Vatnalög

Þriðjudaginn 07. mars 2006, kl. 22:12:17 (5702)


132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[22:12]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að ekki hafi farið fram hjá neinum að við ræðum vatnalög og er sú umræða orðin talsvert löng. Reyndar á þetta frumvarp sér langa sögu. Það er verið að endurskoða heilan lagabálk frá 1923, vatnalögin voru sett þá, og menn hafa í umræðu um frumvarpið iðulega skírskotað til þeirrar umræðu sem þá fór fram. Það sem mér hefur þótt einkenna umræðuna er spurningin um hvað í grundvallaratriðum felist í þessu nýja frumvarpi og að hvaða leyti það kunni að vera frábrugðið lagasmíðinni frá 1923. Þá er það tvennt sem menn nefna og kannski eitt fyrst og fremst. Það er með tilvísan til eignarréttar, hvort eignarréttur á vatni sé einvörðungu að breytast að formi til með frumvarpinu eða hvort breytingin taki að einhverju leyti til innihalds. Inn í þetta hefur síðan fléttast umræða um vörn sem stjórnarskráin veitir eignarréttinum, að hvaða marki löggjafinn hafi heimildir og möguleika til að breyta lögum án þess að brjóta í bága við stjórnarskrá landsins.

Ég hef velt fyrir mér þegar ég hef hlýtt á umræðuna hvað hefði gerst ef hæstv. iðnaðarráðherra hefði verið á forsetastóli í Bandaríkjunum þegar Abraham Lincoln fór þar með völd og þrælastríðið geisaði og tekist var á um hvort afnema ætti þrælahald í Bandaríkjunum. Þá voru höfð þau rök uppi að þrælahald væri innmúrað í lög og gott ef ekki stjórnarskrá og það var iðulega skírskotað til efnahagslegra hagsmuna sem mætti ekki raska við.

Er það virkilega svo að ef eitthvað sem lýtur að eignarrétti manna hefur einhvern tímann verið fest í lög eða stjórnarskrá þá sé það óumbreytanlegt um aldur og ævi? Ég tel afar vafasamt að fylgja slíkri hugsun. Í þessari umræðu, bæði nú og við 1. umræðu í nóvember, fannst mér tvennt koma fram frá hæstv. iðnaðarráðherra, hv. formanni iðnaðarnefndar og öðrum talsmönnunum þessara lagabreytinga, sem mér fannst svolítið í mótsögn. Annars vegar var sagt: Við erum í reynd ekki að gera neitt. Við erum í reynd ekki að breyta neinu, a.m.k. ekki neinu í grundvallaratriðum. Síðan var bætt við að tímarnir væru breyttir frá því á öndverðri 20. öldinni og við værum knúin til þess sökum breytinga í tíðarandanum, þjóðhátta almennt og viðhorfa, að breyta þessum lögum.

Mér finnst eðlilegt að taka þurfi þessi lög upp, breyta þeim og laga þau að samtímanum í ýmsu tilliti. En þá er spurningin: Kalli hverra ættum við að hlíta? Á hvaða raddir ætlum við að hlusta? Til hvaða sjónarmiða og viðhorfa viljum við horfa við þessar breytingar? Er það svo að við viljum treysta eignarréttarákvæðinu þegar vatnið er annars vegar, einkaeignina? Eða er kominn tími til að losa um ákvæði sem er að finna í lögum og lúta að eignarrétti einstaklinga á vatni? Ættum við fremur að hlusta á þær raddir sem nú heyrast með vaxandi þunga frá almannasamtökum víðs vegar um heiminn? Þær segja: Vatnið á að skilgreina sem mannréttindi og nokkuð sem snertir almannahag og af þeim sökum eigum við að skilgreina vatnið sem almannaeign. Slíkt kall hefur m.a. borist frá Sameinuðu þjóðunum. Þetta kall kemur frá verkalýðshreyfingum víðs vegar um heiminn og frá kirkju og trúarsamfélögum víðs vegar um heim. Þetta kall berst frá öllum þessum aðilum, verkalýðshreyfingu, trúarhreyfingum, mannréttindasamtökum, náttúruverndarsamtökum. Slíkt kall hefur borist frá Menningar- og friðarsamtökum kvenna, svo ég vísi í samþykktir sem hafa verið gerðar hér á landi. En öll þessi samtök sem ég nefndi sameinuðust síðastliðið haust í ályktun undir yfirskriftinni „Vatn fyrir alla“. Þar voru þessar áherslur uppi. Þetta finnst mér valið sem við stöndum frammi fyrir.

