Vatnalög

Þriðjudaginn 07. mars 2006, kl. 16:06:18 (5690)


132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:06]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir yfirgripsmikla og góða ræðu um þetta mikilvæga mál sem liggur fyrir þinginu, frumvarp til vatnalaga. Til þess að það sé á hreinu þá leggjum við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að frumvarpinu verði vísað frá enda er það meingallað. Bara það að það skuli heita Frumvarp til vatnalaga er misskilningur vegna þess að frumvarpið er augljóslega samið í iðnaðarráðuneytinu og með hagsmuni virkjanasinna að leiðarljósi.

Strax í markmiðslýsingu, 1. gr., segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.“

Reyndar má fjalla um það í löngu máli hvernig ríkisstjórnarflokkarnir skilgreina sjálfbæra nýtingu vatns.

Það sem vantar í þessu frumvarpi til vatnalaga — sem er auðvitað ekki frumvarp til vatnalaga — er að aðeins er talað um nýtingu á vatni í mjög þröngum skilningi. Það er ekki verið að tala um verndun á vatni, það er ekki verið að hugsa um náttúruna í frumvarpinu. Miðað er við virkjanir.

Þetta er mjög mikilvægt mál, vatn. Vatn er eitthvað sem snertir okkur öll á einn eða annan hátt. Vatn er sennilega eitt mikilvægasta efni jarðarinnar. Þetta er ekkert venjulegt efni sem við fjöllum um. Það hefur margoft verið ítrekað að þetta er sameiginleg arfleifð mannkyns og það er afar mikilvægt að við hugsum fyrst og fremst um verndunarsjónarmið þegar við fjöllum um vatn. Því hefur jafnvel verið haldið fram að vatn sé margfalt mikilvægara efni en t.d. olía. Stríð síðustu ára, áratuga og alda hafa verið háð út af völdum og auðvitað út af olíu og jafnvel má búast við því að stríð framtíðarinnar verði háð út af vatni.

Við Íslendingar búum svo vel að við eigum nóg af hreinu vatni en hversu lengi vitum við ekki. Hins vegar er það árátta hjá núverandi ríkisstjórn að einkavæða allt og þetta er liður í þeirri áráttu, að vatn tilheyri einhverjum ákveðnum og einhver eigi vatnið, ekki bara vatnið í jörðinni undir landinu heldur líka vatnið sem rennur hjá. Ef á rennur í gegnum landareign þá á eigandi landsins, samkvæmt vatnalögunum, vatnið sem rennur fram hjá. Hann eignast það um leið og það kemur í landið og síðan á hann það ekki lengur þegar það rennur út úr landinu.

Þetta kemur skýrt fram í 2. grein um gildissvið:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Jafnvel í loftkenndu formi. Þá getur maður velt fyrir sér: andrúmsloftið er auðvitað að stórum hluta vatn, gufa. Á þá eigandi jarðarinnar andrúmsloftið? Þetta er afar furðuleg og einkennileg nálgun.

Í haust var haldin merkileg ráðstefna sem bar yfirskriftina „Vatn fyrir alla“. Fjölmörg samtök komu að þeirri ráðstefnu, Landvernd, þjóðkirkjan, BSRB, Menningar- og fræðslusamband íslenskra kvenna, Kennarasamband Íslands, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og Náttúruverndarsamtök Íslands.

Mig langar til að lesa aðeins upp úr sameiginlegri yfirlýsingu ráðstefnunnar, með leyfi forseta:

„Undirrituð samtök vilja með sameiginlegri yfirlýsingu þessari vekja athygli ríkisstjórnar, sveitarstjórna, stofnana, fyrirtækja og almennings á mikilvægi og sérstöðu vatns fyrir land, þjóð og lífríki. Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í heiminum. Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þann búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Hugsa verður til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruvernd að leiðarljósi.

Vatn er takmörkuð auðlind og almannagæði sem er undirstaða alls lífs og heilbrigðis. Vatn er frábrugðið öðrum efnum að því leyti að það finnst náttúrulega í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn. Undirrituð samtök telja að aðgangur að vatni sé grundvallarmannréttindi, eins og kveðið er á um í samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur undirgengist. Sérhver maður á því rétt á aðgengi að hreinu drykkjarvatni og vatni til hreinlætis og heimilishalds.

Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra verslunarvöru.

Nýting vatns skal vera sjálfbær og aðgengi að því tryggt með lögum fyrir núlifandi kynslóð og kynslóðir framtíðarinnar. Það er skylda stjórnvalda að tryggja þegnum sínum þennan rétt án mismununar.“

Svo kemur grein um að vatnsveitur verði reknar á félagslegum grunni:

„Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja verndun vatns sem náttúruverðmæta sem og að tryggja hollustu og dreifingu vatns til allra þjóðfélagsþegna með fjárfestingu í mannvirkjum og mengunarvörnum. Vatnsveitur verði því reknar á félagslegum grunni, taki mið af almannahagsmunum og tryggi rétt einstaklinga til nægilegs hreins vatns til drykkjar og hreinlætis á viðráðanlegu verði. Það er jafnframt hlutverk stjórnvalda að tryggja að við nýtingu vatns verði öðrum náttúruverðmætum ekki spillt.

Stjórnvöldum ber að tryggja almenningi aðgengi að öllum upplýsingum er varða verndun og nýtingu vatns og stuðla að aukinni virkni almennings og meðvitund um mikilvægi vatns, náttúru og réttrar umgengni við landið.

Vegna mikilvægis vatns fyrir íslenska þjóð og lífríki landsins telja undirrituð samtök nauðsynlegt að fest verði í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns. Lög og reglugerðir um nýtingu vatns taki því mið af ákvæðum sem viðurkenna rétt einstaklinga til vatns sem og lögum er varða verndun vatns og náttúru.

Til að tryggja skilvirka verndun og nýtingu vatns ber stjórnvöldum að skipuleggja stjórnsýslu þannig að eðlilegt jafnvægi sé á milli þessara þátta og réttar einstaklinga til aðgengis að vatni.“

Þetta er einmitt grundvallaratriðið, að allir eiga rétt á vatni og landeigendur eiga að hafa að sjálfsögðu nýtingarrétt á vatni en það er hins vegar spurning hvort þeir eigi að eiga vatnið. (Gripið fram í.)

Það er dálítið skemmtilegt að Morgunblaðið fjallaði um þessa ráðstefnu í nokkuð ítarlegu máli og meira að segja var leiðari skrifaður í Morgunblaðinu um þetta.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Tilgangur einkavæðingar er fyrst og fremst að tryggja neytendum betri þjónustu og kjör með tilstuðlan samkeppni, ekki að færa einokun frá einni hendi yfir á aðra. En það hlýtur einnig að vera mikið álitamál hvort hægt sé að einkavæða auðlind á borð við vatn og má yfirfæra þá umræðu yfir á umræðuna um auðlindir hafsins og spyrja hvort ekki sé rétt að líta á vatn sem þjóðareign. Nú stendur yfir nefndarstarf um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Rétt er að við þá endurskoðun verði áskorunin, sem kemur fram í yfirlýsingu félagasamtakanna fyrir helgi“ — og ég las hérna upp áðan — „um vatn fyrir alla, tekin til alvarlegrar skoðunar. Þótt á Íslandi sé gnægð vatns verða Íslendingar að sýna að þeir kunni að umgangast þessa mikilvægu auðlind af virðingu og alúð.“

Ég fagna því að sjálft Morgunblaðið tekur í sama streng og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og þessi fjölmörgu samtök sem stóðu fyrir ráðstefnunni um Vatn fyrir alla.

Iðnaðarnefnd bárust fjölmargar athugasemdir frá hinum og þessum sem ég tel rétt að fara yfir í nokkru máli vegna þess að þar kom fram mjög skýr gagnrýni á frumvarpið. Ég ætla að byrja á því að fara yfir umsögn frá hópi samtakanna, Vatn fyrir alla. Þar kemur afstaða þeirra mjög skýrt fram.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Efni: Umsögn um frumvarp til vatnalaga, þskj. 281.

Eftirfarandi samtökum, BSRB, þjóðkirkjunni, Kennarasambandi Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands, Unifem á Íslandi, Mannréttindaskrifstofu Íslands, MFÍK, Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Landssambandi eldri borgara, SÍB – Samtökum starfsfólks fjármálafyrirtækja, UMFÍ og Landvernd sem hafa skrifað upp á meðfylgjandi yfirlýsingu „Vatn fyrir alla“ hefur borist til umsagnar frumvarp til vatnalaga, lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006. Ekki vannst tími til að leggja fram sameiginlega umsögn um frumvarp til vatnalaga frá öllum samtökunum sökum þess hve stuttur tími var gefinn til umsagnar, auk þess sem einhver samtakanna munu væntanlega skila eigin umsögn. Eftirfarandi samtök standa sameiginlega að þessari umsögn um frumvarp til vatnalaga; BSRB, SÍB – Samtök starfsfólks fjármálafyrirtækja, UMFÍ – Ungmennafélag Íslands, Landssamband eldri borgara, KÍ – Kennarasamband Íslands, MFÍK, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Öryrkjabandalag Íslands og Náttúruverndarsamtök Íslands.

