Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 17:29:31 (4931)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:29]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég lýsti því í ræðu minni hér að ég fagnaði frumkvæði ráðherrans í að flytja verkefni til lögreglustjóranna og til sýslumannsembættanna út um land. Ég treysti líka hæstv. ráðherra til að hlusta á og vinna með heimaaðilum í að útfæra þessi lög og þessa breyttu skipan. Ég benti á atriði sem að mínu mati ber að skoða betur. Ég benti á Hólmavík, Búðardal og á Reykhóla. Ég tel að það sé mjög réttmætt og að öll þessi sjónarmið komi síðan inn í hv. nefnd og þar verði þetta skoðað. En að öðru leyti — mér er nú ekki gjarnt að hæla hæstv. dómsmálaráðherra fyrir vinnubrögð — hefur hæstv. ráðherra lagt mikla vinnu í þetta frumvarp og í ýmislegt sem að því lýtur, og ég vona bara að svo verði (Forseti hringir.) áfram til góðra og farsælla lykta.