Vatnalög

Þriðjudaginn 07. mars 2006, kl. 17:41:39 (5691)


132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[17:41]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Þessi umræða hefur að mörgu leyti verið áhugaverð en einnig ákaflega sérstök. Hér hefur verið farið um víðan völl í umfjöllun um frumvarpið og sumir hv. þingmenn hafa kosið að lesa upp úr umsögnum sem borist hafa og jafnvel vitnað í ljóð og fleira, enda erum við að ræða um vatnalögin og ég heyri á mörgum hv. þingmönnum að málið og kjarni þess er mikið tilfinningamál fyrir þá.

Þegar við ræðum um vatnalög og lítum yfir söguna hvað varðar eignarhald á landi og náttúruauðlindum er þetta það svið í löggjafarstarfinu sem hvað mest hefur verið fjallað um og vegna hvers hvað merkasta löggjafarstarfið hefur átt sér stað, á síðustu öld leyfi ég mér að segja.

Ef maður reynir að draga saman í upphafi aðalatriðin í þeim ágreiningi sem uppi er, annars vegar milli þingmanna stjórnarflokkanna og hins vegar fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna, tel ég að grundvallarágreiningurinn snúist um það hvort þetta frumvarp til vatnalaga sem við ræðum hér feli í sér formbreytingu eða efnisbreytingu á réttarástandinu eins og það er núna samkvæmt gildandi vatnalögum, nr. 15/1923. Við sem myndum meiri hluta í hv. iðnaðarnefnd og erum fulltrúar stjórnarflokkanna erum þeirrar skoðunar og höfum haldið því fram að í þessu frumvarpi felist ekki nein formbreyting, það sé ekki verið að gera neina breytingu á inntaki eignarréttarins eins og hann er skilgreindur í núgildandi vatnalögum.

Hv. þm. Birkir J. Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, fór yfir það nefndarálit sem við höfum skilað af okkur en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Með setningu vatnalaga, nr. 15/1923, var tekið af skarið um það að landeigendur ættu einir rétt til að hagnýta það vatn sem á landareign þeirra finnst eða um hana rennur, þar með talinn orkunýtingarrétt. Réttarframkvæmdin hefur og til fulls viðurkennt eignarrétt landeigenda að vatnsorku, m.a. þegar vatnsföll hafa verið tekin til virkjunar. Vatnsréttindi eru þannig þáttur í eignarrétti landeigenda og njóta verndar skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Landeigendur verða því ekki sviptir þessum rétti bótalaust.“

Í ræðu hv. þingmanns, formanns iðnaðarnefndar, kom skýrt fram að löggjöfin væri með þessum hætti. Vatnsréttindin væru undirorpin eignarrétti, einkaeignarrétti eins og hann hefur verið skilgreindur, og það kæmi fram í íslenskri löggjöf, bæði í vatnalögum og öðrum lögum, og sömuleiðis hefði sá skilningur og sú túlkun komið fram í fræðiskrifum um þetta mál og dómaframkvæmd eins og hún hefur þróast allt frá því að vatnalögin voru sett árið 1923.

Þetta er sá málflutningur sem við höfum haldið uppi hér varðandi eignarréttinn. Ég ætla nú aðallega að fjalla um hann í ræðu minni. Stjórnarandstaðan hefur á hinn bóginn haldið því fram — það hefur komið skýrast fram í andsvörum og sérstaklega andsvari hv. þm. Jóhanns Ársælssonar sem er talsmaður Samfylkingarinnar í iðnaðarnefnd og talsmaður Samfylkingarinnar í þessu máli. Ég lít þannig á að þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið í ræðustól Alþingis endurspegli stefnu Samfylkingarinnar í málinu. Hann sagði m.a. hér í andsvari:

„Við viljum að eignarréttarhugtakið í núgildandi vatnalögum verði látið gilda, þ.e. að ekki sé um séreign að ræða.“

Ég held að þetta lýsi þeirri skoðun sem Samfylkingin, og að sínu leyti stjórnarandstaðan, hefur haldið á lofti í umræðunni. Mér hefur borist í hendur yfirlýsing frá þingflokki Samfylkingarinnar sem styður þessa skoðun mína en þar segir, með leyfi forseta:

„Er það skoðun þingflokks Samfylkingarinnar að vatn eigi að skilgreina sem sameiginlega auðlind alls mannkyns.“

Það er ljóst að Samfylkingin telur að skilgreina beri vatnið sem sameiginlega auðlind alls mannkyns, hún eigi ekki að vera bundin við Ísland og Íslendinga. Jafnframt segir í yfirlýsingunni að Samfylkingin lýsi sig andvíga því að einkaeignarréttur á vatni verði festur í lög eins og gert er í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til nýrra vatnalaga og síðan segir, með leyfi forseta:

„Iðnaðarráðherrann og ríkisstjórnin hafa hins vegar valið þá leið að afhenda landeigendum, gömlum og nýjum, óskorað eignarhald á sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar.“

Í þessu hlýtur að felast að hv. þm. Jóhann Ársælsson og Samfylkingin telji að eins og núgildandi vatnalög hafa verið túlkuð felist ekki í þeim einkaeignarréttur á vatnsréttindum eins og við hinir höfum haldið fram. Alls ekki. Að vatnið sé ekki undirorpið einkaeignarrétti. Það er alveg ljóst og það kom fram í ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Hann sagði í umræðunni að það væri engin séreign á vatni, Ísland ætti ekki einu sinni vatnið. Það ætti að líta á vatnið sem einskis manns eign eða eign alls mannkyns. Hann sagði: „Aðalatriðið er að vatnið er ekki í eigu neins“ í andsvari við hv. þm. Birki Jón Jónsson. Hann bætti síðan við: „Við viljum að eignarréttarhugtakið í núgildandi vatnalögum verði látið gilda, þ.e. að ekki sé um séreign að ræða.“

