Vatnalög

Mánudaginn 06. mars 2006, kl. 16:13:33 (5659)


132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni Birki Jóni Jónssyni fyrir mjög fróðlega ræðu, þótt nokkuð væri hún öfgafull eins og margt sem kemur frá Framsóknarflokknum nú um stundir. En hann hittir naglann á höfuðið þegar hann sagði að tekist væri á um grundvallaratriði, annars vegar hvort líta beri á vatnið sem sameign þjóðarinnar eða á grundvelli eignarréttar einstaklinga. Þetta er grundvallarumræða og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni.

Hitt er hins vegar rangt að menn hafi verið sammála um túlkun vatnalaganna frá 1923 hvað lýtur að stjórnarskrá og dómaniðurstöðum. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér álitsgerðir manna á borð við Bjarna Benediktsson og Ólaf Jóhannesson, fyrrverandi forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins, þegar að því kemur. Þetta munum við að sjálfsögðu ræða í umræðu um þetta mál sem ég sé fyrir mér, hæst. forseti, að verði mjög löng. Það er kallað eftir svörum og þau svör mun hv. þingmaður fá.