Vatnalög

Þriðjudaginn 07. mars 2006, kl. 18:53:28 (5699)


132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[18:53]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér afar umdeilt frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra um vatnalög. Það er ekkert skrýtið að þingmenn stjórnarandstöðunnar telji sig þurfa talsvert langan tíma til að gera grein fyrir sínum málum í ræðustól Alþingis. Svo harkaleg ummæli hefur hæstv. iðnaðarráðherra látið falla úr þessum stól, sem hvetur auðvitað stjórnarandstöðuþingmenn til að miðla af þeirri vissu og kunnáttu sem þeir hafa eftir að málið hefur hlotið meðferð í iðnaðarnefnd Alþingis.

Margt hangir á spýtunni. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur ekki einungis lent í erfiðleikum með að koma þessu frumvarpi í gegnum þingið — sú barátta hennar hefur staðið í á annað ár — heldur er um að ræða fleiri lagafrumvörp sem hæstv. ráðherra bisar við að koma í gegn og gengur harla illa. Þar nefni ég frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum og fylgifisk þess, frumvarp sem fór í gegn fyrir skemmstu, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Öll frumvörpin bera þess glögg merki að hæstv. iðnaðarráðherra ætli sér stóra hluti í auðlindaumsýslu þjóðarinnar þar sem vatn er annars vegar.

Eitt af því sem mér finnst kalla sterkt til mín þegar ég hlusta á hæstv. iðnaðarráðherra fjalla um þessi mál sín, les frumvörpin og greinargerðir með þeim, er krafa hæstv. ráðherra, hennar æðsta bón og krafa sem hljóðar í eyrum mínum eitthvað á þessa leið: Allt vald yfir auðlindum Íslands, vatnsauðlindum Íslands, til iðnaðarráðherra. Ég verð að segja að það eru alvarleg skilaboð sem hæstv. iðnaðarráðherra sendir út í umhverfið með því hvernig hún kemur fram, hve óbilgjörn hún er í málflutningi sínum í þessum málum og hve mikið vald hún ætlar sér eða komandi iðnaðarráðherrum og stofnunum iðnaðarráðuneytisins yfir umsýslu með vatn.

Hæstv. iðnaðarráðherra lætur eins og auðlindin vatn komi einungis iðnaðarráðherra við. Við stjórnarandstöðuþingmenn höfum kvartað undan því að hæstv. umhverfisráðherra sé ekki viðstaddur umræðurnar og kvartað undan því að stofnanir umhverfisráðuneytisins hafi ekki verið hafðar með í ráðum. Við höfum sagt að auðvitað ætti að flytja frumvarp til vatnsverndarlaga samhliða þeim frumvörpum sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur talað fyrir. Hvað segir hæstv. iðnaðarráðherra þá? Hún kveinkar sér undan því að stjórnarandstaðan kalli á umhverfisráðherrann og segir: Það vill svo til að ég er iðnaðarráðherra en ekki umhverfisráðherra. Hún neitar síðan að ræða þá þætti málsins sem lúta að umhverfinu, verndarþættinum og hinni sjálfsögðu vatnsvernd, sem eðlilegt væri að taka með í þessari spyrðu.

Mér finnst þetta bera vott um mikinn hroka, frú forseti, og ótrúlegt skilningsleysi á því sjónarmiði sem hefur rutt sér til rúms um allan heim á síðustu árum og áratug, að fara þurfi með gát þegar umsýsla þjóða með vatnsauðlindina er ákveðin af löggjafarsamkundu. Við sem erum í þessum sal og höfum hlustað á ræður hv. þingmanna sem talað hafa á undan mér, talsmanna stjórnarandstöðunnar í iðnaðarnefnd, vitum að það tók sex ár að semja vatnalögin á sínum tíma. Þau tóku gildi 1923. Sex ár tók að semja vatnalögin. Það tók þrjá mannsaldra fyrir Norðmenn að endurnýja vatnalög sín, sem upphafi þessa áratugar sem nú stendur yfir, árið 2001, fóru í gegnum norska þingið. Þeir voru ekkert að kinoka sér við það. Þeir kveinkuðu sér ekki undan því að taka þrjá mannsaldra sem þurfti til að endurnýja löggjöfina um vatn.