Í eftirfarandi sameiginlegri yfirlýsingu kemur fram meginafstaða samtaka þeirra sem að þessari umsögn standa til vatns og hvernig beri að skipa málum er vatn snerta. Ber að líta á efni yfirlýsingarinnar sem hluta af umsögn samtakanna um frumvarp til vatnalaga.“

Síðan kemur yfirlýsing um Vatn fyrir alla, en þar á eftir kemur umsögnin og nánari athugasemdir.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi til vatnalaga er sú meginbreyting gerð að rétti til umráða og hagnýtingar á því vatni sem á landareign finnst, er umbreytt í óskoraðan eignarrétt.“ — Þetta er einmitt það sem við höfum verið að benda á en stjórnarflokkarnir og meiri hlutinn í iðnaðarnefnd kallar formbreytingu. — „Um leið er skilgreiningu á vatni breytt, frá því að vera vatn í almennri merkingu (ár, lækir, stöðuvötn) yfir í mun víðtækari merkingu, sbr. 2. gr. frumvarpsins: „Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“ Samtökin fallast ekki á þá túlkun að þessi breyting sé einvörðungu formsatriði og hafi enga efnislega þýðingu. Mótmæla samtökin þessari breytingu og leggja til að ákvæði 2. gr. vatnalaga frá 1923 standi óbreytt, enda er breytingin í andstöðu við þá skipan vatnsmála sem fram kemur í sameiginlegri yfirlýsingu samtakanna og byggð er á samþykkt Sameinuðu þjóðanna frá 2002, sem Ísland hefur undirgengist. Þar segir m.a. að líta skuli á vatn fyrst og fremst sem menningarleg og félagsleg gæði en ekki sem efnahagsleg gæði.“

Þess má geta að Sameinuðu þjóðirnar útnefndu áratuginn 2005–2015 sem áratug vatnsins. Það væri dálítið sorglegt að í upphafi þessa áratugar værum við á Íslandi að samþykkja lög sem færa eignarhald á vatni til einhverra einstaklinga. Þetta er í algjörri andstöðu við það sem Sameinuðu þjóðirnar stefna að og nágrannalönd okkar hafa verið að gera á síðustu árum og Evrópusambandið hefur líka verið að færa inn í samþykktir sínar.

„Samtökin gera athugasemdir við eftirfarandi atriði.

1. Athugasemd við ætluð markmið lagafrumvarpsins.

Í athugasemdum við lagafrumvarpið segir að markmið endurskoðunar vatnalaga hafi hafist 2001 og hafi verið að samræma ákvæði vatnalaga annarri löggjöf sem sett hefur verið á gildistíma laganna, þ.e. frá 1923. Hér verður að hafa í huga að ein meginbreytingin sem nýtt frumvarp ber með sér, er breyting á afnota- og umráðarétti landeiganda yfir í hreinan eignarrétt.

(a) Þá ber að athuga í fyrsta lagi hvaða lög hafa verið sett á þeim tíma – sem og undir hvaða alþjóðlega sáttmála hefur verið skrifað sem hafa mátt samræma eða stýra þeirri lagasetningu, t.d. samþykkt Sameinuðu þjóðanna um að líta beri á aðgang að vatni sem mannréttindi en ekki hverja aðra verslunarvöru og hvort að það hefur alltaf verið til staðar frá 1923 eitthvað innra samræmi í lagasetningunni sem nú er verið að fella ný vatnalög að. Ef slíkt innra samhengi hefur ekki verið til staðar þá er ekki hægt að tala um verið sé að „samræma“ ný vatnalög einhverju, þá er ekkert einsleitt til að færa lagasetningu í samræmi við. Og ef að það eru uppi mismunandi áherslur í lagasetningunni, t.d. í lögum um náttúruvernd (sem snertir vatn) og svo aftur á móti í lögum um auðlindir í jörðu, eða í lagasetningu um vatnsveitur sem setja þær undir félagsmálaráðuneyti og svo í lögum um t.d. Norðurorku, sem færa vatnsveitur undir iðnaðarráðuneyti, þá er ljóst að það „samræmi“ sem talað er um í athugasemdunum er ekki til staðar. Þá hlýtur samræmingin sem stefnt er að að miða við að vatnalög verði í samræmi við ákveðna þætti í völdum lögum eða ákveðna valda lagabálka.“

Hérna kemur síðan mjög mikilvægur þáttur, sem dálítið hefur verið fjallað um og mikið fjallað um í iðnaðarnefnd.

„(b) Þá er það hlutleysis og faglega yfirbragð sem gefið er í skyn með því að aðeins sé verið að vinna að samræmingu við aðra löggjöf falskt. Þá má ljóst vera að markmiðin eru önnur og ákveðnari og sett annaðhvort í pólitísku skyni eða til að koma til móts við ákveðna hagsmuni, sem ekki eru taldir hafa verið nægilega tryggðir hingað til. Þá er spurningin hverra hagsmuni er þarna verið að gæta.

(c) Fróðlegt er í því sambandi að sjá hvaða hagsmunaaðila ráðherra taldi rétt að kalla að lagasmíðinni, en það voru m.a.“ — og takið nú vel eftir — „fulltrúi Bændasamtaka Íslands, fulltrúi Orkustofnunar, lögfræðingur Orkuveitunnar sem fulltrúi Sambands sveitarfélaga, auk fulltrúa Samorku. Ekki var leitað til annarra samtaka sem hafa hér augljósra hagsmuna að gæta, hvort sem eru náttúruverndarsamtök, mannréttindasamtök, neytendasamtök, verkalýðssamtök eða önnur þau samtök og aðilar sem gæta almannahagsmuna.“

Þetta er nú dálítið áhugavert. Það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar var að þetta lagafrumvarp er greinilega samið með hagsmuni iðnaðarráðherra í huga fyrst og fremst. Það er nú dálítið skrýtið að hvorki skuli vera talsmenn neytenda eða Neytendasamtök eða mannréttindasamtök höfð með í ráðum þegar er verið að semja lagafrumvarpið. Þeim er auðvitað gefinn eftir á kostur á að koma með athugasemdir en síðan er ekkert hlustað á þær athugasemdir eins og við sjáum, ekki hlustað á þær að neinu leyti.

Síðan eru gerðar athugasemdir við eignarréttarákvæði:

„Í II. kafla, 4. gr. segir: „Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“ Vatn er endurskilgreint með mjög víðtækum hætti sbr. 2. gr. frumvarpsins: „Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi ...“

(a) Með því að breyta umráðarétti og hagnýtingarrétti á vatni í kláran eignarrétt er stigið skref í þá átt að skilgreina vatn sem einkaeign viðkomandi landeiganda, hvort sem um er að ræða bændur, einkaaðila eða fyrirtæki stór eða smá. Að sumra mati kann það skref að vera óafturkræft, þó um það megi deila. Samkvæmt skilgreiningu á eignarrétti í víðtækustu merkingu, samanber Björn Þ. Guðmundsson, er átt við að „rétthafinn hafi einn heimild til umráða og ráðstöfunar verðmæta“. (Björn Þ. Guðmundsson, Lögbókin þín, bls. 93.)

(b) Í 1. gr. vatnatilskipunar Evrópusambandsins, sem til stendur að taka upp (a.m.k. að hluta) hér á landi innan skamms, segir: „Vatn er ekki eins og hver önnur verslunarvara, heldur öllu frekar sameiginleg arfleifð, sem verður að vernda, verja og meðhöndla sem slíka.“ Ofangreind breyting á eignarrétti á vatni gengur augljóslega þvert gegn vatnatilskipun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á að vatn sé sameiginleg arfleifð en ekki einkaeign tiltekinna einstaklinga, hópa eða fyrirtækja.

