Greiðslur til foreldra langveikra barna

Föstudaginn 03. mars 2006, kl. 15:14:34 (5610)


132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[15:14]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði hér að þegar við hefðum rætt þessa þrepaskiptingu eða áfangaskiptingu í nefndinni hefði komið fram að það væri ekkert því til fyrirstöðu að hafa þetta svona. Það er margt því til fyrirstöðu. Ég kalla það fyrirstöðu þegar verið er að tala um að það sé verið að mismuna fólki, foreldrum langveikra barna sem búa við sömu aðstæður eftir því hvort barn fæðist fyrir eða eftir t.d. næstu áramót, þá getur það munað einum þremur mánuðum í greiðslum. Þarna er auðvitað verið að mismuna og það jaðrar við, eins og ég segi og því var meira að segja haldið fram, að þetta væri brot á jafnræðisreglunni. Auðvitað er því andmælt þegar málin eru með þeim hætti.

Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með þá afstöðu formanns félagsmálanefndar að hún telur nægjanlegt að hafa þessa greiðslu og hækka hana í samræmi við vísitölu við fjárlagaafgreiðslu. Hún vill sem sagt ekki hafa það fyrirkomulag sem er t.d. á hinum Norðurlöndunum að það sé tekið mið af launum og miklu hærri greiðslur, eða að tekið sé mið af því sem er núna í fæðingarorlofslögunum, sem er alveg sambærilegt af því að þetta eru greiðslur sem koma til út af vinnutapi. Eða þá, ef ég skildi þingmanninn rétt, að hún vilji ekki hafa þetta í samræmi við það sem nú er verið að vinna að varðandi atvinnulausa, að þetta verði tekjutengt. Hún vill bara hafa þetta fyrirkomulag áfram, smánarlega lágar greiðslur, 93 þúsund. Hún vill því hafa þetta smáa skref bara áfram, hún vill ekki horfa áfram og gera þessar greiðslur betri og skynsamlegri en hér er lagt til.

Ég lýsi líka vonbrigðum mínum með Tryggingastofnun og afstöðu hv. þingmanns til þess. Það er verið að flækja að óþörfu upplýsingum á milli stofnana, viðkvæmum upplýsingum, ef það á að hafa það með þessum hætti eins og hv. þingmaður lýsir.

Varðandi atvinnulausa og þá sem fá endurhæfingarlífeyri að þeir eigi líka að fá þessar greiðslur, af hverju má ekki skrifa það í frumvarpið, af hverju þarf þetta að vera í reglugerð? Ég minni á hvað hv. þm. Pétur Blöndal sagði varðandi sjúkrasjóðina, (Forseti hringir.) ef sjúkrasjóðirnir eiga að koma fyrst, þá á að skrifa það í lögin. Og af hverju ekki þá með þetta?