Inn í þá vinnu voru lagðar ótal skýrslur og afrakstur ótal málþinga og ráðstefna sem haldnar höfðu verið í Noregi í aðdraganda þess að lögin voru opin til skoðunar. Þar var farið að öllu með gát, þori ég að fullyrða. Ferlið var umdeilt á sínum tíma og deilt um margt í Noregi á meðan á lagasetningin stóð. En Norðmenn báru gæfu til að hafa vinnuna opna, hleypa öllum sem vildu að henni koma komast að henni, drógu fram ólík sjónarmið, leyfðu fólki að takast á um þau. Tekist var á um þau pólitískt, og á endanum var náð skynsamlegri lendingu. Hvernig var niðurstaða Norðmanna? Hún var sú að byggja á meginskilgreiningum hugmyndafræðinnar um sjálfbæra þróun. Hún byggir líka á meginreglum umhverfisréttar sem samþykktar voru í Ríó árið 1992 og varúðarreglunni sem enn hafa ekki verið lögfestar í íslenskri löggjöf, sem mikið hefur verið kvartað undan.

Þess er skemmst að minnast að ríkisendurskoðandi gaf út skýrslu þar sem deilt var á íslensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki enn lufsast til að skilgreina hugtakið „sjálfbær þróun“ í löggjöf. Menn nota þessi hugtök, bæði í lagatexta og í greinargerðum, algerlega skilgreiningalaust án þess að nokkur maður viti um hvað er talað. Þetta er auðvitað ámælisvert og til vansa fyrir íslensk stjórnvöld að þau skuli leyfa sér að leggja fram mál af því tagi, sem varða hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og koma við meginreglur umhverfisréttar. En þar komum við að tómum kofanum. Hæstv. iðnaðarráðherra gerir lítið úr því að stjórnarandstaðan skuli draga þau sjónarmið í umræðuna. Eins og hennar er vani gefur hún þingmönnum einkunnir fyrir ræður sínar. Þær eru ævinlega mjög lágar og fremur snautleg einkunnagjöf hæstv. ráðherra til okkar þingmanna stjórnarandstöðunnar.