(c) Í athugasemdum við frumvarpið er mikil áhersla lögð á rökfærslu fyrir því að samkvæmt vatnalögum 1923 sé umráð og hagnýtingarréttur á vatni jafngildur hefðbundnum eignarrétti og því sé hér um formbreytingu að ræða en ekki efnislega. Segir í athugasemdum við nýju vatnalögin að algengt sé að telja einstakar heimildir eða þætti eignarréttar yfir fasteignum sem sérstök réttindi, t.d. vatnsréttindi eða rekaréttindi. Af því leiðir að vatnsréttindi séu flokkuð sem sérstök eignarréttindi að fasteign. Hér má spyrja hvort ekki sé frekar um að ræða takmörkuð afnotaréttindi byggð á eignarrétti á landinu sem eðli málsins samkvæmt skapar ýmis afnot. Það er ekkert því til fyrirstöðu að sá skilningur sé hafður uppi þegar vatnalögin eru lesin, sem og ef vatn er talið og skilgreint sem sérstakt fyrirbæri, t.d. samkvæmt stjórnarskrá, alþjóðasáttmálum eða samkvæmt skilningi löggjafans á þeim tíma sem lög voru sett. Og við lagasetninguna var tekist á um tvö meginsjónarmið, annars vegar hvort líta ætti á vatn sem einkaeign, hins vegar hvort það ætti að vera í þjóðareign, með afnotum fyrir einstaklinga.

(d) Rökin sem eru notuð í athugasemdunum eru m.a. þau að „um sé að ræða allar helstu hagnýtingarheimildir á vatni sem máli skipta, þar með talinn rétt til orkuvinnslu sbr. 49. gr.“ ... og er vitnað í hana með eftirfarandi hætti: „Eiganda landareignar, sem vatnsréttindi fylgja, svo og öðrum, sem heimildir hafa á þeim tekið, er rétt að nota það vatn, sem um hana rennur, til að vinna úr því orku …“ Í athugasemdunum er hins vegar sleppt þeim skilyrðum sem koma í beinu framhaldi í sömu setningu, sem hljóta að teljast vera á skjön við almenna skilgreiningu á eignarrétti. Þessar takmarkanir eru m.a. að „enda sé enginn fyrir það sviptur því vatni, sem hann þarf að nota samkvæmt III. og IV. kafla, (III. kafli fjallar um vatnsnotkun til heimilis og bústarfa og IV. kafli um áveitur) né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun, né vatni, er nota þarf með þeim hætti, spillt fyrir neinum, svo að til verulegra óþæginda horfi.“

Þá segir í upphaflegu lögunum í gr. 49 lið 2. „Eigi má umráðamaður vatnsréttinda virkja hluta af fallvatni, sem hefir meira en 500 eðlishestöfl, nema leyfi ráðherra komi til, og í þriðja lagi má binda leyfi þeim skilyrðum um vatnstökuna, gerð og tilhögun mannvirkja, tegund og spennu raforkustraums, sem nauðsynleg þykja til þess að tryggja almenningshagsmuni, þar á meðal sérstaklega það, að unnt verði seinna meir að koma hentugu skipulagi á orkuveitu til almenningsþarfa í héraði því eða landshluta, sem orkuverið eða veitan er í. Enn fremur má setja skilyrði um það, að almenningi í nágrenni við veituna sé veittur kostur á orku úr henni.““

Þetta er nú dálítið athyglisvert úr þessum gömlu góðu lögum frá 1923. Svo segir, með leyfi forseta:

„Hér er augljóst að almannahagsmunir voru hafðir í huga við setningu laganna 1923 sem afmarka mjög það sem kalla mætti eignarrétt í hefðbundnum skilningi.“ — Og þetta verða nú fulltrúar meiri hlutans að viðurkenna. — „Það sem er kannski meira um vert er að þessi tilvitnaði liður var felldur út úr vatnalögum og færður undir raforkulög. Með öðrum orðum þá er raforkuþáttur vatnsréttinda talinn það sértækur að um hann hafa verið samin sérstök lög þar sem kveðið er á um rétt landeiganda og annarra til að reisa orkuver að fengnu leyfi ráðherra. Því má segja að það séu ekki vatnalög sem segi til um þennan afmarkaða hagnýtingarrétt á vatni, heldur raforkulög. Það er því varla hægt að finna í þessari grein vatnalaga réttlætingu á því að telja megi afnotarétt landeiganda að vatni fullgildan eignarrétt.

(e) Í athugasemdum við frumvarpið er sagt að vatnsréttindi fasteignaeiganda takmarkist af efni vatnalaganna sjálfra og þar sé „ekki að finna almenna reglu um það hver hafi heimild til þeirra vatnaafnota sem fasteignaeigandi ber ekki.“ Hér er í fyrsta lagi viðurkennt að fasteignaeigandi ber ekki full afnot af vatni sem á landi hans er. Í öðru lagi segir í athugasemdunum sjálfum að „vatnsréttindi ríkisins [séu] að því leyti víðtækari en vatnsréttindi annarra að þau taka til allra vatnsnota sem engum öðrum eru heimiluð.“ Það er því rökrétt að álykta að í fyrsta lagi er afnotaréttur landeiganda að vatni takmarkaður og þar með vatnsréttindi hans og í öðru lagi að sá réttur sem út af stendur, hvort sem er varðandi vatnsréttindi landeiganda sjálfs, en einnig á landareignum sem ekki eru háðar eignarrétti lögaðila (einskismannslandi), sem og á þjóðlendum, að sá réttur er í hendi ríkisins, þjóðarinnar. Vatn er því sameign þjóðarinnar. Hér má einnig benda á 11. gr. vatnalaga en þar segir: „Öllum er heimilt að taka vatn til heimilisþarfa og bús, þar sem landeiganda er meinlaust, svo og að nota vatn til sunds og umferðar, einnig á ísi, enda fari það eigi í bága við lög, samþykktir eða annað lögmætt skipulag.“ Hvernig fellur þetta að skilgreiningunni á eignarrétti sem segir að rétthafinn hafi einn heimild til umráða og ráðstöfunar verðmæta? Í lögunum frá 1923 er landsmönnum veittur réttur til afnota af vatni, sem eigandi lands með vatnsréttindum getur ekki selt eða ráðstafað.

(f) Sú aðgerð að færa vatn úr sameign yfir í einkaeign er líkleg til að gera vatnsvernd erfiðari þar sem opinbert inngrip í nýtingu og meðferð vatns kann að stangast á við eignarrétt sem er varinn í stjórnarskrá. Rétt er þó að minna á að helgi eignarréttar er ekki takmarkalaus. Í 72. gr. stjórnarskrá segir: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji.“ Sérhver aðgerð sem kann að gera náttúruvernd erfiðari verður að vera rökstudd mjög vel. Í greinargerð með frumvarpinu er m.a. rætt um að vatnalög taki eðlilega bæði til allsherjarréttar og einkaréttar:

Lögin [frá 1923] tóku jafnt til einkaréttarlegra hagsmuna eigenda vatnsréttinda og almannahagsmuna. Þannig falla lögin bæði innan sviðs allsherjarréttar og einkaréttar. Reglur allsherjarréttarins eru fyrst og fremst settar til verndar hagsmunum samfélagsins í heild, t.d. náttúruvernd, en reglur einkaréttarins eru settar til verndar tilteknum einstaklingshagsmunum, þótt engan veginn sé flokkun þessi einhlít.

Sú stefnubreyting sem boðuð er með núverandi frumvarpi gengur út á að gera einkarétt á vatni hærra undir höfði en allsherjarrétti, þ.e. að setja hagsmuni einkaaðila ofar almannahagsmunum. Það er skoðun samtakanna að í tilviki vatns sé slík forgangsröðun óásættanleg, þegar vatn sé annars vegar skipti almannahagsmunir meira máli en einkahagsmunir.“ — Ég hélt að þetta væri nú eitthvað sem við gætum öll verið sammála um. — „Þessi afstaða endurspeglast í vatnatilskipun Evrópusambandsins og í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

(g) Eignarréttarákvæði í II. kafla, 4. gr. virðist ekki vera í samræmi við aðrar greinar í kaflanum. Þannig segir t.d. í 5. gr.: „Fasteignaeigendur sem hafa aðgang að sama vatni eiga sama rétt til þess í hlutfalli við þá nýtingu sem er gerleg á eða fyrir landi þeirra. Ef ekki verður samkomulag um nýtingu skal skera úr með mati dómkvaddra matsmanna.“ Hér virðist gert ráð fyrir nýtingarrétti á vatni frekar en eignarrétti. Ef eignarréttarákvæðið í 4. gr. ætti að ráða ferðinni væri eflaust nær að tala um hlutfallslega eign frekar en gerlega nýtingu. Svipaða sögu er að segja um aðrar greinar II. hluta. Því virðist ávinningur þess að setja eignarréttarákvæði í 4. gr. óljós þótt ekki sé litið til annars en annarra greina frumvarpsins.

(h) Mjög óljós ávinningur er af því að færa vatn úr sameign í einkaeign og því er breytingin ekki rökstudd með fullnægjandi hætti. Af ofangreindu er ljóst að sú staðhæfing í rökstuðningi með frumvarpinu að „leggja [verði] áherslu á að hér [þ.e. með breytingu á eignarréttarákvæðinu] er um formbreytingu að ræða en ekki efnislega breytingu á inntaki eignarráða fasteignaeiganda yfir vatni“ fæst ekki staðist. Breytingin er miklu meira en formbreyting.

