herðar þeirra sem auglýsa áfengi að í þeim auglýsingum sé ávallt og undantekningarlaust varað við skaðlegum áhrifum sem neysla áfengis getur haft.

Þar er í öðru lagi skýrt kveðið á um að auglýsingar og aðrar markaðssetningaraðferðir skuli ekki beinast gegn börnum og ungmennum. Er það í samræmi við löggjöf annarra Evrópuþjóða sem leyfa takmarkaðar auglýsingar á áfengi.

2. mgr. frumvarpsins er samhljóða 2. mgr. 20. gr. núgildandi laga og ekki er talin þörf á að endurskoða þessa skilgreiningu þar sem sú grundvallarbreyting sem lögð er til í 1. mgr. kemur í veg fyrir að vafi leiki á því hvort verið sé að auglýsa óáfengt eða áfengt öl en mest hefur reynt á þessi mörk í tíð núgildandi laga. Um þetta hefur ríkt hvað mest óvissa eins og við þekkjum og ég vék að hér áðan.

Í 3. mgr. kemur síðan fram sú fortakslausa regla að bannað sé að auglýsa sterkt áfengi sem skilgreint verður í 2. mgr. 2. gr. laganna, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Þá eru enn fremur teknar upp í þetta ákvæði tillögur vinnuhóps ríkislögreglustjóra sem vitnað er til í frumvarpinu og ég gat um hér áðan og lagt er til bann við auglýsingum á vörum sem bera sömu merki eða einkenni og sterkt áfengi til að ekki sé hætta á ruglingi á milli áfengis sem óheimilt er samkvæmt lögum þessum að auglýsa og þeirrar vöru sem auglýst er vegna nafns á vörunni, umbúða eða annarra einkenna.

Í 4. mgr., herra forseti, koma fram veigamiklar takmarkanir við auglýsingum á áfengi umfram meginreglur 1. mgr. Hefur við samningu þessara takmarka verið tekið mið af reglum sem gilda í þeim Evrópulöndum þar sem áfengisauglýsingar eru leyfðar að einhverju marki. Miðast takmarkanirnar almennt við að halda áfengisauglýsingum frá börnum og ungmennum. Í 1. tölulið er lagt til að óheimilt verði að auglýsa áfengi í ljósvakamiðlum, þ.e. útvarpi og sjónvarpi, frá kl. 5 að morgni til kl. 20 að kvöldi.

Í 2. tölulið er lagt til að óheimilt verði að auglýsa áfengi á stöðum þar sem ungt fólk kemur saman, svo sem á íþróttasvæðum, félagsheimilum, mennta- og menningarstofnunum, útivistarstöðum og opinberum byggingum en rétt er að geta þess að þessi upptalning, sem fram kemur í ákvæðinu, er ekki tæmandi. Markmið þessa ákvæðis er, eins og hér hefur komið fram, og áður segir, að koma enn frekar í veg fyrir að auglýsingar á áfengi nái til barna og ungmenna en samkvæmt núgildandi löggjöf hefur verið töluvert mikil brotalöm á því og flestar áfengisauglýsingar kannski verið birtar í tengslum við t.d. beinar útsendingar frá íþróttakappleikjum í fjölmiðlum þar sem gera má ráð fyrir að stór hluti áhorfenda sé börn sem ég og félagar mínir sem flytja þetta frumvarp teljum að geri ekki svo skýran greinarmun á áfengum bjór og léttvíni eða léttöli sem er þá undir 2,25%.

Í þriðja lagi er lagt til að óheimilt verði að auglýsa áfengi á íslenskum vefsíðum innan þeirra tímamarka sem gilda um áfengisauglýsingar í sjónvarpi. Ástæðan fyrir þessu er sú að aðgengi barna og ungmenna að netinu er mjög mikið og afar erfitt að stjórna því hvaða síður þau geta notað og skoðað. Með íslenskum vefsíðum er í frumvarpinu átt við vefsíður sem hýstar eru hér á landi eða síður sem með öðrum hætti heyra undir íslensk lög. Með fjöldatölvupósti er síðan átt við, eins og vikið er að í greininni, póst sem sendur er á fjölda netfanga í þeim tilgangi að koma á framfæri kynningu eða annars konar auglýsingu á tiltekinni vöru eða þjónustu. Eins og öllum ætti að vera kunnugt eru slíkir markpóstar að verða ævinsælli markaðssetningaraðferð þeirra sem fyrir slíku standa.