Um þetta snýst náttúrlega ágreiningur þessa máls og ég ætla að fjalla um þetta. Ég ætla að fjalla um það hvernig eignarréttur á vatni hefur verið skilgreindur samkvæmt núgildandi vatnalögum. Með því stendur og fellur sú niðurstaða hvort um formbreytingu eða efnisbreytingu er að ræða í þessum lögum. Eins og ég sagði áðan höfum við, stjórnarliðar, m.a. ég og hv. þm. Birkir Jón Jónsson, bæði í störfum iðnaðarnefndar og sömuleiðis í umræðum á þingi, haldið því fram að með setningu vatnalaga, nr. 15/1923, hafi þessi einkaeignarréttur verið tryggður. Nú er það þannig að við verðum kannski að gera skýran greinarmun á því hvað er greining á gildandi rétti eða löggjöf og hverjar eru pólitískar skoðanir manna. Ég heyri t.d. á ræðu hv. þm. Hlyns Hallssonar að hann er þeirrar skoðunar að þjóðin eigi að eiga vatnið og vatnsréttindin og ég get ekki betur skilið hv. þm. Jóhann Ársælsson og aðra fulltrúa Samfylkingarinnar en svo að þeir séu þeirrar skoðunar að vatnið og vatnsréttindin eigi að vera í sameign þjóðarinnar. Í minnihlutaáliti sem hv. þm. Jóhann Ársælsson og Helgi Hjörvar rita undir segir, með leyfi forseta, að enn skuli minnt á að „grundvöll skorti til allrar þessarar lagasetningar þar til pólitísk sátt er fundin um það hvernig ráðstafa beri auðlindum í þjóðareign, hvort og hvernig þeim verði fundinn staður í stjórnarskránni og hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir nýtingu þeirra“. — Hérna er talað um að koma þessu í þjóðareign. Ég skil ekki hv. þingmann öðruvísi en svo að hann sé þeirrar skoðunar að vatnið eigi að vera í sameign þjóðarinnar eins og hefur verið stefna hans varðandi margar aðrar náttúruauðlindir. Við hinir erum þeirrar pólitísku skoðunar að einkaeignarrétturinn eigi að gilda um þessi réttindi og hafi gert það allt frá árinu 1923 þegar núgildandi vatnalög voru sett.

Ég og hv. þm. Birkir J. Jónsson höfum reynt að skýra þetta sjónarmið okkar í umræðum í þinginu og sömuleiðis í hv. iðnaðarnefnd en hv. þm. Jóhann Ársælsson og aðrir fulltrúar minni hlutans hafa ekki fallist á skýringar okkar. Þeir fallast ekki á það sem við höfum haldið fram varðandi inntak eignarréttarins, að vatnsréttindi séu undirorpin einstaklingseignarrétti. Á það hafa þeir ekki fallist og þeir hafa margoft bent á það í störfum nefndarinnar. Þeir hafa leyft sér að efast um að vatnalögin, eins og þau eru nú, feli í sér einkaeignarrétt yfir vatni og vatnsréttindum. (JÁ: Vatn …) Yfir vatni og vatnsréttindum, þetta er nú nokkurn veginn sami hluturinn, hv. þingmaður.

Úr því að þeir hafa ekki viljað fallast á sjónarmið okkar veltir maður fyrir sér hvert maður geti leitað til að reyna að greina hvað felist í núgildandi vatnalögum. Hv. þingmenn vilja ekki hlusta á okkur og aðra stjórnarþingmenn þannig að við hljótum að leita í fræðin. Eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson fór yfir í sinni fimm tíma löngu ræðu var unnið hér gríðarlegt löggjafarstarf snemma á síðustu öld sem leiddi til þess að vatnalögin, eins og þau eru núna, urðu að lögum. Frá þeim tíma hafa eignarréttindi samkvæmt vatnalögunum verið skýrð í fræðiskrifum, í dómaframkvæmd og í öðrum lögum. Þá liggur beinast við að fara yfir það hvað okkar helstu fræðimenn á sviðum eignarréttarins á síðustu öld hafa talið að felist í eignarréttinum, fasteignaréttinum, vatnsréttindum og hver eigi vatnið. Allt þetta hangir saman.

Víkjum þá að því hvernig Þorgeir Örlygsson, sem er einhver helsti fræðimaður á síðari hluta aldarinnar á sviði eignarréttar, hefur litið á eignarhald á landi og náttúruauðlindum. Árið 1994 skrifaði Þorgeir Örlygsson, sem þá var farsæll prófessor í eignarrétti við Háskóla Íslands og deildarforseti lagadeildar, grein í afmælisrit Gauks Jörundssonar, sem varð sextugur þann 24. september það ár, sem ber yfirskriftina: Um eignarhald á landi og náttúruauðlindum. Þetta er lykilgrein um það hvað felst í eignarréttinum, hvað telst vera fasteign og, ekki síður, hvernig hagnýtingu náttúruauðlinda í eignarlöndum skuli háttað og hver eigi þau réttindi sem þar eru. Í grein sinni segir Þorgeir Örlygsson — og nú beini ég orðum mínum fyrst og fremst til hv. þm. Jóhanns Ársælssonar sem hefur fjallað mikið um þetta mál, lagt úr frá 1. gr. frumvarpsins og talið að þau orð sem þar koma fram: „Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni“, sem er í raun og veru það sama og menn ætluðu sér að gera þegar þeir settu vatnalögin 1923, þ.e. að skýra eignarhald á vatni — um hugtakið eignarrétt, með leyfi forseta:

„Í norrænni lögfræði, þar með talinni íslenskri, er á því byggt, að í eignarrétti felist heimildir til hvers konar umráða og ráðstafana yfir hlut, að svo miklu leyti sem ekki eru sérstakar takmarkanir á því gerðar. Er í því sambandi mestu máli talið skipta, að heimildirnar séu fyrir hendi, ef færi gefst til nýtingar og ráðstafana með nýjum hætti, og að heimildirnar víkki að því marki sem takmarkanir falli niður.“ (Forseti hringir.)

