Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 15:24:32 (4904)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:24]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ljóst af frumvarpinu, og skýrt í greinargerð sem með því fylgir, að með því að stofna þessa rannsóknar- og greiningardeild er ætlunin að gera það að verkum að lögreglan verði betur fær um að sinna því hlutverki sem hún hefur að þessu leyti í dag. Hún hefur ákveðnar skyldur í þessu sambandi og sú skylda verður hin sama og áður en hins vegar má segja að skipulagi lögreglunnar sé breytt með þeim hætti að hún geti betur sinnt því.

Það er ekki að ástæðulausu sem þessi umræða á sér stað hér á landi og í löndum í kringum okkur. Við höfum á undanförnum árum séð vaxandi ógn af hryðjuverkum og sú ógn hefur með ýmsum hætti færst nær okkur Íslendingum. Vá sem var mjög fjarlæg fyrir einhverjum árum eða áratugum er miklu nærtækari í dag. Ég held að það sé mjög mikilvægt, og í sjálfu sér hrósvert, að hæstv. dómsmálaráðherra skuli hafa tekið forustu um að reyna að búa þannig um hnútana að Íslendingar séu betur til þess fallnir að bregðast við slíkri vá. Ég held að þingmenn ættu að geta sameinast um það að ríkisvaldið hafi þau tæki og það skipulag sem gerir því kleift að vernda líf, heilsu og öryggi borgaranna með þessu móti.

Auðvitað er ég sammála hv. þingmanni um að það verður alltaf að gæta þess vandlega að ganga ekki á svig við grundvallarreglur um vernd persónuréttinda, einkalífs og aðra slíka þætti. Það verður hins vegar að finna ákveðið jafnvægi hvað þetta varðar vegna þess að til að vernda öryggið þarf í sumum tilvikum að bregðast við með viðeigandi hætti.