Vatnalög

Mánudaginn 06. mars 2006, kl. 16:22:13 (5666)


132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:22]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Hlynur Hallsson sagði náttúrlega ekki nema hálfa söguna í þessu stutta andsvari sínu áðan. Með leyfi hæstv. forseta vil ég vitna í umsögn laganefndar:

„Laganefnd sýnist að vel hafi tekist til með frumvarpi þessu að ná yfirlýstu markmiði endurskoðunarinnar og gerir ekki aðrar athugasemdir en þær sem að neðan greinir.“ — Sem eru nú ekki stórvægilegar.

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar vitnuðu mjög mikið í álit laganefndar á 131. löggjafarþingi vegna orðanna „fyrst og fremst“. Nú er búið að leiðrétta þann misskilning og ég bið hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að vitna í umsögn laganefndar Lögmannafélagsins. Ég bendi á, hæstv. forseti, að formaður laganefndar tjáði sig ekki með afgerandi hætti líkt og hv. þm. Hlynur Hallsson sagði hér áðan. Það var ekki afgerandi svar, hann sagðist þurfa að skoða málið betur. Ég vitna enn og aftur í það álit sem Karl Axelsson lagði á borð fyrir okkur um að hugsanlega sé verið að brjóta í bága við stjórnarskrána ef við ætlum að þrengja þessi réttindi.