Já, mér þætti vænt um það, frú forseti, ef þaggað yrði niður í hv. þingmönnum sem trufla ræðuflutning.

Ég held nú áfram. „Í þessu felst m.a., að þegar afnotarétti tiltekins aðila yfir eign lýkur eða sá réttur þrengist, rýmkast eignarréttur eigandans að sama skapi, og þegar lög falla úr gildi, sem hafa takmarkað nýtingu eigandans með einhverjum hætti, víkkar eignarréttur eigandans að sama skapi, enda komi ekki nýjar takmarkanir í stað hinna fyrri.

Samkvæmt þessu er eignarréttur skilgreindur á þá leið, að um sé að ræða einkarétt ákveðins aðila (eigandans), til að ráða yfir tilteknum líkamlegum hlut innan þeirra marka, sem þessum rétti eru sett í lögum og af takmörkuðum eignarréttindum annarra aðila, sem stofnað hefur verið til yfir hlutnum.“ — Þetta er sú skilgreining sem aðrir fræðimenn á sviði eignarréttar, eins og dr. Gaukur Jörundsson heitinn, einhver allra mesti sérfræðingur á þessu sviði, hafa komist að. Þetta er sem sé skilgreining á hugtakinu eignarrétti.

Það hefur verið tekist á um það í störfum nefndarinnar hvort rétt sé að skilgreina eignarréttinn með jákvæðum hætti eða neikvæðum. Það er eitt af því sem við erum að fara yfir í þessari löggjöf. Það sem við erum að gera og stjórnarandstaðan hefur gert ágreining um er að við erum að breyta eignarréttarhugtakinu þannig að við hverfum frá hinni jákvæðari skilgreiningu eignarréttarins og yfir í þá neikvæðu. Úr þessu hefur stjórnarandstaðan gert mikið veður.

Sigurður Líndal skrifaði einmitt grein um þessar skilgreiningar í afmælisrit Davíðs Oddssonar sem kom út þann 17. janúar 1998, grein sem heitir Nytjastofnar á Íslandsmiðum, sameign þjóðarinnar. Þar fjallar hann um skilgreiningu á eignarrétti. Mér finnst rétt að víkja að henni vegna þess að hún er dálítið upplýsandi um það hvort rétt sé að taka upp hina jákvæðu skilgreiningu á eignarrétti eða hina neikvæðu. Um þetta hafa verið miklar umræður í nefndinni og m.a. taldi formaður laganefndar Lögmannafélagsins rétt að taka upp neikvæðu skilgreininguna vegna þess að hún væri í samræmi við góðar lagasetningahefðir, gegn reyndar andmælum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar sem hefur farið mikinn í þessu máli. Sigurður Líndal segir um þessar skilgreiningar, með leyfi forseta:

„Tvær leiðir má fara til að skilgreina eignarrétt. Hin fyrri er sú að telja upp allar heimildir sem eignarrétti fylgja. Sú upptalning verður þó aldrei tæmandi og þar af leiðandi allt of viðamikil, jafnvel villandi. Þetta er stundum kölluð jákvæð skilgreining. Sú síðari felur í sér að gengið er að því vísu að eigandinn njóti allra heimilda annarra en þeirra sem eru berum orðum undan skildar eignarráðum hans, hvort heldur það gerist með lögum eða samningi. Þetta er kölluð neikvæð skilgreining. Samkvæmt henni felur hugtakið í sér einkarétt ákveðins aðila, eiganda, til þess að ráða yfir tilteknum líkamlegum hlut innan þeirra marka sem þeim rétti er sett með lögum og stofnun takmarkaðra (óbeinna) eignarréttinda annarra manna yfir hlutnum.

Þetta felur í sér að réttur eiganda rýmkar að sama skapi sem ákvæði laga eða samninga falla úr gildi sem setja þessum rétti skorður, enda verði ekki settar á nýjar takmarkanir í stað hinna fyrri.

Þótt eignarréttur sé skilgreindur neikvætt er almenn samstaða um að mikilvægustu heimildirnar séu þessar:

1. Umráðaréttur, nánar tiltekið réttur til að ráða yfir eign.

2. Hagnýtingarréttur, réttur eiganda til að hagnýta sér eignina.

3. Ráðstöfunarréttur, réttur til að ráðstafa eign með löggerningi, t.d. við kaup og sölu.

4. Skuldfestingarréttur, réttur til að nota eign sem grundvöll lánstrausts, þar á meðal réttur til að veðsetja eign.

5. Réttur til að láta eign ganga að erfðum.

6. Réttur til að leita fulltingis almannavalds til verndar eigninni.“

Með þessum hætti hafa menn skilgreint eignarréttinn og ég tel að það sé mjög mikilvægt að það komi fram áður en við förum að fara yfir vatnsréttindin og eignarhald á vatni.

Í þessu sambandi ber líka, þegar við reynum að greina hvað felst í gömlu vatnalögunum og meta hvort um formbreytingu eða efnisbreytingu er að ræða með hinu nýja frumvarpi, að skoða eignarréttinn í tengslum við fasteignarhugtakið eins og það er skilgreint í eignarrétti. Þorgeir Örlygsson, þáverandi prófessor í eignarrétti við lagadeild Háskóla Íslands, segir í grein sinni, Um eignarhald á landi og náttúruauðlindum:

„Í fræðiritum er hugtakið fasteign venjulega skilgreint á þá leið, að fasteign sé afmarkað land ásamt eðlilegum hlutum landsins, lífrænum og ólífrænum, og þeim mannvirkjum, sem varanlega eru við landið skeytt.“

Í þessu felst náttúrlega að vatnsréttindi eru hluti af fasteign, vatnið sem á því er. Ég kem nánar að því á eftir og vitna þá enn og aftur til þessarar merku ritgerðar Þorgeirs Örlygssonar.