Ég fullyrði, frú forseti, að hæstv. iðnaðarráðherra fer hér afar vitlaust að og mér finnst mikil synd að hún skuli studd af allri ríkisstjórninni í þessu brölti sínu. En það segir bara eitt, það segir hvernig núverandi ríkisstjórn er innstillt þegar um er að ræða auðlind á borð við vatn, auðlind sem á auðvitað að vera sameign allrar þjóðarinnar, auðlind sem er vandmeðfarin, auðlind sem þjóðir heims hafa lent i vandræðum með að skilgreina, og hæstv. iðnaðarráðherra Íslands, Valgerður Sverrisdóttir, verður að átta sig á því að hún þarf að fara að með gát, hún þarf að fara að á annan hátt en hún hefur gert í þessum málum.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lesa hér allar umsagnirnar sem komu til iðnaðarnefndar út af þessu máli af því að talsmenn stjórnarandstöðunnar í iðnaðarnefnd, hv. þingmenn Jóhann Ársælsson og Hlynur Hallsson hafa farið vel yfir þær. Þó er óhjákvæmilegt að geta þess að þessar umsagnir eru mjög efnismiklar og með afar alvarlegum varnaðarorðum til ríkisstjórnarinnar, svo ekki sé meira sagt. Þær umsagnir sem mér kemur örugglega til með að verða tíðrætt um í ræðu minni nú koma frá Umhverfisstofnun, sem sendi nefndinni mjög ítarlega umsögn sem skiptist upp í eina sjö kafla, umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands, sem er sömuleiðis afar harðorð og alvarleg, og loks vil ég nefna umsögnina frá Landvernd og reyndar umsögnina frá BSRB. Það eru margar umsagnir hér sem eru virkilega þess virði að farið sé ítarlega yfir þær. Það er því ekki forsvaranlegt, frú forseti, að ríkisstjórn landsins og hæstv. iðnaðarráðherra skuli leyfa sér að vera fjarverandi í þessari umræðu og svara ekki þingheimi þeim ávirðingum sem koma fram í þessum umsögnum. Ég á eftir að heyra svörin sem hæstv. ríkisstjórn hefur fram að færa hvað varðar ávirðingarnar sem koma fram í umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Þá skulum við, frú forseti, aðeins átta okkur á því hvers vegna þessi löggjöf, vatnalögin, er jafnumdeild og raun ber vitni, hvers vegna þingmenn stjórnarandstöðunnar sjá sig knúna til að standa í ræðustóli klukkutímum saman við það að reyna að gera þjóðinni og fjölmiðlum grein fyrir á hvern hátt verið er að véla hér með sameign þjóðarinnar sem fólgin er í vatninu. Þannig hafa menn rifjað hér upp í löngu máli hvernig vatnalögin urðu til í upphafi, menn hafa fjallað um fossanefndina frægu og Fossafélagið Títan, stórhuga menn sem á sínum tíma þurftu að takast á við það að skilgreina hluti eins og við erum að skilgreina hér í dag, þurftu að fjalla um einkarétt og einkaeignarrétt, um nýtingarrétt og hagnýtingarrétt, þurftu að fjalla um alla þessa hluti en höfðu þá ekki jafnmarga bókstafi til að vitna í á þeim tíma eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gat vitnað til í máli sínu áðan þar sem hann fór yfir ritgerðir lærðra manna, síðari tíma lögfræðinga sem hafa túlkað gjörðir þessara eldri heiðursmanna sem á undan okkur komu og lögðu grunninn að vatnalögunum.

Hvers vegna hefur það verið svona viðurhlutamikið hjá þingmönnum í gegnum tíðina og þeim sem um þetta hafa vélað að skilgreina þennan eignarrétt og þennan hagnýtingarrétt? Mér þykir tilefni til að rifja það upp hér sem fyrst kemur upp í huga minn í þeim efnum, frú forseti. En þegar augu mín opnuðust fyrst fyrir því hvernig þessi mál hafa þróast í gegnum aldirnar, ég var þá ung kona, þá var mér sögð sagan af indíánunum í nýja heiminum sem tóku á móti Spánverjunum, ofurhugunum sem byggðu sér skip sem gátu siglt yfir úthafið stóra. Spánverjarnir námu land í nýja heiminum í Suður-Ameríku og hittu þar fyrir frumbyggjana, indíána, og komust þar í kynni við þjóðir sem bjuggu á löndum sem bjuggu yfir miklum auðlindum. Það var vatnsauðlindin, uppspretta vatnsins var náttúrlega gríðarleg, fjöllótt lönd og hálend og mikið vatn sem rann þar til sjávar, en í jörðinni var auðlindin sem Spánverjarnir ágirntust kannski öðrum fremur og það var gullið. Indíánarnir höfðu lært að hagnýta sér gullið og unnu gull óspart úr jörðu. Spánverjar komust þarna heldur betur í feitt. og hvert var fyrsta viðbragð þeirra til þess að reyna að koma höndum yfir auðlindir indíánanna, gullið? Nema hvað? Að eignast landið. Og Spánverjarnir fóru á fjörurnar við indíánana og gerðu tilkall til landsins og óskuðu eftir því að fá að kaupa landið af indíánunum. Hver voru viðbrögð indíánanna? Indíánarnir brugðust ókvæða við, komu af fjöllum, og spurðu Spánverjana hvort þeir væru ekki með öllum mjalla því hvernig ættu þeir, indíánarnir, sem byggju á landinu að geta selt landið? Og hvernig ættu gestirnir, Spánverjarnir, sem væru komnir þvert yfir hafið að geta keypt landið? Auðvitað ætti enginn landið, enginn gæti átt land.

