Áfengislög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 20:56:04 (4442)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Áfengislög.

71. mál
[20:56]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef alltaf svolítið gaman að því þegar talað er um að skerða tjáningarfrelsi brennivínssalans, að það að meina honum að hvetja fólk til að drekka sem allra mest af brennivíni stríði gegn tjáningarfrelsinu og jafnvel stjórnarskrárvörðum rétti að því leyti. Ég á erfitt með að kaupa þetta.

Eins þegar talað er um hófsemina, brot á reglu um meðalhóf ef löggjafinn í einu ríki ákveður að reyna að draga úr áfengisneyslu með þjóðinni með því að heimila ekki áfengissölum að reka áróður fyrir aukinni áfengisneyslu. Mér finnst þetta óskaplega langsótt. Ég efast þó ekki um þær tilvísanir sem hv. þingmaður vísar til í greinargerð með frumvarpinu og er sjálfsagt að skoða þær. En ég held að þetta sé enginn endanlegur stóridómur. Við eigum að hugsa um það á Íslandi hvernig við viljum hafa þessa hluti. Það er mergurinn málsins. Við skulum ekki láta reglugerðarverkið í Brussel stýra okkur að þessu leyti. Við skulum taka ákvörðun um hvað við teljum okkur og íslensku þjóðinni fyrir bestu.