(i) Þó að það megi augljóslega deila um túlkun á vatnalögunum frá 1923, þá er það ljóst að verði orðið við kröfu þeirra samtaka sem að yfirlýsingunni „Vatn fyrir alla“ stóðu, um að ákvæði er varða vatn sem mannréttindi, að lög um vatnsnýtingu hljóti að taka mið af lögum um vatnsvernd sem og að vatnsveitur verði reknar á félagslegum grunni verði sett í stjórnarskrá, þá hlýtur að koma til heildstæð endurskoðun á lögum um vatn í heild sinni. Það hlýtur því að vera krafa að endurskoðun vatnalaganna feli í sér aukna áherslu á almannarétt og að horfið verði frá því að vatn teljist einkaeign þeirra landeiganda sem það finnst á.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa haldið því fram að ríkið verði þar með skaðabótaskylt að einhverju leyti. En sumir lögfræðingar sem komu fyrir nefndina töldu svo ekki vera.

Svo segja samtökin sem stóðu að yfirlýsingunni Vatn fyrir alla eftirfarandi um stjórnsýslulega stöðu laganna. Ég ætla aðeins að fara yfir það, með leyfi forseta:

„Samtökin gera athugasemd við að vatnalög, þ.e. einu heildarlögin um vatn, falli undir iðnaðarráðuneytið en ekki umhverfisráðuneytið.

Í I. kafla, 1. gr. segir: „Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns. Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að raska ekki vatni, farvegi þess, lífríki þess, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er.“

Af 1. gr. má sjá að lögin taka ekki bara til nýtingar á vatni í atvinnuskyni heldur til „hvers kyns nýtingar.“ Einnig segir að markmið laganna sé sjálfbær nýting vatns. Í IX. kafla, 34. gr. sem fjallar um stjórnsýslulega stöðu laganna segir svo:

„Iðnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar sem teknar eru á grundvelli laga þessara sæta kæru til iðnaðarráðherra. Um meðferð máls fer samkvæmt stjórnsýslulögum.“

Í 35. grein segir svo:

„Skylt er að tilkynna Orkustofnun um allar framkvæmdir í eða við vötn vegna vatnsnýtingar, þar á meðal framkvæmdir sem ekki eru leyfisskyldar samkvæmt þessum lögum eða öðrum. ...

Orkustofnun er heimilt að setja skilyrði fyrir framkvæmdum og starfsemi sem taldar eru nauðsynlegar af tæknilegum ástæðum eða ef ætla má að framkvæmdir eða starfsemi geti spillt þeirri nýtingu sem fram fer í vatni eða möguleikum á að nýta vatn síðar. Heimild Orkustofnunar til þess að setja slík skilyrði nær þó ekki til framkvæmda og starfsemi á friðlýstum svæðum sem háðar eru leyfi Umhverfisstofnunar.“

Með því að fella einu heildarlögin um vatn undir iðnaðarráðherra og gera Orkustofnun að helsta eftirlitsaðila með þeim er lögð áhersla á nýtingu vatns frekar en verndun. Verndunarþátturinn, t.d. það sem lýtur að friðlýstum svæðum, kemur inn sem undantekning frá þeirri meginreglu að vatn sé auðlind sem beri að nýta.

Samtökin telja eðlilegra að verndunarsjónarmið standi nýtingarsjónarmiðum framar. Þar með væri eðlilegt að vatnalög heyrðu undir umhverfisráðuneytið og að Umhverfisstofnun væri helsti eftirlitsaðili með lögunum. Það er í raun mjög sérkennilegt að Orkustofnun, sem er sérfræðistofnun á sviði orkumála, skuli eiga að hafa eftirlit með framkvæmd laganna, þar sem þær framkvæmdir sem líklegar eru til að spilla vatnakerfum hafa oft ekkert með orkumál að gera. Nærtækast er að nefna framræsingu mýra í þessu sambandi.“

Í iðnaðarnefnd var talað um að það kæmu kannski bara seinna einhver lög um verndun vatns, þau mundu þá falla undir umhverfisráðuneytið. Við spurðum á móti: Er þá ekki eðlilegt að þessi lög séu öll tekin fyrir á sama tíma eða er einhver ástæða til þess að klippa þetta í sundur? Vatnalögin frá 1923 tóku yfir þetta allt saman og það er mjög eðlilegt að halda því þannig áfram.

Svo gera samtökin athugasemd við samningu laganna og það er mikilvægt að fara aðeins betur ofan í þá hluti:

„Samtökin átelja hversu skammur tími hefur verið gefinn til umsagnar um frumvarp til vatnalaga, auk þess sem samtökin gera alvarlegar athugasemdir við hversu þröngur hópur hagsmunaaðila var kallaður að samningu frumvarpsins. Það er alls ekki um það deilt að Orkustofnun er fagaðili á sviði tiltekinnar vatnsnýtingar eða að Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samorka eigi augljósra hagsmuna að gæta.

a. Þess ber að gæta að frumvarpið er grundvallarfrumvarp er fjallar um grundvallarforsendu lífs á jörðunni, vatn og aðgang að vatni sem Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint sem grundvallarmannréttindi og því telja undirrituð samtök ámælisvert að ekki skuli hafa verið leitað til annarra aðila sem einnig hafa hér augljósra hagsmuna að gæta, hvort sem er náttúruverndarsamtök, mannréttindasamtök, neytendasamtök, verkalýðssamtök eða önnur þau samtök og aðilar sem gæta almannahagsmuna.

b. Samtökin telja ámælisvert að lög, sem færa mikilsverðar auðlindir úr sameign í einkaeign, skuli ekki samin með aðkomu stærri og margbreytilegri hóps. Ekki er hægt að skilja vinnulagið við samningu frumvarpsins öðruvísi en svo að litið sé á að hagsmunaaðilar séu fyrst og fremst þeir sem séu líklegir til að gera vatn að verslunarvöru eða hafa eftirlit með stórfelldri nýtingu vatns. Enn virðast því verndunarsjónarmið og hagsmunir almennings víkja fyrir nýtingarsjónarmiðum og sérhagsmunum. Samtökin telja slíka mismunum óásættanlega en sérstaklega átelja þau að slík mismunun sé ekki einungis útkoma úr vinnu við frumvarpið heldur hafi verið gert ráð fyrir henni frá upphafi. Þetta þýðir að þeim, sem er mismunað, var ekki gefinn sanngjarn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Þess vegna telja samtökin ekki einasta að niðurstaðan, þ.e. frumvarpið, sé óréttlát, heldur hafi málsmeðferðin, ferlið við samningu frumvarpsins verið óréttlát.“

Að lokum segir í þessari greinargerð þessar fjölmörgu samtaka:

„Að teknu tilliti til þessara athugasemda leiðir að forsendur framlagningar frumvarps um vatnalög í óbreyttu formi eru brostnar og leggja undirrituð samtök því til að frumvarpið verði dregið til baka. Frekari ástæður fyrir þeirri kröfu má leiða af efni yfirlýsingar samtakanna, en þar er farið fram á heildstæða og samræmda framsetningu laga er snerta vatn, og áhersla er lögð á að lög um nýtingu vatns, eins og frumvarpið um vatnalög er dæmi um, verði ávallt að taka mið af lögum um vatnsvernd. Að öðrum kosti er ekki hægt að tryggja að aðgangur að vatni verði tryggður fyrir komandi kynslóðir sem grundvallarmannréttindi og forsenda annarra mannréttinda, eins og fjallað er um í ítarlegu máli í samþykkt Sameinuðu þjóðanna.

Hér er verið að setja lög um vatnsnýtingu sem tryggir einkaeignarrétt á vatni, sem er sameiginleg arfleifð mannkyns og grundvallarmannréttindi og hefur Ísland staðfest það með samþykkt sinni að yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Því er augljóslega verið að byrja á röngum enda í lagasetningu og festa í sessi skipan sem er öndverð þeirri sem sett er fram í yfirlýsingu undirritaðra samtaka.

Samtökin telja að engin frambærileg rök hafi komið fram um hvers vegna sé nauðsynlegt að leggja fram þetta frumvarp um vatnalög á þessum tímapunkti og sjá því enga ástæðu sem gangi gegn því að þau verði dregin til baka nú.“ — Það liggur sem sagt ekkert á.