Þær eru ekki svo ýkja margar aldirnar, frú forseti, síðan þessi skilgreining indíánanna var sannleikurinn. Í frumstæðum samfélögum var það bara sannleikurinn að mennirnir áttu ekki landið heldur átti alvaldið landið. Mennirnir höfðu hins vegar ábúðarrétt á landinu og gátu nýtt sér auðlindir þess svo fremi að ekki væri gengið á þær auðlindir, svo fremi að þær auðlindir gengju ekki til þurrðar. Á þeim tíma má því segja að sjálfbær þróun hafi verið mönnum í blóð borin og indíánarnir, í þeim samfélögum sem við í dag köllum frumstæð, sem tóku á móti Spánverjunum á 17. öld þegar þeir sigldu yfir hafið til þess að nema land í nýja heiminum voru með það alveg á hreinu hvernig menn gætu nytjað landið án þess að ganga um of á auðlindir þess. Nákvæmlega eins og Jón Þorláksson, sá merki maður, hélt fram á sinni tíð að vatnið væri og ætti að vera einskis manns eign. Enda stendur í vatnalögunum frá 1923 að „landareign hverri fylgi réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt sem þessi lög heimila“. Það eru síðari tíma útskýringar lögmanna, lögfræðinga, að þessi hagnýtingarréttur sé skilgreindur sem einkaeignarréttur. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fór afar vel yfir það í máli sínu áðan á hvern hátt síðari tíma lögfræðingar hafa skilgreint þennan hagnýtingarrétt eða umráðarétt, hann er skilgreindur sem einkaeignarréttur. En ég fullyrði, frú forseti, að það eru mannanna verk að breyta þeim hagnýtingarrétti, sem hefur legið í lögunum frá 1923, í einkaeignarrétt sem er í mínum huga, og margra þeirra sem gefa umsagnir um þetta mál til iðnaðarnefndar, mun þrengri skilgreining.

Þetta finnst mér vera mergurinn málsins. Mér finnst mergurinn málsins vera fólginn í svo einföldum hlut eins og þeim að það geti enginn átt vatnið því að vatnsdropinn er eðli málsins samkvæmt aldrei kyrr á sama stað. Og þó að landeigandi eða jarðeigandi geti samkvæmt skilningi okkar í dag átt bújörð sína eða átt jörð sína getur hann aldrei átt þann vatnsdropa sem um landareign hans fer. Hann getur hins vegar haft rétt samkvæmt einhvers konar lagaskilgreiningu til að hagnýta sér það vatn sem um landareignina rennur en hann getur ekki slegið eign sinni á vatnið. Það er ekki hægt. Vatnið gufar upp, vatnið rennur í gegnum landið, vatnið á sér uppsprettur annars staðar en á landareign viðkomandi. Hringrás vatnsins er alheimshringrás sem við þekkjum og hún lýtur ekki einkaeignarrétti þeim sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fræddi okkur svo mikið um í ræðu sinni hér áðan. Það gerir hún bara ekki. Vatnið er þess vegna sameign mannkyns og mér er alveg sama þó að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson tali um það í einhverjum háðungartóni að hér standi stjórnarandstaðan og rausi eitthvað um það að vatnið eigi að vera eign mannkyns. Mér finnst það bera vott um skammsýni hv. þingmanns að hann skuli ekki hafa þá víðsýni og þá hugmyndaauðgi til að bera og það opna hjarta í sjálfu sér að átta sig á því að málið snýst um þessi grundvallaratriði.