Í grein sinni fjallar Þorgeir Örlygsson um hagnýtingu náttúruauðlinda í eignarlöndum. Eignarlönd eru ein tegund þeirra fasteigna sem til eru í íslenskum rétti og hann víkur að hugtakinu eignarlönd í riti sínu og segir, með leyfi forseta:

„Eignarlönd eru landsvæði, sem lúta einstaklingseignarrétti tiltekins aðila, og getur þar verið um að ræða sérhvern þann aðila, sem samkvæmt íslenskri réttarskipan getur átt réttindi eða borið skyldur, þar með talið ríkið sjálft.“

Þorgeir fjallar í kaflanum Hagnýting náttúruauðlinda í eignarlöndum í fyrsta lagi um þau meginviðhorf sem komið hafa fram varðandi efnið. Hann fjallar líka sérstaklega um hagnýtingu jarðhita, hagnýtingu grunnvatns og hagnýtingu orku fallvatna. Allt tengist þetta náttúrlega eignarréttinum og hugtakinu fasteign og hann túlkar það út frá gildandi rétti sem eru núgildandi vatnalög. Eins og ég sagði áðan skiptir þetta verulegu máli þegar við erum að greina það hvort um formbreytingu er að ræða eða efnisbreytingu í fyrirliggjandi frumvarpi. Þorgeir Örlygsson segir, með leyfi forseta, það „meginviðhorf ríkjandi í íslenskum rétti, að heimildin til að ráðstafa og hagnýta náttúruauðlindir í jörðu fer saman við heimildina til ráðstöfunar og hagnýtingar þeirrar fasteignar, þar sem auðlindina er að finna.“ — Það er af þessum ástæðum sem ég taldi rétt að víkja að fasteignarhugtakinu vegna þess að það verður ekki slitið frá vatnsréttindum eða eignarhaldi á vatni. Og áfram segir hann: „Í þessu felst, að sá, sem á eignarrétt að tilteknu landi, hefur jafnframt heimild til þess að hagnýta þær náttúruauðlindir, sem þar er að finna og ráðstafa þeim til annarra, með þeim takmörkunum, sem leiðir af löggjöf á hverjum tíma. Er hugtakið náttúruauðlind hér notað um jarðefni, jarðhita, vatn og orku fallvatna, en veiði og veiðiréttindum að mestu leyti haldið utan við umfjöllunina.“ Þetta vitum við. Sett hafa verið sérstök lög um veiði eins og lax- og silungsveiðina. Menn ættu að skoða þetta meginviðhorf í ljósi þess sem hv. þm. Hlynur Hallsson hélt fram í ræðu sinni sem stangaðist algjörlega á við þetta meginviðhorf í íslenskum rétti varðandi túlkun á vatnalögum. Þorgeir heldur áfram:

„Það er sammerkt þeim náttúruauðlindum, sem svo eru kallaðar hér, að þær eru þáttur“ — ég endurtek, þær eru þáttur — „í eignarrétti landeiganda, og njóta verndar eignarnámsákvæðis stjórnarskrárinnar. Er við það miðað í löggjöf, að eignarnám þurfi til að koma, ef afla þarf slíkra réttinda í þágu almannahagsmuna.“

Það getur ekki verið miklu skýrara hver meginviðhorf í íslenskum rétti eru varðandi hagnýtingu náttúruauðlinda í eignarlöndum. Það er alveg ljóst að þau eru samkvæmt þessu undirorpin einkaeignarrétti landeiganda. Það er alveg ljóst.

Í umfjöllun sinni víkur Þorgeir Örlygsson að hagnýtingu jarðhita og segir:

„Um eignar- og umráðarétt jarðhita gilda svipaðar reglur og um vatnsorku.“ — Það segir einnig í greininni að „landareign hverri fylgi réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita úr landareigninni, en með þeim takmörkunum þó, sem lögin tilgreina.“ Það kemur einnig fram í greininni að landeigandi hefur „rétt til að hagnýta sér jarðhita eins og honum þykir best henta til heimilisþarfa, framleiðslu og iðnaðar“. Enn fremur: „Þá mælir ákvæðið fyrir um rétt hans til mannvirkjagerðar í því skyni að hagnýta megi jarðhitann, og loks er tekið fram, að landeiganda sé rétt að bora á landareign sinni eftir jarðhita og vinna hann til hvers konar nota.“

Þorgeir Örlygsson vitnar til umfjöllunar Ólafs Jóhannessonar, annars gamals prófessors í lögfræði og fyrrum forsætisráðherra. Ólafur Jóhannesson fjallaði um hagnýtingu jarðhita í fræðaskrifum sínum. Þorgeir Örlygsson segir, með leyfi forseta:

„Niðurstaða Ólafs Jóhannessonar um það, hversu langt niður réttur landeigenda næði, var sú, að jarðhiti, hvort heldur sem væri í náttúrulegum hverum og laugum eða undir yfirborði jarðar, fylgdi landareign þeirri, sem hann væri í. Eins og lögum væri háttað, yrði réttur landeigenda til jarðhitans ekki takmarkaður við tiltekið dýpi, heldur yrði að meta það í hverju falli, ef á reyndi, með hliðsjón af réttmætri þörf landeigenda, almannahagsmunum og vandkvæðum þeim, sem væru á því að skipta jarðhita, sem djúpt liggur, á milli fleiri eigenda. Í þessu sambandi skal minnt á það sjónarmið Sigurðar Líndals, sem áður er getið, að ekki verði séð, að landeigendum verði meinað að hagnýta sér jarðhita djúpt í jörðu.