„Undirrituð samtök telja því einsýnt að frumvarpið um vatnalög verði dregið til baka og að öll lög sem snerta vatn, hvort sem um er að ræða lög um vatnsveitur eða jarðrænar auðlindir verði tekin til heildstæðrar endurskoðunar, þar sem efni yfirlýsingarinnar „Vatn fyrir alla“ sé haft til hliðsjónar. Enn fremur lýsa samtökin þeirri skoðun sinni að óhjákvæmilega verði að leita til fleiri aðila við þá endurskoðun, en þeirra sem haft var samráð við um samningu frumvarpsins um vatnalög.“

Þetta var sem sagt úr umsögn Náttúruverndarsamtaka Íslands, Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna, Kennarasambands Íslands, Landssambands eldri borgara, Ungmennafélags Íslands, Samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það voru reyndar miklu fleiri samtök sem áttu aðild að yfirlýsingunni um „Vatn fyrir alla“ en það var afar skammur tími til að gefa umsagnir, eins og er oft um svona umsagnir, og þess vegna gafst ekki tími til að kalla öll samtökin aftur að borðinu.

Fleiri umsagnir voru mjög gagnrýnar á þetta frumvarp. Mig langar til að fara aðeins yfir t.d. umsögn Umhverfisstofnunar og aðeins um forsöguna þar.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Líkt og iðnaðarnefnd er vel kunnugt hafa verið mjög skiptar skoðanir um nefnt frumvarp“ — þ.e. frumvarp til vatnalaga — „og Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun gerðu fjölmargar athugasemdir við fyrra frumvarp um sama efni er það var til umfjöllunar Alþingis á síðasta löggjafarþingi.

Við vinnslu fyrirliggjandi frumvarps virðist nefndin sem vann drögin ekki hafa sent þau út í því skyni að leita með formlegum hætti eftir viðbrögðum annarra aðila og taka rökstudda afstöðu til innsendra athugasemda sem lagðar yrðu fyrir ráðherra ásamt frumvarpinu. Umhverfisstofnun vill raunar halda því til haga að fulltrúi nefndarinnar leitaði óformlega til stofnunarinnar á sínum tíma um tiltekin atriði um almannarétt er snerta vatn. Umhverfisstofnun telur það verklag, sem því miður er ekkert einsdæmi, að nefndir skili frumvarpstexta til ráðherra án þess að hafa sjálfar leitað eftir viðbrögðum með formlegum hætti úti í samfélaginu sé mjög vandmeðfarið. Slíkt á einkanlega við þegar verið er að leggja til breytingar á löggjöf sem kunna að snerta eða skarast á við verkefni sem aðrir aðilar innan stjórnsýslunnar eru að sinna. Þegar þannig háttar og eftir að frumvarpið hefur verið lagt fram má reikna með að umræður um efni þess fari eingöngu fram á Alþingi. Hætt er við að umræðan verði mun harðari en hún þyrfti að vera ef ekki er búið að ræða framkvæmdar- og tækniatriði þess á fyrri stigum og sem flest sjónarmið þess liggja fyrir. Umhverfisstofnun telur að umrætt frumvarp til vatnalaga hafi goldið þessa verklags.

Umhverfisstofnun fer m.a. með framkvæmd náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, og laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í þessum lögum er m.a. kveðið á um almannarétt, umsagnir um mat á umhverfisáhrifum, leyfisveitingar til mengandi starfsemi og verndun vatns. Þegar Umhverfisstofnun veitir umsagnir horfir hún til þeirra verkefna sem henni eru falin og þegar frumvarpið kom fram taldi hún nauðsynlegt að gera við það verulegar athugasemdir. Í umræðum sem fylgdu framlagningu frumvarpsins á síðasta þingi var það nefnt að Umhverfisstofnun hefði verið að tjá sig um pólitísk atriði. Umhverfisstofnun er stjórnsýslustofnun og hún harmar að hafa dregist inn í atburðarás með þeim hætti sem var sl. vor. Markmið stofnunarinnar er að standa vörð um þá málaflokka sem henni er trúað fyrir og leiðbeina löggjafanum þegar fjallað er um mál er hana varða út frá faglegu sjónarmiði. Það var ekki og er ekki ætlun stofnunarinnar að taka þátt í pólitískri umræðu sem kjörnir fulltrúar sjá um. Umhverfisstofnun hefur farið yfir málin með umhverfisráðuneytinu og fellst á að sumt af því sem kemur fram í umsögninni, einkum í fylgiskjölum með umsögninni, megi skilja þannig að stofnunin væri að taka pólitíska afstöðu varðandi eignarrétt á vatni og hefði orðalag þeirra mátt vera öðruvísi. Í ljósi þessa telur Umhverfisstofnun mikilvægt að árétta hin faglegu sjónarmið sem hún telur nauðsynlegt að löggjafinn þekki áður en hann tekur ákvörðun um lagasetningu.

Þegar Alþingi var frestað sl. vor hafði Umhverfisstofnun að eigin frumkvæði samband við Orkustofnun og gerði tillögu að nokkrum atriðum sem mundu koma verulega til móts við sjónarmið stofnunarinnar. Efnislega voru það þrjú meginatriði sem Umhverfisstofnun lagði til í þeirri umræðu.

1. Betur verði hugað að almannarétti.

2. Leyfisveitanda bæri að horfa til umhverfissjónarmiða við leyfisveitingu á sama hátt og Umhverfisstofnun er skylt að gera við sínar leyfisveitingar.

3. Heimild yrði sett til leyfisveitenda að beita þvingunarúrræðum ef framkvæmdaraðili uppfyllti ekki skilyrði sem sett voru varðandi leyfi.

Jafnframt var því haldið til haga í þeim umræðum að Umhverfisstofnun gerði fyrirvara við heiti frumvarpsins. Þá hafði hún efasemdir um að skilgreining á því til hvaða hluta vatnseignarrétturinn næði og að eignarrétturinn væri mismunandi eftir því hvar í náttúrunni eða hringrásinni vatnið væri skýrði viðfangsefni betur en sú framsetning sem er í gildandi lögum. Loks taldi Umhverfisstofnun eðlilegt að leggja fram og afgreiða samtímis ofangreint frumvarp og frumvarp um lögleiðingu vatnatilskipunarinnar. Hins vegar var það samdóma álit stofnunarinnar að þær umræður væru ekki viðfangsefni milli þessara aðila í viðræðunum.

Í framhaldi af þeim umræðum fór forstjóri Umhverfisstofnunar þann 29. september sl. á fund með fulltrúum umhverfis- og iðnaðarráðuneyta þar sem þessar tillögur voru ræddar. Á fundinum var ákveðið að Umhverfisstofnun kæmi tillögum sínum óformlega til umhverfisráðuneytis og síðan hefðu ráðuneytin samráð sín á milli. Eftir þessu ferli var farið og afraksturinn er eins og fram kemur í framlögðu frumvarpi.“

Í umsögn Umhverfisstofnunar, niðurstöðukafla, segir, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun telur að þeir meginþættir sem eru í umræðu um fyrirliggjandi frumvarp snúi að því að:

verið er að breyta gömlum heildarlögum og láta þau fjalla um afmarkaðan þátt fyrri laga, en undir sama heiti,

skilgreiningu á eignarrétti er breytt, en á sama tíma eru felld niður ákvæði er varða almannarétt,

von er á frumvarpi þar sem ætlunin er að innleiða hluta af svokallaðri vatnatilskipun sem gengur út á að mynda rammalöggjöf um sameiginlega nýtingu vatns, aðgengi almennings að vatni og verndun. Helsta leiðarljós vatnatilskipunarinnar er að vatn er ekki verslunarvara heldur sameiginleg arfleifð sem beri að varðveita sem slíka.

Umhverfisstofnun telur þær breytingar sem orðið hafa á frumvarpinu frá fyrra þingi vera til bóta en að enn standi eftir nokkur mikilvæg atriði. Eftirfarandi athugasemdir verða að skoðast í ljósi þess að enn hefur frumvarp um lögleiðingu vatnatilskipunarinnar ekki komið fram og því ekki búið að samræma löggjöf um nýtingu og verndun vatns.

Hvað varðar aðra liði í umsögn Umhverfisstofnunar, að frátöldum fylgiskjölunum, telur Umhverfisstofnun rétt að þeim sé haldið til haga og þeir verði teknir inn í umræðuna eins og við á. Eins og bent er á í fyrri umsögn stofnunarinnar liggur fyrir að margar af athugasemdum stofnunarinnar yrðu með öðrum hætti ef þetta frumvarp og frumvarpið um lögleiðingu vatnatilskipunarinnar væru lögð fram og afgreidd samhliða.

Umhverfisstofnun gerir meginathugasemdir við sjö eftirfarandi atriði og leggur til að:

1. frumvarp um lögleiðingu vatnatilskipunarinnar verði lagt fram um leið og frumvarp um vatnalög,“ — það hefur því miður ekki verið gert.