Hvernig er svo alheimspólitíkin í kringum vatnið í dag? Víða í veröldinni er tekist á um vatn þessa dagana, frú forseti. Það er sannarlega ekki bara á Íslandi. Það er sannarlega víða í veröldinni verið að fjalla um vatnsauðlindina, þessa auðlind veraldarinnar, auðlind sem tilheyrir öllu mannkyni, auðlind sem á að vera opin öllu mannkyni og að það þjóni ekki hagsmunum mannkynsins að fólki eða fyrirtækjum sé heimilað að slá á vatnið einhvers konar eignarböndum. Hvers vegna er slík pólitík í gangi vítt og breitt um veröldina? Það er vegna þess að þær hugmyndir hafa kviknað hjá stórfyrirtækjum veraldarinnar að nú sé tími til kominn að setja einkaeignarrétt á vatnið og eignarbönd á vatnið. Og það er ekki bara svo að hugmyndin hafi kviknað í hugum stjórnenda stórfyrirtækja heldur hafa menn farið af stað og gert formlega tilkall til þess að eignast og eiga vatnið og geta selt að því aðgang. Þessi umræða á auðvitað ekki að vera okkur í þessum sal framandi. Og okkur í þessum sal á heldur ekki að finnast langsótt að þetta sé dregið inn í umræðuna þegar við erum að ganga frá jafnviðamikilli löggjöf og hér um ræðir, við eigum ekki að kveinka okkur undan því að þurfa að líta á málin heildstætt og skoða á hvern hátt alþjóðasamfélagið fjallar um nákvæmlega sömu mál.

Nú er það svo að stórfyrirtækin, sem eru farin að færa sig heldur betur upp á skaftið í þessum efnum, eru komin með klær sínar á vatnið á þann hátt að til mikils vansa er fyrir stórfyrirtækin sjálf, tel ég, og hið kapítalíska hagkerfi sem hefur alið þau. Ég nefni Bólivíu sem dæmi. Bólivía er dæmið sem hræðir okkur sem höfum fylgst með umræðunni á alþjóðavettvangi um vatn, hræðir okkur og skelfir svoleiðis að það jaðrar við martröð þó svo að nú hafi þjóðin yfirunnið vald stórfyrirtækisins sem var búið að sölsa undir sig einkaeignarrétt á vatni í Bólivíu og var farið að selja þjóðinni aðgang að vatninu dýrum dómum. Það var svo komið að fátæk þjóð gat ekki lengur svalað þorsta sínum nema með því að borga stórfyrirtækinu Bechtel óheyrilegar upphæðir, upphæðir sem fólk átti ekki til vegna þess að fólk á vart málungi matar á stórum landsvæðum í því samfélagi. Það var því gerð uppreisn gegn þeim áformum sem spillt ríkisstjórn í Bólivíu hafði hrint í framkvæmd og uppreisnin sem átti sér stað í samfélaginu Cocabamba varð til þess að fyrirtækið Bechtel, sem eins og ég sagði áðan hafði sölsað undir sig eða komist yfir einkaeignarrétt á vatni í Bólivíu, varð að hrökklast í burtu frá landinu.

Þetta nafn, Bechtel, hljómar kannski kunnuglega í eyrum einhverra. Þetta er einmitt sama stórfyrirtækið og er að byggja álver fyrir Alcoa austur í Fjarðarbyggð. Það er sem sagt þetta risastóra verktakafyrirtæki sem starfar um allan heim og var svo ljónheppið, mundi einhver segja, að fá, eftir því sem ég veit, útboðslaust að annast alla uppbygginguna í Írak sem Bandaríkjastjórn er að fjárfesta í núna. Þetta sýnir að fyrirtækið teygir anga sína afar víða. Það var sem sagt fyrirtækið Bechtel sem fékk hina einkavæddur vatnsveitur í Bólivíu og ekki nóg með það heldur slógu þeir eign sinni á rigningarvatnið líka því fólki var jafnframt bannað að safna rigningarvatni til svala þorsta sínum. Foreldrum sem voru að reyna að svala þorsta barna sinna var beinlínis bannað að safna rigningarvatninu því Bechtel átti einkarétt á því.

