SæS / GÓJ

Þriðjudaginn 07. mars 2006, kl. 13:37:17 (5675)


132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Varamenn taka þingsæti.

[13:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst hin persónulegu skilaboð, síðan hin pólitísku skilaboð. Persónulega þykir mér eftirsjá að Árna Magnússyni úr stjórnmálum og óska honum alls góðs. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að segja að við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs óskum öllum hrókeruðum hæstv. ráðherrum og þingmönnum velfarnaðar í starfi og brottförnum að sama skapi.

Ég neita því ekki að ég varð hugsi þegar ég heyrði að fyrrv. hæstv. félagsmálaráðherra verði settur yfir fjárfestingar á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, eins og það mun hafa verið kallað, hjá einum af stærstu bönkum á Íslandi. Ég fæ ekki betur skilið en þetta sé annað heiti á raforkugeiranum og vek athygli á því að fyrir Alþingi liggja frumvörp frá ríkisstjórninni um að hlutafélagavæða og einkavæða raforkufyrirtækin í landinu. Þetta er þörf áminning til þingsins um að fjármálaheimurinn bíður spenntur eftir því að geta fengið almannaeignir til ráðstöfunar, almannaeignir sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru í þann mund að færa honum til ráðstöfunar. Það eru hin pólitísku skilaboð.