„2. heiti frumvarpsins verði breytt þannig að það gefi betur til kynna efni þess.“ — Þ.e. að þetta séu ekki vatnalög heldur vatnsnýtingarlög. Það hefur því miður ekki heldur verið gert.

„3. í markmiðskaflann verði sett nánari leiðsögn til leyfisveitanda um að taka skuli mið af umhverfissjónarmiðum,

4. tryggt verði að almannaréttur veikist ekki,

5. telji Alþingi að einungis sé um formbreytingu að ræða varðandi skilgreiningu á eignarhaldi, og sé það ætlun þess að svo verði, telur Umhverfisstofnun að skilgreining sem byggir á orðalagi gildandi laga sé skýrari út frá sjónarmiði náttúrufræða og valdi minni óvissu í túlkun á almannarétti,

6. hugað verði að samræmingu í notkun orðanna landareign og fasteign milli laga þar sem nýting vatns kemur fyrir.“ — Að lokum gerir Umhverfisstofnun tillögu um breytingu á 35. gr.

Í greinargerð Umhverfisstofnunar er það fyrsti punkturinn að löggjöf til að innleiða vatnatilskipunina hefur ekki verið lögð fram, með leyfi forseta:

„Að mati Umhverfisstofnunar er þessi staðreynd ein helsta ástæða athugasemda stofnunarinnar. Líkt og iðnaðarnefnd er kunnugt er tilskipunin mjög víðfeðm og er ætlað að yfirtaka margháttaðar eldri tilskipanir ásamt því að mynda ramma um heildarnýtingu vatns. Í fylgiskjali er skematísk mynd yfir það sem rammatilskipunin tekur til og nokkur lykilatriða hennar. Umhverfisstofnun telur liggja fyrir að væntanleg rammalöggjöf um vatn og lög sem fjalla um eignarhald og sjálfbæra nýtingu vatns hljóti að taka mið af hvoru öðru.“

Annar liðurinn í greinargerðinni hljóðar svo:

„Heiti frumvarpsins gefur til kynna víðfeðmari efni en þar er að finna. Nafngiftin vatnalög vísar til eldri heildarlaga þar sem fór saman nýting og umgengnisréttur. Framlagt frumvarp inniheldur afmarkaðan þátt fyrri laga og það veldur misskilningi að slík lög beri eldra nafnið. Umhverfisstofnun leggur til að nafninu verði breytt t.d. í:

Lög um eignarhald, skynsamlega og hagkvæma stjórnun vatnamála og sjálfbæra nýtingu vatns,

lög um eignarhald og sjálfbæra nýtingu vatns,

lög um eignarhald og stjórnun vatnamála.“

Því miður hefur ekki verið tekið tillit til þessara ábendinga Umhverfisstofnunar í meðförum nefndarinnar og meiri hlutinn hafði engan áhuga á því.

Í þriðja lið greinargerðarinnar segir, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun telur nauðsynlegt að þeir sem starfa samkvæmt lögunum hafi skýra leiðbeiningu um þau atriði sem hafa beri í huga við framkvæmd þeirra. Í tilfellum þegar framkvæmdir teljast minni háttar, og sem slíkar undanskildar lögum um mat á umhverfisáhrifum, geta þær engu að síður valdið verulegum skaða á umhverfi. Umhverfisstofnun leggur til meðfylgjandi breytingu á 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Fyrri hlutinn er eins og hann var í upphaflegu frumvarpi og feitletraði textinn er eins og Umhverfisstofnun lagði til í sumar:

„Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að valda ekki að óþörfu mengun vatns eða farvegs þess.“ — Og þá kemur feitletraði textinn: „Þá skal þess jafnframt gætt að raska ekki lífríki, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er.“

Þarna er þetta sem sagt ítrekað.

Hér er svo tillaga um að tryggt verði að almannaréttur veikist ekki. Vitnað er í greinargerð frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„„Við endurskoðun vatnalaga þykir eðlilegt að fella ákvæði um umferð almennings um vötn inn í náttúruverndarlög þar sem þau lög hafa að geyma almenn ákvæði um umferðarrétt almennings. Gert er ráð fyrir að sá almannaréttur sem hingað til hefur gilt standi óbreyttur, sbr. t.d. 11. gr. og XII. kafla gildandi vatnalaga. Í III. kafla náttúruverndarlaga er jafnframt að finna almennar umgengnisreglur sem gilda í náttúrunni og ákveðnar takmarkanir á umferðarrétti, svo sem varðandi merkingar o.fl. Litið er svo á að þau ákvæði gildi einnig um umferð um vötn eftir því sem við getur átt.“

Umhverfisstofnun er sammála því að færa það sem snýr að almannarétti yfir í lög nr. 44/1999, um náttúruvernd, og telur æskilegt að það hefði verið gert til meiri fullnustu en gert er í frumvarpinu. Í ljósi þess sem stendur í greinargerð og vísað er til hér að framan beinir Umhverfisstofnun því til þess bærra aðila að endurskoða ákvæði um almannarétt þegar frumvarp um vatnatilskipunina er lagt fram.“

Í 5. lið greinargerðarinnar segir, með leyfi forseta:

„Stofnunin hefur efasemdir um að skilgreining til hvaða hlutar vatns eignarréttur landeiganda nær yfir sé skýrari en í gildandi lögum. Það er óumdeilt að nýtingarréttur er stærsti hluti eiginlegs eignarréttar og því er breyting á nýtingarrétti, ásamt þeirri dómaframkvæmd sem verið hefur, yfir í eignarrétt formbreyting frá sjónarmiði lögfræðinnar. Það sem hins vegar skekkir myndina er að í frumvarpinu er um leið verið að skilgreina til hvers eignarrétturinn tekur, þ.e. til hvaða hluta vatns hann nær, enda segir í 2. gr. frumvarpsins:

„Lög þessi taka til alls rennandi vatns eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Og síðan segir í 4. gr.:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni er eða undir henni er eða um hana rennur.“

Þar virðist vera um verulega efnisbreytingu að ræða frá gildandi lögum þar sem segir:

„2. gr. Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Á hinn bóginn engan veginn ljóst að breytt skilgreining skýri betur hvað við er átt.

Það hefur margsinnis komið fram í þessari umræðu að vatn og andrúmsloft dreifast eftir lögmálum náttúrunnar og virða ekki landamæri. Auk þess er vatnið á stöðugri hringrás og form þess er síbreytilegt. Ofangreind skilgreining inniber að eignarréttur landeiganda nær til vatnsins meðan það rennur um landareignina, til þokunnar sem snertir jörðina en ekki þeirrar sem er í lofti, rétturinn nær til slyddu og snævar sem snertir jörðina og liggur á henni en ekki þeirrar úrkomu sem er að falla. Hann nær til vatnsins sem vellur upp úr hvernum en ekki til gufustróksins meðan hann er á lofti. Ekki er ljóst hvort rétturinn nær til framburðar vatnsfallsins sem getur verið upphrærður eða runnið fram sem botnskrið. Þá vaknar spurning um hvernig tekið er á eignarrétti á vatni sem leitt er í gegnum fasteign í farvegi, göngum, leiðslum t.d. frá lóni að stöðvarhúsi, eða vegna annarra framkvæmda. Í ljósi þessa hefur Umhverfisstofnun efasemdir um að umrædd breyting sé til þess fallin að gera viðfangsefnið skýrara út frá sjónarmiði náttúrufræða auk þess sem hún getur valdið óvissu í túlkun á almannarétti.“

Þetta er dálítið athyglisverður punktur vegna þess að það er alltaf talað um að þessi lög skilgreini þetta allt betur en óvissan verður um leið áfram til staðar þó verið sé að færa hér út skilgreiningu á vatni til muna. Nú er það ekki þannig að rennandi vatn sé í einkaeign. Vatnið rennur um jörðina.

Í sjötta lagi segir hér í greinargerð Umhverfisstofnunar, með leyfi forseta:

„Samræming í notkun orðanna landareign og fasteign í lögum þar sem nýting vatns kemur fyrir. Í greinargerð með frumvarpsdrögum til nýrra laga um lax- og silungsveiði segir m.a. í skýringum um 5. gr.:

„Hugtakið fasteign hefur ekki algilda merkingu í íslenskum lögum. Almennt hefur þó verið lagt til grundvallar í íslensku lagamáli um langa hríð að hugtakið fasteign merki afmarkaðan hluta lands ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirkjum sem varanlega er við landið skeytt. Á þessari skilgreiningu er byggt í ákvæðum nokkurra laga, sem sett hafa verið á seinni árum, t.d. í lögum um fasteignamat og fasteignakaup, og er á því byggt í 9. tölul. í 3. gr. frumvarps þessa.