Síðan var gerð uppreisn í Bólivíu. Hún er búin að standa nokkuð lengi þessi barátta í Bólivíu. Það er talað um vatnsuppreisnina árið 2000 sem var í raun alþjóðleg uppreisn þó hún hafi byrjað heima fyrir. Hún endaði sem sagt með því, eins og ég sagði áðan, að Bechtel var gert burtrækt úr Bólivíu. Þeir þóttust náttúrlega þurfa að fá skaðabætur en létu sér loks segjast þegar þeir voru búnir að standa í stappi við fá skaðabætur sem þeir gerðu kröfu um. Þeir gerðu kröfu um 50 milljóna dollara í skaðabætur frá bólivísku þjóðinni. Þeir fengu það nú ekki heldur fóru þeir víst burtu á endanum með tvö silfurslegin eða skínandi sent frá þjóðinni sem munu hafa verið jafnvirði 30 bandaríkjasenta. Uppreisnin í Bólivíu gegn þessum áformum öllum um einkavæðingu vatnsins endaði sem sagt á þann veg að eitt og öflugasta verktakafyrirtæki og stórfyrirtæki í víðri veröld var sigrað. Það varð að lúta í lægra haldi fyrir þjóðinni, fyrir þeim borgurum landsins sem fannst á sér brotið og reyndar voru studdir af borgurum vítt og breitt um veröldina sem létu í ljósi skoðanir sínar. Stórfyrirtækið varð að gefast upp og þetta er kannski fyrsta stóra uppgjöfin í þeirri baráttu sem stendur yfir núna þar sem stórfyrirtæki eru að sölsa undir sig almannaþjónustu t.d. vítt og breitt um veröldina, í fátækum þjóðríkjum. Það stendur nú svo að verulega mikið er tekist á t.d., má segja, í öllum þróunarlöndum um þessi meginsjónarmið öllsömul, um hvort spilltum ríkisstjórnum eigi að vera heimilt að einkavæða almannaþjónustuna og ekki síst vatnsveiturnar eins og gert var í Bólivíu.

Þjóðin í Bólivíu sigraði stórfyrirtækið. Nú hafa þeir þegnar Bólivíu sem áttu allt sitt undir þessu fyrirtæki fyrir stuttu síðan endurheimt aftur rétt sinn til að nýta þessa auðlind, njóta þessara auðlindar á þann hátt sem eðlilegt getur talist, þ.e. auðlindin er og verður sameign þjóðarinnar. Það er sannarlega ástæða til að fagna því að þessi sigur skyldi hafa unnist því hann er auðvitað fordæmisgefandi fyrir þau fyrirtæki önnur sem fara inn á sömu braut. Samkvæmt mínum heimildum þá óttast menn sem hafa verið að fylgjast með þessu að á einum 200 stöðum á jarðríki sé verið að undirbúa núna einhvers konar yfirtöku sambærilega við þá í Bólivíu á vatnsauðlindum tiltekinna samfélaga.

Ein ástæðan fyrir því að menn fylkja sér bak réttindum þjóða til að hafa óheftan aðgang að vatnsauðlind sinni er einmitt þessi uppreisn og barátta sem hefur staðið yfir í Bólivíu. Fréttir af þeirri uppreisn og baráttu hafa borist til Íslandi upp á síðkastið. Vil ég nefna sérstaklega ráðstefnu sem BSRB átti frumkvæði að að gengist var fyrir á Grand Hóteli þann 29. október síðastliðinn. Sú ráðstefna fjallaði um vatnið sem auðlind og var hin athyglisverðasta í alla staði. Frumkvæði að henni áttu BSRB, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra bankamanna, Náttúruverndarsamtök Íslands, Landvernd, Öryrkjabandalag Íslands, UMFÍ, Mannréttindaskrifstofa Íslands, UNIFEM, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, MFÍK, Menningar- og friðarhreyfing íslenskra kvenna, Landssambandi eldri borgara og þjóðkirkjan. Þessi félagasamtök höfðu skrifað upp á yfirlýsingu sem samþykkt var á ráðstefnunni. Nú hafa fleiri félagasamtök bæst í hópinn og ritað undir yfirlýsinguna um vatn sem búið er að gera grein fyrir í löngu máli í ræðum þeirra þingmanna sem talað hafa á undan mér. Sú yfirlýsing er líka aðgengileg á heimasíðu BSRB og sennilega á heimasíðum þessara félagasamtaka vítt og breitt um vefinn.