Í 5. mgr. þessarar greinar, 5. mgr. 20. gr., eins og hún kemur fram í 2. gr. frumvarpsins, er síðan lagt til, og ég hef ekki vikið að því ákvæði hér fyrr í minni ræðu, að fjölmiðlar, samtök auglýsenda, áfengisframleiðendur og innflytjendur áfengis setji sér siðareglur um auglýsingar á áfengi sem byggist á ákvæðum þessa frumvarps.

Víðast í Evrópu, þar sem auglýsingar eru að einhverju marki leyfðar, er kveðið á um slíkar siðareglur viðkomandi aðila í lögum. Markmiðið með slíkum reglum er að sjálfsögðu það að þeir aðilar sem í hlut eiga komi sér saman um viðmið sem gilda um áfengisauglýsingar þannig að leikreglurnar á markaðnum séu skýrar. Það verður að teljast til hagsbóta fyrir alla þá sem að þessum málum koma og í slíkum siðareglum mætti vitaskuld ekki víkja frá lágmarksákvæðum laga þessara en þeir aðilar sem að siðareglunum standa mundu setja sér með þeim ítarlegri viðmið en fram koma í þessu annars ítarlega ákvæði sem fram kemur í 2. gr. frumvarpsins.

Herra forseti. Flutningsmenn þessa frumvarps eru, eins og áður segir, þeirrar skoðunar að núgildandi löggjöf um áfengisauglýsingar sé gengin sér til húðar og meingölluð. Undir það taka, held ég, allir þeir sem fjallað hafa um þessi mál eða þurft að vinna með þau lög sem hér eru til umfjöllunar. Það er náttúrlega í sjálfu sér vandmeðfarið hvernig haga beri lagasetningu um mál eins og þessi, auglýsingar á áfengi, vegna þess að þar vegast á ýmis sjónarmið. Ég hef vonandi vikið að þeim flestum hér í þessari ræðu minni. Ein leið er sú, sem hefur oft verið nefnd og ég vék hér að, þ.e. að banna alfarið auglýsingar á áfengi eins og virðist í sjálfu sér vera meginregla núgildandi áfengislaga. En ákvæði 20. gr., eins og það er nú orðað, er því miður svo meingallað að mönnum hefur refsilaust tekist að fara á svig við lögin, skulum við segja.

Ein leið er sem sagt að banna algerlega og styrkja þá reglu um bann við áfengisauglýsingum, en þá leið vilja flutningsmenn frumvarpsins ekki fara. Þeir vilja frekar losa um þær reglur sem nú gilda. En með þeim takmörkunum sem frumvarpið kveður á um, þ.e. af heilsuverndarástæðum og til að vernda börn og ungmenni gegn skaðsemi áfengis.

Flutningsmenn frumvarpsins telja jafnframt að sá böggull fylgi skammrifi varðandi algjört bann við birtingu áfengisauglýsinga að slíku banni mundi væntanlega fylgja ýmislegt annað óheppilegt. Slík regla hlyti að leiða það af sér að stöðva yrði innflutning á erlendum tímaritum hingað til lands, sem uppfull eru af áfengisauglýsingum, hvort sem verið er að auglýsa bjór, léttvín eða sterkt áfengi. Að sama skapi þyrfti að setja einhverjar hömlur um aðgang almennings að erlendum sjónvarpsrásum sem birta sambærilegar auglýsingar.

Í þriðja lagi má nefna að með algeru banni hlytu menn að horfa til netsins, alnetsins eða internetsins, og velta því alvarlega fyrir sér hvort setja ætti hömlur við umferð á netinu. En eins og við vitum eru þar náttúrlega langflestar auglýsingar á áfengi sem hægt er að komast í. Þetta er ekki sú leið sem flutningsmenn vilja fara.

Flutningsmenn þessa frumvarps vilja miklu fremur losa um þær hömlur sem nú eru í gildi í áfengislögum þó með þeim takmörkunum sem nauðsynlegt er að gera til að ná markmiðum um vernd barna og ungmenna. Ég tel að þetta frumvarp endurspegli ákveðna málamiðlunarleið, millileið, sem er skynsamleg og ætti að koma sér vel fyrir alla þá sem að þessu máli koma og málið varðar.

Að svo búnu, virðulegi forseti, hef ég ekki meira um þetta mál að segja. En að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.