Jarðhitaréttindi eru samkvæmt framansögðu þáttur í eignarrétti landeiganda, sem nýtur verndar eignarnámsákvæðis stjórnarskrárinnar, og þarf eignarnám til að koma, ef afla þarf slíkra réttinda í þágu almannahagsmuna.“

Það er alveg ljóst að samkvæmt meginviðhorfum fræðimanna felst hagnýting jarðhita og grunnvatns í eignarréttarákvæðinu sem tengt er fasteignarhugtakinu. Það er algjörlega skýrt.

Þorgeir Örlygsson fjallar líka, eins og reyndar fleiri fræðimenn hafa gert, eins og dr. Gaukur Jörundsson heitinn, um hagnýtingu grunnvatns. Ólafur Lárusson hefur reyndar gert það líka og þá held ég að ég sé búinn að telja upp eiginlega alla spekinga okkar sem uppi voru á síðustu öld og létu sig þetta réttarsvið varða. Allir hafa komist að sömu niðurstöðu sem er algjörlega þvert á þær túlkanir sem komið hafa fram í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar í dag og í gær.

Þorgeir Örlygsson, þá prófessor í eignarrétti, fjallar í grein sinni um hagnýtingu grunnvatns og mér finnst rétt að fara yfir það. Hann segir m.a., með leyfi forseta:

„Vatnsréttindi hafa eigi að síður frá öndverðu verið talin fylgja landareign. Í Hrd. 1963.173 (Öndverðarnesdómur) sagði, að það væri forn regla í íslenskum rétti, að hver maður ætti vatn og veiði fyrir sinni jörð, sbr. 56. kapítula Landsleigubálks Jónsbókar. Hefði sú regla síðar verið staðfest með ákvæðum vatnalaga, nr. 15/1923, og laga um lax- og silungsveiði, nr. 53/1957.“ — Þetta er ekki beinlínis í samræmi við þær túlkanir sem fram hafa komið hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Þetta er algjörlega þvert á það sem hann hefur sagt hér. Þá segir Þorgeir Örlygsson áfram:

„Um rétt til grunnvatns er ekki berum orðum fjallað í vatnalögum, nr. 15/1923. Af því hefur hins vegar ekki þótt fært að draga þá ályktun, að grunnvatn lúti öðrum lögmálum en jarðargæði almennt. Hefur samkvæmt því verið litið svo á, að grunnvatn tilheyri þeirri fasteign, þar sem það er að finna og sé þáttur í verðmætum þeirrar fasteignar. Þannig benti Ólafur Lárusson á það, að í norrænum rétti væri mest talið, að vatnsréttindi fylgdu landareignum, og á þeim grundvelli hvíldu vatnalög Noregs og Svíþjóðar. Hann taldi, að af ákvæðum Grágásar og Jónsbókar mætti ráða, að vatnsréttindi hefðu yfirleitt fylgt landareign, enda væri það í bestu samræmi við það, að eignarréttur einstaklings að fasteignum verði lítt takmarkaður.“ — Með öðrum orðum, einkaeignarréttur landeigenda yfir því vatni sem um fasteign þeirra fer hefur ekki einungis verið skilgreindur með slíkum hætti frá setningu vatnalaga 1923 heldur má leiða hann allt til Grágásarlaga og Jónsbókarákvæða. Þetta er réttarsagan eins og okkar færustu fræðimenn hafa túlkað hana. Ég ætla að láta mér nægja að vísa í Ólaf Lárusson að þessu leyti en ég gæti svo sem haldið áfram lengi að vísa í Ólaf Lárusson sem ég hygg að hafi verið okkar fyrsti sérfræðingur á sviði eignarréttarins og prófessor í Háskóla Íslands á því sviði á fyrri hluta síðustu aldar. Hann komst að þessari niðurstöðu. Í grein sinni segir Þorgeir Örlygsson jafnframt:

„Með hliðsjón af framansögðu verður að telja grunnvatn þátt í eignarrétti landeiganda.“ — Ég ætla að endurtaka þetta sérstaklega fyrir hv. þm. Jóhann Ársælsson: „Með hliðsjón af framansögðu verður að telja grunnvatn þátt í eignarrétti landeiganda. Landeigandi hefur samkvæmt því einn rétt til hagnýtingar grunnvatns á landareign sinni, eftir því sem hann hefur fjárhagslegt bolmagn til, innan þeirra marka, sem lög og grenndarreglur setja, sbr. 12. gr. vatnalaga, nr. 15/1923.“ — Þetta verður ekki miklu skýrara. Þetta verður ekki í miklu meiri andstöðu við þær fullyrðingar sem fram komu hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni.

Að lokum fjallar Þorgeir Örlygsson prófessor um hagnýtingu á orku fallvatna í ritgerð sinni sem ég hef vísað til, Um eignarhald á landi og náttúruauðlindum, sem birt var árið 1994 í afmælisriti Gauks Jörundssonar.

Úr því að hv. þm. Jóhann Ársælsson vék að þeirri undirbúningsvinnu sem unnin var við setningu vatnalaga tel ég rétt að gera smáathugasemdir við þær niðurstöður áður en ég kem að heimildinni til hagnýtingar á orku fallvatna. Ég hlýt að gera athugasemdir við þær ályktanir sem hv. þingmaður dró af því löggjafarstarfi sem átti sér þar stað vegna þess að hann taldi, og lýsti því yfir í ræðu sinni, að þau sjónarmið sem meiri hluti fossanefndarinnar komst að um að vatnsréttindi ættu að vera ríkiseign eru algjörlega rangar. (JÁ: Einskis manns eign.) Eða einskis manns eign. Það skiptir engu máli. Ekki bætir það ástandið á hv. þm. Jóhanni Ársælssyni ef hann kemst að þeirri niðurstöðu.