Stór hluti samtakanna hafa skrifað undir sameiginlega umsögn um frumvarp til vatnalaga sem við erum hér að fjalla um. Ég ætla að leyfa mér að nefna hin samtökin sem komin eru með í hópinn. Það má segja að mikill meiri hluti verkalýðshreyfingarinnar hafi skrifað upp á yfirlýsinguna, helstu umhverfissamtök landsins, mannréttindasamtök og samtök tengd Sameinuðu þjóðunum. Alþýðusamband Íslands ákvað þann 5. desember 2005 að fylgja þeim 14 samtökum sem undir yfirlýsinguna hafa skrifað þannig að ég tel að vart sé hægt að hugsa sér öflugri hóp undir yfirlýsingu ráðstefnunnar frá 29. október. Yfirlýsinguna getur að líta í umsögn sem þessi samtök sendu iðnaðarnefnd, sem er að finna í umsagnarbunkanum. Yfirlýsingin hefur yfirskriftina „Vatn fyrir alla“ og lýtur fyrst og fremst að því að áðurnefnd samtök, sem í eru þúsund ef ekki tugþúsund einstaklinga. Þau vilja með yfirlýsingu sinni vekja athygli íslensku ríkisstjórnarinnar, allra sveitarstjórna á Íslandi og stofnana, fyrirtækja og almennings sem láta sig málið varða, á mikilvægi og sérstöðu vatns fyrir land og þjóð og lífríki. Þetta gera þessi samtök þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi og staðan hér önnur en víðast hvar í heiminum. Þau segja líka í yfirlýsingunni að gnótt vatns gefi alls ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þann búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Þar er líka lögð áhersla á að hugsa til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruhagsmuni að leiðarljósi.

Það kann að vera óþarfi að fara yfir alla þessa yfirlýsingu, frú forseti, en ég vil þó ítreka að ríkisstjórn Íslands verður að skoða það með opnum huga sem í þessari yfirlýsingu stendur. Þar er kjarni málsins, finnst mér, í málflutningi stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Við lítum á vatnið sem takmarkaða auðlind og lítum á vatn sem almannagæði. Við lítum á vatn sem undirstöðu alls lífs á jörðinni. Við lítum á vatn sem undirstöðu heilbrigðis þjóðarinnar. Þess vegna viljum við meina að vatn sé frábrugðið öðrum efnum og öðrum auðlindum að því leyti að það er hægt að finna það í ýmsu formi, eins og getið er um í þessu frumvarpi. Okkur finnst í hæsta máta óeðlilegt að hæstv. iðnaðarráðherra geti sölsað undir sig og stofnanir ráðuneytis síns alla umsýslu með slíkri auðlind. Jafnt að morgni sem kvöldi og um miðjan dag neitar hún að horfast í augu við að margir aðrir hagsmunir eru í húfi en hagnýtingarsjónarmiðin sem hæstv. iðnaðarráðherra talar fyrir.

Hæstv iðnaðarráðherra lokar algerlega augum sínum fyrir náttúruverndarsjónarmiðum í þessu máli og lokar algerlega augum sínum fyrir því að vatnið sé annars konar auðlind en svo að hana megi hagnýta með tilliti til orkuframleiðslu. Hér eigum við því langt í land með að opna augu hæstv. iðnaðarráðherra.