Þrátt fyrir framangreinda hugtakaskilgreiningu er rétt að hafa í huga að til eru ýmsir flokkar fasteigna, sem haft geta mismunandi réttarstöðu. Fyrsta og nærtækasta dæmið er sú aðgreining í löggjöf sem byggir á því að til séu annars vegar eignarlönd og hins vegar þjóðlendur. Annars konar afbrigði er lóð í þéttbýli ásamt mannvirkjum en hún telst ein tegund fasteigna. Sama á við um útskipta lóð undir frístundahús í dreifbýli. Þriðja tilbrigði fasteignar er jörð samkvæmt jarða- og ábúðalögum og hugtökin lögbýli og eyðibýli hafa sérstaka merkingu. Þessi mismunandi réttaráhrif birtast með glöggum hætti í lax- og silungsveiðilögum. Meðan meginreglan er sú að öllum fasteignum sem land eiga að veiðivötnum tilheyri veiðiréttur eru það aðeins jarðeigendur eða ábúendur jarðar sem fara með atkvæðisrétt í veiðifélagi.“

Í frumvarpsdrögum að lögum um lax- og silungsveiði er ætíð, þegar fjallað er um afmörkun lands og tengingar við réttindi, vísað til landareignar, ekki fasteignar, ellegar greint milli þessara hugtaka.

Vísast hér m.a. til eftirtalinna greina í frumvarpsdrögunum, þ.e. 3. töluliðar 3. gr.:

„Almenningur í stöðuvatni: Sá hluti stöðuvatns sem er fyrir utan 115 m breitt vatnsbelti (netlög) landareigna þeirra sem að vatninu liggja.“

Í 1. mgr. 5. gr. segir: „Eignarlandi hverju fylgir veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi, enda sé ekki mælt fyrir um aðra skipan í lögum.“

Í 1. mgr. 6. gr. segir: „Fasteignaeigendum er land eiga að stöðuvatni er einum heimil veiði í almenningi vatnsins.“

Framangreind dæmi eru í samræmi við fyrri athugasemdir og skoðun Umhverfisstofnunar frá 23. mars síðastliðinn. Umhverfisstofnun mælir með að þetta fari sömu leið í frumvarpi til vatnalaga.“

Þarna studdist ég við umsögn Umhverfisstofnunar. Ég ætla líka að fara aðeins yfir umsögn Landverndar frá 28. nóvember síðastliðnum en Tryggvi Felixson, framkvæmdastjóri Landverndar, skrifar undir þá umsögn.

„Vísað er í bréf Alþingis dagsett 17. nóvember 2005 þar sem lýst er eftir umsögn um frumvarp að vatnalögum. Stjórn Landverndar hefur kynnt sér frumvarpið og óskar að koma eftirfarandi atriðum á framfæri.

Það vekur athygli stjórnar Landverndar að frumvarpið beinist eingöngu að nýtingu vatns. Ekki er fjallað um varnir gegn mengun, hollustu, náttúruvernd, almannarétt og nýtingu lífrænna auðlinda sem allt eru afar mikilvæg atriði sem taka verður mið af við hverskonar nýtingu vatnsréttinda.

Í 1. gr. segir: „Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að raska ekki vatni, farvegi þess, lífríki þess, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er.“

Stjórn Landverndar telur að þó þetta frumvarp beinist að nýtingu vatns en ekki verndun, verði að undirstrika mikilvægi verndunar með skýrari hætti en fram kemur í tillögunni. Stjórnin telur að þetta megi gera með því að tilgreina ,,að ekki megi spilla vatni að óþörfu“. Þá er einnig gagnlegt að skýra betur hugtakið ,,nauðsynlegt“ með því að vísa til ,,brýnna þarfa“ sem þurfi að vera fyrir hendi. Stjórnin leggur því til að 2. mgr. 1. gr. verði orðuð þannig:

„Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að spilla ekki né raska að óþörfu vatni, farvegi þess, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er til að mæta brýnum þörfum fyrir neysluvatn, iðnaðarvatn, áveitu eða orku.“

Í 4. gr. er fjallað um eignarrétt á vatni og þar segir að hverri fasteign, þar með talið þjóðlendum, fylgi eignarréttur á því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.

Þetta er grundvallarbreyting frá núgildandi lögum þar sem segir að ,,landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni sem á henni er, á þann hátt sem lög þessi heimila“.

Stjórn Landverndar hefur lagt til við stjórnarskrárnefnd að hún geri tillögu að eftirfarandi ákvæði í stjórnarskrá Íslands:

,,Heilnæmt vatn og loft, náttúran og fjölbreytni hennar, landslag, annað umhverfi og aðgengi að náttúru eru gæði sem allir bera ábyrgð á að nýtt séu með sjálfbærum hætti. Jafnframt skulu borgarar landsins sýna aðgát þannig að náttúru landsins og auðlindum sé ekki spillt. Stjórnvöldum ber að leggja sig fram um að tryggja öllum rétt til heilnæms vatns, lofts og annars umhverfis og aðgengis að náttúru. Allir skulu hafa aðgengi að upplýsingum og ákvörðunum er varða þessa þætti.”

Stjórn Landverndar vill árétta það sem segir um vatn í sameiginlegri yfirlýsingu þjóðkirkjunnar og fjölmargra félagasamtaka, m.a. Landverndar:

,,Vatn er takmörkuð auðlind og almannagæði sem er undirstaða alls lífs og heilbrigðis. Vatn er frábrugðið öðrum efnum að því leyti að það finnst náttúrlega í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn.“

Vatn er afar margbreytilegt og á stöðugri hringrás. Það fellur ekki undir almennan skilning á því sem telst einkaeign. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að líta til umræðu um þetta málefni á alþjóðavettvangi, innan Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar en mikilvægi aðgengis að heilnæmu vatni er áréttað í fjölmörgum samþykktum. Stjórn Landverndar leggur áherslu á að óháð því hvernig eignarhald á vatn verði tilgreint í lögunum verði þau þannig úr garði gerð að það fari aldrei á milli mála að öllum sé tryggður aðgangur að heilnæmu vatni til heimilishalds og búsþarfa.

Ég ætla aðeins að fara yfir umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands. Það er Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar, sem skrifar undir þá umsögn. Hann kom reyndar einnig fyrir nefndina og skýrði mál sitt. Einnig var brugðist skjótt við á þeim bænum og vísað til bréfs iðnaðarnefndar Alþingis, sem var dagsett 17. nóvember 2005, og óskað eftir umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands um frumvarp til vatnalaga. Þessi umsögn er dagsett tæpri viku síðar, 23. nóvember 2005. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta er nú lagt fram í annað sinn örlítið breytt. Náttúrufræðistofnun gerði athugasemdir við frumvarpið eins og það lá fyrir á síðasta löggjafarþingi samanber bréf dagsett 3. mars 2005.

Náttúrufræðistofnun Íslands fagnar þeirri breytingu sem gerð hefur verið á 1. gr. frumvarpsins og lýtur að því að framkvæmdir raski ekki lífríki vatns, vistkerfum eða landslagi. Að öðru leyti stendur umsögn stofnunarinnar frá 2. mars. 2005 og er vísað til hennar hér með.“

Ég ætti kannski að fara aðeins yfir þá umsögn.

„Í 2. gr. frumvarpsins er gildissvið fyrirhugaðra laga skilgreint sem allt rennandi eða kyrrstætt vatn í hvaða formi sem er á yfirborði jarðar eða neðan jarðar í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi.

Í 3. gr., 9. tölulið, frumvarps til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum er þessi víðtæka skilgreining á vatni felld undir hugtakið „jarðræn auðlind“. Þess vegna þarf að skoða þessi tvö frumvörp í samhengi.

Í umsögn um frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum lagðist Náttúrufræðistofnun eindregið gegn þeirri fyrirætlun að skilgreina vatn, í hvaða formi sem er, sem jarðræna auðlind og fela umsjón þess iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun. Vatn er í grundvallaratriðum frábrugðið öðrum jarðefnum að því leyti að það finnst náttúrulega í þrenns konar formi, þ.e. í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn. Stofnunin lagði áherslu á að þótt vatn geti verið orkugjafi og þar með verslunarvara þá sé það fyrst og fremst lífsnauðsynlegt efni öllum mönnum og öllum lífverum. Forgangsröðun varðandi umsjón með og vöktun vatns er þess vegna hollustuhættir, umhverfi og orkunýting en ekki öfugt.