Ég ætla aðeins að fara yfir það hvað dr. Gaukur Jörundsson og Þorgeir Örlygsson hafa um þetta mál að segja og niðurstöður fossanefndar og hvað felst í inntaki vatnalaga. Í grein Þorgeirs segir:

„Í fossanefndinni kom fljótlega upp ágreiningur um það atriði, hvort vatnsréttindi almennt væru eða ættu að vera í eigu einstaklinga, sem eignarrétt ættu að landinu undir vatninu, eða hvort vatnsréttindi væru að öllu leyti ríkiseign og einstaklingum aðeins heimil þau afnot, sem lög leyfðu sérstaklega. Ágreiningur þessi varð til þess, að nefndin klofnaði í meiri hluta og minni hluta. Meiri hlutinn“ — sem hv. þm. Jóhanni Ársælssyni er svo annt um — „taldi öll vatnsréttindi vera ríkiseign, en minni hlutinn taldi hins vegar vatnsréttindi vera háð eignarumráðum landeigenda.

Bæði meiri og minni hluti fossanefndar sömdu hver fyrir sig frumvörp til vatnalaga, sem lögð voru fyrir Alþingi árið 1919, en hvorugt frumvarpið varð að lögum. Sama er að segja um frumvarp til vatnalaga, sem ríkisstjórnin lagði fram á Alþingi árið 1920. Varð þetta til þess, að Einari Arnórssyni, prófessor, var falið að semja nýtt frumvarp til vatnalaga. Var frumvarp hans lagt fram á Alþingi árið 1921, en það varð ekki að lögum fyrr en árið 1923, þ.e. vatnalög nr. 15/1923.

Við samningu frumvarps síns“ — sem gekk á þeim tíma undir nafninu Bræðingurinn vegna þess að Einar Arnórsson nýtti sér bæði frumvörp meiri hluta og minni hluta við samningu síns frumvarps — „studdist Einar Arnórsson að mestu leyti við frumvarp meiri hluta fossanefndar frá 1919. En þó svo, að fræðilega sé á því byggt í vatnalögunum, að landeigendur hafi aðeins þau vatnsréttindi, sem lög heimila sérstaklega, er eigi að síður í lögunum gengið svo til móts við álit minni hluta fossanefndar“ — og nú bið ég hv. þm. Jóhann Ársælsson að leggja vel við hlustir vegna þess að Þorgeir Örlygsson segir hérna áfram — „að í raun má segja, að stefna minni hlutans hafi sigrað, og hefur ekki verið um það fræðilegur ágreiningur í íslenskum rétti.“

Þó hefur einn sjálfskipaður fræðimaður gert ágreining um þessa niðurstöðu. Hann heitir Jóhann Ársælsson og er hv. þingmaður Samfylkingarinnar og helsti talsmaður flokksins í þessu máli. Það kom skýrt fram í (Gripið fram í.) langri ræðu hans hér á þingi.

„Segir í 2 gr. vatnalaga, að landareign hverri fylgi réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni og stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimili. Fela lögin í sér upptalningu á því, hverjar hagnýtingarheimildir fylgja eignarrétti eða landareign, þegar um stærri vötn er að ræða. Þar er á hinn bóginn um að ræða allar helstu hagnýtingarheimildir, sem máli geta skipt, þar á meðal heimild til orkuvinnslu.

Meginreglan um rétt landeigenda til nýtingar orku vatns kemur fram í 49. gr. vatnalaga, en þar segir m.a. svo:“ — Þetta er nú meginreglan.

„Eiganda landareignar, sem vatnsréttindi fylgja …“

(Forseti (JBjart): Forseti minnir hv. þingmann á að biðja um leyfi forseta þegar hann les upp orðrétt.)

Já, ég bið hæstv. forseta velvirðingar á að hafa ekki óskað eftir leyfi til að lesa beint upp úr ritinu. Ég geri það hér með, með leyfi forseta:

„Eiganda landareignar, sem vatnsréttindi fylgja, svo og öðrum, sem heimildir hafa á þeim tekið, er rétt að nota það vatn, sem um hana rennur til að vinna úr því orku …“

Síðan segir Þorgeir, með leyfi forseta:

„Réttarframkvæmdin hefur og til fulls viðurkennt eignarrétt landeigenda að vatnsorku, m.a. þegar vatnsföll hafa verið tekin til virkjunar, og dómstólar hafa talið landeigendur eiga eignarrétt að vatni á landi sínu.“ Ég ætla að endurtaka þetta, með leyfi forseta:

„… og dómstólar hafa talið landeigendur eiga eignarrétt að vatni á landi sínu.“ — Þetta er ekki í samræmi við þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni en eru engu að síður óumdeild í íslenskum rétti. Ég er ekki að segja hér mína skoðun. Ég er að reifa þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá fræðimönnum á þessu sviði. Við hljótum að leita til þeirra þegar við reynum að greina hvað felst í núgildandi löggjöf.

Að lokum segir Þorgeir Örlygsson í sinni grein, með leyfi forseta:

„Þegar til þess er litið, sem að framan segir, er ljóst, að við setningu vatnalaga, nr. 15/1923, var með ótvíræðum hætti tekið af skarið um það, að landeigendur ættu einir rétt til að hagnýta orku þeirra vatna, sem um landareignir þeirra renna. Vatnsréttindi eru samkvæmt því, með sama hætti og jarðefni og jarðhiti undir yfirborði eignarlanda, þáttur í eignarrétti landeigenda, sem verndar nýtur samkvæmt 67. gr. stjórnarskrárinnar“ sem nú er 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Ég vil ítreka enn og aftur það sem Þorgeir Örlygsson prófessor segir í grein sinni svo að ég fái, með leyfi forseta, að vitna enn og aftur í það sem fram kemur í greininni, að „dómstólar hafa talið landeigendur eiga eignarrétt að vatni á landi sínu“. Það er vísað í hæstaréttardóm frá 1955, bls. 431. Þetta getur ekki verið miklu skýrara. Þetta er alveg ljóst. Það er alveg ljóst að vatn og vatnsréttindi hafa í íslenskum lögum frá setningu vatnalaganna 1923 verið undirorpin einkaeignarrétti fasteignareigenda. Ef menn geta skilið þau fræðiskrif sem ég hef vísað hér til með einhverjum öðrum hætti ganga þeir ekki heilir til skógar, leyfi ég mér að fullyrða. Dr. Gaukur Jörundsson fjallar líka í eignarrétti sínum frá 1982 um vatnsréttindi landeigenda. Hann segir, með leyfi forseta:

„Hefur landeigandi samkvæmt þeim einkaheimild til hagnýtingar vatns til heimilisþarfa, til bústarfa, til iðnaðar og iðju án orkunýtingar, til áveitu, til orkuvinnslu, til ítöku á vatni til mannvirkjagerðar sem er nauðsynleg vegna ofangreindra vatnsnota, til mannvirkjagerðar á landi sínu til varnar landi eða landsnytjum gegn ágangi vatns og til að þurrka land og loks til að ráðstafa til þriðja manns þeim heimildum sem taldar hafa verið.“ — Þetta er ekki bara rétturinn til að nýta vatnið, nýta réttindin, heldur líka til að selja.

Ég taldi rétt, frú forseti, að víkja að þessum atriðum, þessum viðteknu sjónarmiðum okkar helstu fræðimanna á sviði eignarréttarins sem fram hafa komið á síðustu öld vegna þeirrar umfjöllunar og fullyrðinga sem fram hafa komið hjá hv. þingmanni og helsta talsmanni Samfylkingarinnar í þessum málefnum, hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Í ljósi þess hlýt ég að vitna aftur til yfirlýsingar frá þingflokki Samfylkingarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Iðnaðarráðherrann og ríkisstjórnin hafa hins vegar valið þá leið að afhenda landeigendum, gömlum og nýjum, óskorað eignarhald á sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar.“

Í þessu hlýtur að felast að Samfylkingin telur, sem og minni hluti iðnaðarnefndar, stjórnarandstaðan, að með frumvarpi til vatnalaga sé verið að breyta efnislega þeim eignarréttindum sem núgildandi vatnalög kveða á um en ekki sé um formbreytingu að ræða. Þetta er sá ágreiningur sem ég ætlaði að fjalla um.

Nú hef ég farið yfir það hvernig menn hafa skilgreint eignarrétt sinn, fasteignarhugtakið, og hvað felst í núgildandi vatnalögum. Ég hef vísað til þess sem Ólafur Lárusson, Ólafur Jóhannesson, Sigurður Líndal, Þorgeir Örlygsson og dr. Gaukur Jörundsson hafa haft um þetta mál að segja. Þá er von að maður spyrji: Hvernig í ósköpunum komast hv. þingmaður og minni hluti hv. þingmanna í iðnaðarnefnd, í ljósi þeirra meginviðhorfa sem óumdeild eru í íslenskum rétti, að þeirri niðurstöðu að hér sé um efnisbreytingu að ræða? Það er alveg ljóst af þeirri umfjöllun sem ég hef farið hér ítarlega yfir að vatn og vatnsréttindi hafa í íslenskri löggjöf, ekki bara frá því að vatnalögin voru sett árið 1923, heldur frá tímum Grágásar og Jónsbókar, verið talin til einkaeignarréttinda landeigenda. Það er alveg skýrt. Ég legg til að þeir sem fylgjast með þessari umræðu vegi nú og meti hvort í frumvarpinu felist einhverjar efnisbreytingar, þ.e. breyting á eignarréttinum. Ég fæ ekki betur séð af þeim tilvitnunum sem ég hef verið með hér í fræðiskrif, sem eru ekki mín og lýsa ekkert mínum skoðunum þótt ég sé sammála þeim, að nein efnisbreyting felist í þessu frumvarpi.

Í ljósi þessa hlýtur maður að gera þá kröfu til hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, helsta talsmanns Samfylkingarinnar í þessum málaflokki, að áður en hann kemur hér upp í ræðustól og talar um þessi málefni í fimm klukkutíma kynni hann sér þau meginviðhorf sem uppi hafa verið hjá helstu fræðimönnum á sviði eignarréttar hvað þetta varðar. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Samfylkinguna ef talsmaður hennar hefur ekki meira fram að færa í umræðunni en tóman misskilning á grundvallarhugtökum í eignarrétti eins og þau hafa verið skýrð á síðustu öld. Allir fræðimenn sem að málinu hafa komið eru sammála um þau. Það er ekki einn sem gerir ágreining um inntak vatnsréttinda og eignarréttarins í íslenskri lögfræði. Ekki einn.

Ef framlag hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um þessi mál er framlag Samfylkingarinnar held ég að ástæða sé til að sá ágæti flokkur fari í stefnumótun hvað þennan málaflokk varðar. Það stóð ekki steinn yfir steini í málflutningi þingmannsins þrátt fyrir að hann stæði hér í fimm klukkutíma. Það hljóta allir að sjá. Það er nánast ekki neitt sem hægt er að finna stað í vatnalögunum eða þeirri umfjöllun sem fyrir liggur í Íslandssögunni um þessi réttindi. Hv. þm. Jóhann Ársælsson, talsmaður Samfylkingarinnar, er á öndverðum meiði við alla þá sem gert hafa rannsóknir á inntaki vatnsréttinda og eignarréttinda fasteigna. Það er nú ekki björgulegur málflutningur sem þar var á ferðinni. (JÁ: Bíddu, hvað var það?) Það var þinn málflutningur, hv. þingmaður. Ég var að fara yfir það, meðan þú varst í símanum, hv. þm. Jóhann Ársælsson, að það er ekki hægt að bjóða hinu háa Alþingi upp á þann málflutning sem hér fór fram af þinni hálfu, hv. þm. Jóhann Ársælsson. Hann er ekki í nokkru samræmi við neitt af því sem menn hafa fjallað um á þessu sviði á síðustu öld.

