Íbúðalánasjóður

Miðvikudaginn 08. febrúar 2006, kl. 15:32:24 (4532)

132. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2006.

Íbúðalánasjóður.

[15:32]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég mun ræða hér, eins og kynnt hefur verið, málefni Íbúðalánasjóðs og ég vil gera það í víðu samhengi. Ég gat fyrr í dag litið við á glæsilegu viðskiptaþingi þar sem forsætisráðherra lagði út af því að það væri mikið lán að ríkið væri búið að selja ríkisbankana og hve það hefði gengið vel fyrir sig, sem er alveg hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra. Skoðun mín er sú að við getum verið stolt af þeim bönkum sem hafa verið einkavæddir. Þeir hafa staðið sig frábærlega í atvinnulífinu og gefið okkur Íslendingum margvísleg tækifæri, bæði því starfsfólki sem þar vinnur og ýmsum öðrum. Þeir hafa einnig skilað miklum tekjum í þjóðarbúið með beinum og óbeinum hætti. Ég held, virðulegi forseti, að öllum sé núna ljós fáránleiki þess að ríkið eigi banka. Ég held að öllum sé það ljóst. Ég held að enginn velkist í vafa um það, eða það væri gaman að sjá þann mann sem velkist í vafa um að það hafi verið óskynsamlegt að einkavæða þessar stofnanir í samkeppnisrekstri. Að minnsta kosti ætti öllum að vera ljóst hve mikill kraftur leystist úr læðingi þegar bankarnir voru einkavæddir.

Gallinn er bara sá að þrátt fyrir að við höfum stigið þessi skref eigum við enn þá ríkisbanka. Sá ríkisbanki er Íbúðalánasjóður sem verslar með ákveðna gerð lána, þ.e. húsnæðislán. Ef menn eru inni á þeirri línu að það sé rétt og eðlilegt að ríkisbanki versli með slíkt mælir í sjálfu sér ekkert gegn því að lengra sé gengið, að t.d. bílalánum væri skellt í þann banka eða sérstakan banka. Það liggur alveg fyrir að samkeppnisstaðan er mjög ójöfn miðað við einkavædda banka og sparisjóði. Þessi ójafna samkeppnisstaða kemur fram í því að Íbúðalánasjóður nýtur ríkisábyrgðar en þarf ekki að greiða eðlilegt gjald eins og lög kveða á um. Mér sýnist að það séu um 220 millj. á ári sem Íbúðalánasjóður þarf ekki að greiða. Á sama hátt er hann undanþeginn greiðslu frá tekjuskatti sem var á síðasta ári yfir 180 millj. þannig að þarna eru um 400 millj. sem sjóðurinn þarf ekki að greiða.

Kröfur til Íbúðalánasjóðs um eiginfjárhlutfall eru mun vægari en til banka og sparisjóða, þ.e. 5% á meðan það eru 8% hjá öðrum lánastofnunum.

Síðan eru sérreglur sem virðast vera sérstaklega hannaðar fyrir Íbúðalánasjóð, þ.e. vaxtabætur vegna endurbóta á húsnæði eru bara greiddar til lántakenda hjá Íbúðalánasjóði en ekki hjá öðrum lánastofnunum. Á sama hátt er verið að skuldajafna opinberum gjöldum vegna vaxtagreiðslna af lánum hjá Íbúðalánasjóði en ekki hjá neinni annarri lánastofnun. Er erfitt að sjá hvers vegna hann skuli vera með þessa fyrirgreiðslu þegar þessi banki er í samkeppni

Ég hef sömuleiðis áhyggjur af því ef við gerðum upp Íbúðalánasjóð, eignir hans á markaðsvirði í staðinn fyrir bókfærðu verði og ýmsu öðru sem gerist á samkeppnismarkaði, vegna þess að ríkisvaldið er hér í hreinum og klárum samkeppnisrekstri, í áhætturekstri, og ríkinu ferst það ekki vel úr hendi.

Ég vek athygli á að það að vera með þetta fyrirkomulag er algjörlega séríslenskt. Þetta er í ekki í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Kannski má finna einhverja samsvörun í Noregi en þar kemur ríkisbankinn fyrst og fremst að nýbyggingum. Markaðshlutdeild hans er 12%. Ef við skoðum Finnland er finnski ríkisbankinn einungis með félagslegt húsnæði og markaðshlutdeildin er u.þ.b. 10%. Í Svíþjóð og Danmörku er þetta mjög óverulegt. Sú staða sem uppi er hjá okkur, virðulegi forseti, verður alltaf sérkennilegri og t.d. í dag voru fréttir af því að einn stærsti banki landsins, KB-banki, var að fá sama lánshæfismat og ríkið. Ég efast ekki um að fleiri bankar muni ná því takmarki þegar fram líða stundir.

Bankarnir eru loksins komnir á þennan markað, og þótt fyrr hefði verið, og það er ekkert sem bendir til að þeir séu að fara út af honum. Þeir veita þá þjónustu sem fólkið þarf á að halda. Ég tel að við getum náð þeim félagslegu markmiðum sem við viljum ná með öðrum og skilvirkari og einfaldari hætti en að halda úti ríkisbanka með húsnæðislán. Þess vegna spyr ég hæstv. félagsmálaráðherra einfaldrar spurningar: Stendur ekki til, í ljósi þessara breyttu aðstæðna sem sannarlega eru til staðar, að breyta þessu fyrirkomulagi?