Greiðslur til foreldra langveikra barna

Föstudaginn 03. mars 2006, kl. 14:23:54 (5601)


132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[14:23]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er greinilegt að hv. þingmaður hefur ekki mikið sinnt því að hanna velferðarkerfi. Það er vitað mál í öllum löndum að vissar tegundir bóta velferðarkerfis eru misnotaðar. Þeir sem ætla að loka augunum fyrir því ættu að kynna sér stöðuna í þeim málum, varðandi t.d. hvaða áhrif atvinnuleysisbætur hafa á atvinnuleysi og varðandi örorkuna, hvaða áhrif bæturnar hafa á fjölgun öryrkja. Þeir sem loka augunum fyrir þessu eru bara blindir. Þetta þekkist í öllum velferðarkerfum. Ég er því aldeilis hlessa á því að fulltrúi Samfylkingarinnar átti sig ekki á því að eitthvert samhengi sé á milli bóta og fjölda þeirra sem njóta þeirra.

Það er með ólíkindum ef hv. þingmaður veit ekki eitt einasta dæmi þess að það sé misnotkun t.d. hjá þeim sem eru í sambúð í reynd en þykjast ekki vera í sambúð til að fá bætur sem einstæðir foreldrar. Auðvitað er ákveðið samhengi þar á milli og auðvitað þurfa læknar sem meta langveik börn að standa á móti því til þess að gæta þess að þeir sem raunverulega þurfa á bótunum að halda fái þær, að ekki sé verið að þynna út kerfið. Þetta er þekkt í öllum velferðarkerfum og er ákveðinn vandi sem menn þurfa að taka á og glíma við og viðurkenna alla vega. (Gripið fram í.) Fjöldi manna þarf virkilega á örorkulífeyri að halda, fjöldi fólks þarf virkilega á þessum bótum að halda og við skulum halda okkur við þann hóp.