Greiðslur til foreldra langveikra barna

Föstudaginn 03. mars 2006, kl. 15:16:52 (5611)


132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[15:16]
Hlusta

Frsm. meiri hluta félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort ég á að endurtaka allt sem ég sagði í fyrra andsvari, sé kannski ekki alveg ástæðu til þess, en það voru nánast sömu spurningarnar sem komu fram í seinni umferðinni.

Þegar við í félagsmálanefnd fórum yfir þá þrepaskiptingu sem hefur verið mikið rædd hérna kom fram hjá fulltrúa félagsmálaráðuneytisins, ég man ekki orðalagið nákvæmlega, en það var einhvern veginn á þá leið að það væri ekkert athugavert við að þrepa inn réttindin, eins og við erum að gera. (Gripið fram í.) Réttindin komi ekki öll í einu skrefi heldur aukist þau með ákveðnum takti, í ákveðnum þrepum. Það var það sem ég var að vísa í.

Hvort greiðslurnar eigi að vera föst upphæð eða tekjutengdar við tekjur foreldranna, þá sagði ég hérna áðan að það skref sem við værum að taka núna eru fastar greiðslur, föst tala. En auðvitað kemur það til skoðunar eins og allt annað í frumvarpinu hvort fara eigi út í annað kerfi sem eru þá tekjutengdar greiðslur við fyrri tekjur foreldra eins og verið er að skoða núna varðandi atvinnuleysisbæturnar. En það sem menn verða að gera sér grein fyrir er: Hvað kostar þetta og hvað á að fara hratt í þetta? Auðvitað er það málið. (Gripið fram í.)

Vissulega væri hægt að láta afturvirknina vera fullkomna, taka allt inn í einu skrefi, borga bara 100% laun til þeirra sem eru að falla af vinnumarkaðnum óháð tekjum. Þeir sem eru með 10 milljónir á mánuði, fengju súpergreiðslur, fengju þær bara si sona. Spurningin er hvar maður ætlar að lenda þessu máli.

Ég tel, eins og hagsmunaaðilarnir segja, þetta vera mikilvægt skref, þetta er ekki lokaskref en þetta er mjög mikilvægt skref.