Greiðslur til foreldra langveikra barna

Föstudaginn 03. mars 2006, kl. 14:45:57 (5605)


132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[14:45]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þar kom nú líffræðingurinn upp í hv. 1. þm. Reykv. n. Ég minni samt hv. þingmann á að þegar hann var í ríkisstjórn og hans flokkur með félagsmálaráðuneytið þá var akkúrat ekkert gert í þessum málaflokki, akkúrat ekki neitt. Með þessu máli er gerð mikil réttarbót og við komum í höfn mjög mikilvægu máli sem allir ættu að fagna.

Í lok ræðunnar kom náttúrlega fram pirringurinn í hv. þingmanni. Honum er umhugað um að við sjálfstæðismenn förum illa með framsóknarmenn. Ég held að sú umhyggja sé eitthvað málum blandin og hann hafi bara gaman af því að stríða okkur. Það fer svo í taugarnar á hv. þingmanni hve stjórnarsamstarfið er gott og hve einstaklega góð vinna í nefndum er á milli þessara flokka og hvað ríkisstjórnin hefur staðið vel öll þau ár sem við höfum verið í samstarfi. Þar er ekki nokkurn einasta blett á að finna. Það er ekki nema von að hv. þingmaður reyni (Gripið fram í.) að hafa hér stór orð í þingsal. En ég segi bara: Áfram með þessa ríkisstjórn, hún gerir góða hluti og í mikilli sátt og samlyndi.