Frú forseti. Þegar ég kom upp í ræðustól Alþingis gerði ég grein fyrir því að auðvitað geta menn haft sínar skoðanir á því hvernig við eigum að haga vatnalögum, vatnsréttindum og eignarhaldi á vatni. Það eru pólitískar skoðanir. Sumir eru þeirrar skoðunar að vatnið eigi að vera í sameign þjóðarinnar, jafnvel sameign mannkynsins eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur vikið að. Það eru alveg sjónarmið út af fyrir sig og það er rétt kannski að geta þess, af því að hv. þm. Jóhann Ársælsson er svo hrifinn af meirihlutaáliti fossanefndar, að hugtakið sameign þjóðarinnar kom fyrst inn í stjórnarskrá, held ég, árið 1917 þegar stjórnarskrá Sovétríkjanna var samin og samþykkt þar í landi. Þetta er auðvitað sjónarmið. Þjóðnýting á vatnsréttindum eða öðrum náttúruauðlindum er náttúrlega sjónarmið en ég er bara ósammála því. (Gripið fram í: Stalín er ekki hér.) Stalín er ekki hér, en það virðist vera sem einhver Stalín búi í hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, eða að minnsta kosti einhver alræðissinni. Þetta er sjónarmið. Ég er hins vegar mótfallinn þessu sjónarmiði. Ég er þeirra skoðunar að einkaeignarrétturinn eigi að ráða í þessum málum eins og öðrum. En þetta eru pólitísk viðfangsefni. Það sem menn hafa hins vegar verið að gera á síðustu öld, og ég hef hér rakið, er að menn hafa í miklum fræðiskrifum greint gildandi rétt og inntak hans, inntak eignarréttarins, vatns og þeirra vatnsréttinda sem fasteign fylgja, og þeir hafa allir komist að sömu niðurstöðu. Hún er sú að vatnið og vatnsréttindin eru undirorpin einkaeignarrétti landeigenda. Það er alveg ljóst, ég las það hér upp áðan, hv. þm. Jóhann Ársælsson, og ég tel að ég hafi fært rök fyrir því með tilvitnun í fimm af okkar helstu sérfræðingum á þessu sviði.

Það er einn maður sem hefur gert ágreining um þetta, að minnsta kosti opinberlega. Hann heitir Jóhann Ársælsson og er hv. þingmaður. Þegar hins vegar fræðin eru skoðuð og meginviðhorf í íslenskum rétti hvað þetta mál varðar kemur í ljós að ekki stendur steinn yfir steini í málflutningi hv. þingmanns. Hann getur ekki stutt fullyrðingar sínar við nein þau gögn sem til eru nema meirihlutaálit fossanefndarinnar frá 1923. Eins og ég fór yfir hér áðan, (Gripið fram í.) og bæði Þorgeir Örlygsson prófessor og Gaukur Jörundsson hafa staðfest, urðu sjónarmið minni hluta Fossanefndarinnar ofan á. Ef hv. þingmaður hefur ekki heyrt þá tilvitnun mína skal ég endurtaka hana svona að lokum honum til skemmtunar.

Gaukur Jörundsson segir í eignarrétti sínum sem kom út árið 1982, með leyfi forseta:

„Fór svo árið 1921 og 1923 að lagt var fyrir Alþingi nýtt frumvarp til vatnalaga, sem var byggt á meginsjónarmiðum minni hluta fossanefndar um tilhögun vatnsréttinda.“

Hið sama segir Þorgeir Örlygsson. Ég ætla nú að vísa aftur til þess sem ég fór yfir áðan af því að það virðist hafa farið fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Þorgeir segir, með leyfi forseta, að í raun megi „segja, að stefna minni hlutans hafi sigrað, og hefur ekki verið um það fræðilegur ágreiningur í íslenskum rétti“. — Niðurstaðan er sú að þar segir — og ég ætla að gera þau að mínum lokaorðum í þessari ræðu — Þorgeir Örlygsson prófessor, með leyfi forseta:

„Réttarframkvæmdin hefur og til fulls viðurkennt eignarrétt landeigenda að vatnsorku, m.a. þegar vatnsföll hafa verið tekin til virkjunar, og dómstólar hafa talið landeigendur eiga eignarrétt að vatni á landi sínu.“ — Það er vísað í dóm frá 1955 hvað þetta varðar. Auðvitað geta menn haldið áfram að rembast eins og rjúpan við staurinn að reyna að komast að einhverri annarri niðurstöðu og reyna að túlka niðurstöður fræðimanna og fossanefndarinnar með einhverjum öðrum hætti. Ef menn ætla að gera það er það allt í lagi. Þá er ekkert hægt að ræða við slíka menn. Það er bara eins og að rökræða við menn um það hvort himinninn sé blár eða jörðin kringlótt. Þetta er niðurstaðan. Þetta er sú regla sem menn komust að við setningu vatnalaganna. Þannig er það og um það hefur ekki verið neinn ágreiningur.

Ég vænti þess að hv. þm. Jóhann Ársælsson muni í seinni ræðu sinni fallast á þetta sjónarmið. Hann væri maður að meiri ef hann gerði það. Ég hlakka til að sjá hv. þingmann stíga hérna upp í pontu og fallast á þessi sjónarmið sem ég hef hér reifað, sem líka hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur gert og allir þeir fræðimenn sem ég hef vísað til í þessari ræðu. Það mundi greiða mjög fyrir þingstörfum ef við gerðum þennan ágreining að engu vegna þess ef menn fallast á þessi sjónarmið fallast þeir á að í nýju frumvarpi til vatnalaga felist engin efnisbreyting, heldur einungis formbreyting.

(Forseti (JBjart): Forseti vill minna hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson á að beina orðum sínum til forseta en ekki til hv. þingmanna í þingsal.)