Ég var að tala um ráðstefnuna „Vatn fyrir alla“, sem haldin var 29. október síðastliðinn. Mig langar að minna hv. þingmenn sem hér sitja á að það væri ekki úr vegi að rifja upp ákveðin atriði úr þeim erindum sem flutt voru á ráðstefnunni. Þau koma málinu við. En af því hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson var hér á afar lagalegum nótum á undan mér þá langar mig að fara örlítið út á aðrar brautir, þ.e. hinar skáldlegu brautir og tilfinningalegu, sem lúta að þessu máli. Ég vildi vitna til orða Péturs Gunnarssonar rithöfundar, sem flutti á þessari ráðstefnu erindi sem hann kallaði „Lifandi vatnið“, sem er að finna á heimasíðu BSRB. Erindi Péturs Gunnarssonar er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Árið 1974 kom út skáldsagan Lifandi vatnið eftir Jakobínu Sigurðardóttur. Lifandi vatn? Hvað skyldi vera átt við með því? Efnafræðin segir okkur reyndar að vatn sé óvenju lifandi fyrirbæri: mólekúl þess óð og uppvæg að sameinast öðrum. Vatnsglas sem okkur sýnist pollrólegt er iðandi og ólgandi af samruna.

Bókartitill Jakobínu kom mér í hug þar sem ég var staddur í almenningsgarði í evrópskri höfuðborg þar sem höfðu verið búnir til lækir og líka svolítill foss úr kranavatni en farvegirnir voru forhannaðir og kletturinn sem fossinn steyptist fram af úr hrærðri steypu. Allt var tilbúið og vatnið ugglaust líka, þ.e. margnotað og vandlega merkt „ódrykkjarhæft“.

Sá merkimiði þykir nú orðið svo sjálfsagður að það er óþarfi að taka hann fram hvarvetna þar sem vatn rennur á víðavangi í flestum velmegunarlöndum. Heilu árnar streyma lífvana af því að þær hafa tekið í sig slík ókjör spilliefna, ekki bara frá stóriðju, heldur einnig frá landbúnaði sem reyndar er víðast rekinn sem stóriðja: eiturefni úr áburði, skordýraeitur, fyrir utan seyruna sem svína- og kjúklingabúin leggja til.

Ferskt vatn fæst þar fyrir borgun á flöskum tappað úr sérstökum uppsprettum, á meðan skáldsögupersóna Jakobínu þurfti ekki annað en fara niður á BSÍ og taka rútuna heim í sveitina sína til að ná fundum við lifandi vatn.

Lifandi vatn var þar í merkingunni vatn komið úr skauti náttúrunnar. En þar sem að persónan í sögunni, verkamaðurinn Pétur, hefur misst fótanna í lífi sínu og finnur því ekki lengur tilgang er þrá hans eftir lifandi vatni væntanlega annarrar merkingar einnig, nefnilega þeirrar sem Kristur ljær því í Jóhannesarguðspjalli þegar hann tekur tali vatnsburðarkonuna við brunninn og gefur henni fyrirheit um lifandi vatn sem hafi þá eðliskosti að sá sem neytir þess muni ekki aftur þyrsta.“

(Forseti (SP): Forseti hyggst gera matarhlé á næstu tveimur mínútum eða svo og gerir varla ráð fyrir að hv. þingmaður ljúki máli sínu á þeim tíma. Forseti spyr hvort hv. ræðumaður treysti sér til að finna hentugan stað í ræðu sinni til að fresta henni innan tveggja mínútna.)

Það er sjálfsagt, frú forseti. Ég leyfi mér bara að klára tilvitnunina sem Pétur Gunnarsson er kominn að í erindi sínu. Það er tilvitnun í ekki ómerkari mann en Jesús sjálfan. Pétur vitnar til orða hans sem eru svohljóðandi:

„Hvern þann sem drekkur af þessu vatni, mun aftur þyrsta, en hvern þann sem drekkur af vatninu sem ég mun gefa honum mun aldrei að eilífu þyrsta heldur mun vatnið sem ég mun gefa honum verða í honum að lind er sprettur upp til eilífs lífs.“

Tel ég, frú forseti, að hér sé viðeigandi staður til að gera hlé á ræðu minni. Fara að næra líkamann og gera hlé á því að næra sálina.