Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 15:26:51 (4905)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:26]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hafa þeir einmitt sagt í einræðisríkjunum. Til að vernda öryggi borgaranna og ríkisins þurfi að bregðast við á viðeigandi hátt. Ég mundi fara varlega í að hrósa ríkisstjórn sem fór með íslenska þjóð í árásarstríð gegn Afganistan og gegn Írak að henni forspurðri. Ég mundi fara varlega í að hrósa slíkri ríkisstjórn fyrir mannréttindi. Ég mundi fara mjög varlega í það.

Það er alveg rétt að víða stafar ógn af hryðjuverkum en það steðjar líka ógn að frelsi og lýðréttindum. Með því að herða á hvers kyns eftirliti með borgurunum, mér liggur við að segja ofsóknum gegn borgurunum, — við verðum vitni að því nánast upp á dag hvern í Bandaríkjunum og víða um heim — steðjar ógn að frelsi og lýðréttindum. Það er rétt sem var sagt hér fyrr í dag að hvað þetta snertir hræða sporin. Við eigum að fara varlega í allri lagasmíð sem þrengir að einstaklingnum og einstaklingsfrelsinu í landinu.