Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 14:38:47 (4891)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[14:38]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðasta þáttinn í ræðu hv. þingmanns fjallar þetta frumvarp ekki um flutning verkefna út á land, heldur nýskipan lögreglumála. Það er alveg sérstakt viðfangsefni sem ráðuneytið vinnur að án þess að þurfa að setja fram lög um það að flytja verkefni út á land.

Eins og ég sagði vitnaði ég í gögn sem fylgja þessu og hafa verið kynnt, m.a. fyrir Vestmannaeyingum. Í þeim gögnum segir alveg skýrt að á stöðu rannsóknarlögreglumanns í Vestmannaeyjum verði engin breyting. Það kemur alveg skýrt fram. Ég tel að þingmaðurinn standi hér upp til að ýta undir einhverjar grunsemdir sem eru ekki á neinum rökum reistar ef menn hafa kynnt sér gögn málsins sem þingmaðurinn hefur greinilega ekki gert.