Áfengislög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 20:49:21 (4439)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Áfengislög.

71. mál
[20:49]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að enginn hafi snúið sér við í gröfinni í tilefni af yfirlýsingu hv. þm. Ögmundar Jónassonar um að hann muni ekki styðja frumvarpið en ég þakka honum fyrir ágæta ræðu um þessi mál.

Ég greindi það úr ræðu hv. þingmanns að við séum sammála um að ástandið eins og það er sé óviðunandi. Ég er þeirrar skoðunar að löggjöfin sé gölluð og við erum sammála um að mikil áfengisneysla sé skaðleg eða geti verið það. Við erum líka sammála um að hægt sé að fara tvær leiðir. Annars vegar þá leið sem hv. þingmaður vill fara, þ.e. að herða á banninu og banna auglýsingar með öllu, og hins vegar að gefa eftir og leyfa þær frjálsar. Ég legg það til með þeim miklu og skýru takmörkunum sem frumvarpið kveður á um. Frumvarpið felur í sér afar skýrar línur um hvað má og hvað má ekki og er ætlað að ná fram heilsuverndarsjónarmiðunum, verndarsjónarmiðum gagnvart ungu fólki, börnum og ungmennum.

Ég kem að tjáningarfrelsinu í síðara andsvari mínu, en mig langar til að spyrja hv. þingmann um frumvarpið sem hann flytur með fleiri hv. þingmönnum. Þar er mælt fyrir um að herða á löggjöfinni. Telur hann að sú regla sem þar er kveðið á um samræmist þeim dómum sem gengið hafa um nákvæmlega slíkt bann, (Forseti hringir.) annars vegar hjá Evrópudómstólnum og hins vegar hjá EFTA-dómstólnum?