Vatnalög

Þriðjudaginn 07. mars 2006, kl. 15:56:04 (5685)


132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:56]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það getur vel verið að einhverjum finnist þetta flókið. Mönnum hefur fundist þetta flókið býsna lengi. Það er þó að mínu viti algjörlega skýrt að við viljum ekki að þetta eignarréttarhugtak, séreign, verði notað um vatnið, við teljum það ekki henta yfir þessa auðlind. Ég er á þeirri skoðun að menn ættu nokkurn veginn að geta skilið hvað við erum að fara. Við viljum að skilgreiningin sem verið hefur í vatnalögunum fram að þessu verði látin gilda. Það er aðalniðurstaðan. Ef það er voðalega óskýrt þá kann ég ekki að útskýra mjög vel fyrir mönnum hvað við er átt. Þá þurfa menn, a.m.k. þeir sem hér tala, að útskýra fyrir mér hvað þeir eiga við. Hvað er það sem þeir telja að breytist með þessari lagasetningu? Það hefur komið fram að þeir halda því fram að hér sé einungis formbreyting á ferðinni. Það ætti þá ekki að vera mikil fórn af þeirra hálfu ef það yrði til samkomulag að við höldum okkur við fyrri skilgreiningu en það virðist vera svo óskaplega mikilvægt fyrir stjórnarliða að þessi formbreyting fari fram. Ef þetta er bara formbreyting og hefur engin áhrif, hvers vegna ganga menn þá fram með þessum hætti og gera það að aðalatriði þess máls sem hér um ræðir að breyta forminu hvað þetta varðar? Hvernig stendur á því? Ég held að það þurfi að koma fram í þeirri umræðu sem eftir er og menn hafa nógan tíma til að útskýra það.