Vatn er lífsnauðsynleg auðlind og arfleifð alls mannkyns og alls lífríkis á jörðinni. Þessi hugsun er ráðandi í lagabálkum í nágrannalöndum okkar og kemur vel fram í vatnatilskipun ESB frá 2000 sem segir efnislega að vatn sé ekki söluvara heldur sameiginlegur arfur mannkyns sem beri að varðveita, vernda og umgangast í samræmi við það. Nú er unnið að lögleiðingu vatnatilskipunar ESB hér á landi í heildstæðri löggjöf um vernd og nýtingu vatns. Náttúrufræðistofnun leggst gegn því að sértæk lög um eignarhald og umsýslu með vatni séu lögfest áður en fyrir liggur hvernig vatnatilskipunin verður innleidd.

Eignarrétti á vatni og öðrum jarðrænum auðlindum er gert hátt undir höfði í nefndum lagafrumvörpum. Nær væri, að mati Náttúrufræðistofnunar, að styrkja almannarétt gagnvart auðlindum landsins og þá sérstaklega gagnvart vatni í öllum þess formum, samanber t.d. ofangreint ákvæði í vatnatilskipun ESB og ákvæði 1. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar.

Verði frumvarpið að lögum fær Orkustofnun umfangsmikið stjórnsýslu- og eftirlitshlutverk með vatni sem eðlilegra væri að Umhverfisstofnun færi með samkvæmt áðurnefndri forgangsröð. Hlutverk Orkustofnunar er fyrst og fremst að hafa umsjón með orkulindum landsins og öflun vatnsorku og jarðhitaorku til iðnaðar og heimilisnota. Orkustofnun hefur að mati Náttúrufræðistofnunar ekki nægilega þekkingu til að gæta réttmætra hollustu- og umhverfissjónarmiða við stjórnsýslu varðandi vernd og nýtingu vatns. Grunnvatn hefur verið umkomulaust í stjórnkerfinu fram að þessu og nauðsynlegt að setja lög um verndun þess og vöktun. Þar væri eðlilegt að fela Umhverfisstofnun stjórnsýsluhlutverkið en Náttúrufræðistofnun Íslands að annast nauðsynlega vöktun og rannsóknir á þessari mikilvægustu auðlind landsins.

Náttúrufræðistofnun Íslands leggur til að frumvarp þetta verði dregið til baka og að beðið verði með sérstaka löggjöf um eignarhald og nýtingu vatns þar til fyrir liggur heildstæð rammalöggjöf um verndun og vöktun vatns í anda vatnatilskipunar.“

Hér segir síðan:

„Náttúrufræðistofnun er fús til að mæta á fund iðnaðarnefndar, verði þess óskað, til að útskýra frekar þau sjónarmið sem hér eru sett fram.“

Þeim varð sem betur fer að ósk sinni. Sem betur fer var málið dregið til baka á síðasta þingi. Það vekur þess vegna furðu að málið skuli aftur komið til meðhöndlunar á þinginu, lítið sem ekkert breytt. Nú ætla ég að vísa í umsögn Náttúrufræðistofnunar frá 23. nóvember 2005:

„Náttúrufræðistofnun vill nota tækifærið og árétta að vatn er lífsnauðsynlegt efni fyrir manninn og lífríki jarðarinnar. Það er á sífelldri hringrás um heiminn og því í grundvallaratriðum ólíkt öðrum jarðrænum auðlindum. Stofnunin er eindregið þeirrar skoðunar að forgangsröðun varðandi lagasetningu um vatn og umsýslu með því, sé hollustuhættir, umhverfi og orkunýting og því beri að bíða með sérstaka lagasetningu um eignarhald og nýtingu vatns þar til vatnatilskipun EB frá 2000 hefur verið lögleidd hér á landi, en þar eru hollustuhættir og umhverfisvernd í fyrirrúmi. Enn fremur telur stofnunin rétt í ljósi samfélagsumræðu um eignarhald á vatni annars vegar og almannarétt og náttúruvernd hins vegar, sem verið hefur frá því frumvarpið kom fyrst fram frá Alþingi, að íhuga alvarlega að halda ákvæði um eignarhald eða nýtingarrétt, í 2. gr., óbreyttu frá því sem er í gildandi lögum, þ.e. efnislega: „Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er á þann hátt sem lög þessi heimila. Þetta orðalag hefur reynst farsælt í tímans rás og ekki ástæða til að breyta því „formsins“ vegna.“

Um þetta höfum við tekist á, bæði í hv. iðnaðarnefnd og svo í umræðunni í dag, m.a. í andsvörum við ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, formanns iðnaðarnefndar. Hv. þm. Jóhann Ársælsson kom mjög ítarlega inn á þessi mál í ræðu sinni á undan.

Ég held þá áfram að lesa úr umsögn Náttúrufræðistofnunar:

„Á fundi með iðnaðarnefnd Alþingis á síðasta þingi, 131. löggjafarþingi, rakti forstjóri Náttúrufræðistofnunar athugasemdir stofnunarinnar við einstakar greinar frumvarpsins en þær er ekki að finna í umsögninni. Óski nefndin eftir því að þessar athugasemdir verði endurteknar verður fúslega orðið við þeirri beiðni.

Náttúrufræðistofnun hefur borist greinargerð sem unnin er af Orkustofnun og fjallar m.a. um umsögn Náttúrufræðistofnunar um frumvarp til laga, um vatnalög frá 2. mars 2005. Í þessari greinargerð eru settar fram villandi upplýsingar og þess vegna óskar Náttúrufræðistofnun eftir að ræða þetta bréf við iðnaðarefnd hafi hún í hyggju að nota plagg Orkustofnunar við afgreiðslu frumvarpsins.“

Hér er nokkuð hvasst að orði kveðið en sennilega er það fyllilega réttmætt. Forstjóri stofnunarinnar kom á fund okkar í iðnaðarnefnd og gerði í fyrsta lagi athugasemdir við að fá alls ekki að sjá nýja frumvarpið en eiga samt að gera athugasemdir við það. Hann varaði mjög við því að iðnaðar- og orkugeirinn fái alger yfirráð yfir vatninu. Hann lagði áherslu á að gefin yrði út heildstæð löggjöf en ekki þetta frumvarp, sem miðast mjög við hugmyndir hæstv. iðnaðarráðherra um hvernig fara beri með vatn.

Það var líka ítrekað að Umhverfisstofnun ætti að hafa eftirlit samkvæmt vatnalögum en ekki Orkustofnun. Gerðar voru athugasemdir við orðalag, við eins konar orðskrípi, eins og hann orðaði það, t.d. að talað væri um vatnsleg þar sem ætti að tala um farveg. Auðvitað tala allir um farveg í daglegu tali en þetta segir okkur dálítið um það hvernig iðnaðarráðuneytið lítur á málin. Það er talað um vatnsleg. Ég sé fyrir mér tilbúinn farveg enda hættir mönnum þar á bæ til að líta fyrst og fremst á vatn sem nýtanlegt til að virkja það.

Ég vil ítreka það að ég tek heils hugar undir yfirlýsingu samtakanna sem undirrituðu yfirlýsinguna um „Vatn fyrir alla“ Það er mikilvægt að tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða, sjónarmiða neytenda, Umhverfisstofnunar og náttúruverndarsamtaka en ekki bara tekið tillit til sjónarmiða orkugeirans.

Í nefndaráliti frá minni hluta iðnaðarnefndar er farið vel yfir athugasemdir. Vinstri hreyfingin – grænt framboð á áheyrnarfulltrúa að iðnaðarnefnd en því miður ekki fullgildan fulltrúa í nefndinni. En við tökum heils hugar undir álit hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og Helga Hjörvars. Í nefndaráliti minni hlutans eru ótal fylgiskjöl þar sem farið er vel yfir þetta mál. Það væri ástæða til að fara aðeins betur í það. Ég mun hugsanlega gera það í seinni ræðu minni í dag, þ.e. komist ég aftur að í dag. Ég sé til með það.

Ég ítreka að vatn er ekkert venjulegt efni. Þetta er efni sem snertir okkur öll. Þetta snýst auðvitað um náttúrulögmálin auk þess að margar alþjóðastofnanir hafa ítrekað hve mikilvægt vatnið er fyrir okkur. Við erum heppin, Íslendingar, að eiga svona mikið af hreinu vatni. En við megum alls ekki sofna á verðinum og við verðum að hugsa vel um þessa auðlind okkar. Það er afar mikilvægt. Þess vegna hlýtur það að vera í forgangi að vernda vatnið, halda því óspilltu og halda náttúru okkar hreinni. Þau sjónarmið ættu að verða númer eitt en ekki það hvernig sé hægt að græða á vatninu. Jafnvel leiðarahöfundur Morgunblaðsins er sammála okkur um að vatn er ekki nein venjuleg verslunarvara. Við erum ekki að tala um venjulegan hlut sem gengið getur kaupum og sölum heldur er vatn þess eðlis að það snertir okkur öll og því er mikilvægt að það sé í almannaeign. Á hinn bóginn væri hægt að úthluta nýtingarrétti á vatni.