Eins og ég kem að síðar hafa menn velt þessum grundvallarforsendum fyrir sér í umræðunni í langan tíma. Það gerðu menn í umræðu um auðlindalöggjöfina 1998, sem er að mínu mati einhver afdrifaríkasta lagasmíð sem gerð hefur verið á Alþingi á síðustu árum. Þar var langt gengið í að treysta og auka eignarréttarákvæði einstaklinga yfir auðlindum í jörðu. Þá fór vissulega fram mikil umræða í þinginu en ég hef trú á að margir sem samþykktu þau lög vilji heldur að þeir hefðu látið það ógert. Ég held það. Ég held að margir telji nú að þar hafi ekki verið hyggileg lagasetning. Eins og ég mun koma að síðar vísuðu menn þar aftur í tímann til fyrri alda, allt aftur til Jónsbókar og til dóma, laga og hefða sem mynduðust á Íslandi í aldanna rás. Menn vísuðu einnig í lögspekinga á þessari öld, Bjarna Benediktsson og Ólaf Jóhannesson, sem fjölluðu um almannarétt gagnvart eignarrétti einstaklinga.

Þetta frumvarp kom fram í fyrra á vorþingi og olli strax mjög miklum deilum. Bæði innan þings en einnig utan veggja þingsins. Það var sent til umsagnar mjög víða og fékk almennt mjög slæmar undirtektir. Þegar frumvarpið birtist aftur í haust bjuggust þingmenn við öðru en því sem hafnaði á borðinu fyrir framan þá. Hvers vegna? Forsvarsmenn Framsóknarflokksins höfðu sagt að vatnalögin mundu ekki birtast þinginu aftur nema í verulega breyttri mynd. Þessu var m.a. lýst yfir á ráðstefnu sem samtökin sjö sem stóðu að yfirlýsingunni „Vatn fyrir alla“ héldu á Grand Hóteli í Reykjavík. Ég man ekki dagsetninguna nákvæmlega en það var undir lok októbermánaðar. Þá var þessu lýst yfir. En skömmu síðar, í byrjun nóvember, birtist þetta frumvarp sem er til umfjöllunar. Mjög litlar breytingar höfðu verið gerðar á frumvarpinu frá því það var fyrir þinginu vorið áður.

Menn hafa staðnæmst við ýmsar greinar í frumvarpinu, m.a. við markmiðssetningu laganna. Í 1. gr. segir t.d., með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.“

Það þurfti enginn að velkjast í vafa sem hlustaði á framsöguræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, formanns iðnaðarnefndar. Hann gerði mjög skilmerkilega grein fyrir frumvarpinu og allri þeirri hugsun sem það hvílir á. Með því segi ég ekki að ég sé sammála honum í einu og öllu um túlkun þessara laga eða hvernig hann lagði út af þeim. En hann fór ekki í grafgötur um hvert hann teldi að frumvarpið stefndi. Hann sagði mjög skýrt að tekist væri á um eignarrétt á vatni, hvort hann ætti að vera hjá einstaklingum eða hvort hann ætti að vera í almannaeign. Þetta væru tvö ólík pólitísk sjónarmið. Ég skildi það svo að þetta frumvarp væri fyrst og fremst hugsað til að skýra eignarhald einstaklinga á vatni.

Gott og vel. Þetta er pólitískt átakamál sem ég hefði haldið að Framsóknarflokkurinn mundi skipa sér öðruvísi í afstöðu til en hann hefur gert. Sú var tíðin að Framsóknarflokkurinn var mjög félagslega sinnaður flokkur. Hann var að sönnu bændaflokkur, átti rætur í sveitum landsins. Að því leyti sem hann vildi hugsa um hag bændanna og eignarrétt þeirra á vatni í þeirra landi þá voru það sjónarmið sem voru mjög skiljanleg á sínum tíma. En eins og talsmenn flokksins hafa hamrað á eru breyttir tímar og ástæða til að velta því fyrir sér í hverju þær breytingar eru fólgnar. Þær eru fólgnar í því að við lifum í mjög breyttum heimi þegar kemur að nýtingu vatns og þeim sem vilja nýta sér vatnið.

Fyrrum voru það einstaklingarnir til sveita og síðan sveitarfélögin sem fóru að búa til vatnsveitur. Það gerðist um alla Evrópu í litlum mæli á 18. öld og í meiri mæli og vaxandi eftir því sem leið á 19. öld og svo að sjálfsögðu á 20. öld. Undir lok 20. aldar og á þeim tíma sem við lifum nú eru fyrirtæki og auðhringar farnir að að ásælast vatnið til að hagnast á því. Til þess að þeir komist yfir vatnið, nái að slá eign sinni á það, og réttinn til að nýta það og selja sem hverja aðra markaðsvöru, þarf að vinna ákveðna grunnvinnu. Í fyrsta lagi þarf að treysta rétt þeirra til eignar á vatninu. Þetta er að mínu mati einn liður í þá veru, enda hamrað á því við kynningu frumvarpsins að frumvarpið miðaði að því að skýra eignarhald á vatni, eins og fram kemur í 1. grein laganna sem ég vék að áðan.

Aðrar greinar í frumvarpinu snúa að eignarrétti. Þar er t.d. 4. gr. en hún segir, með leyfi forseta:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Fleiri ákvæði lúta að eignarréttinum. Í 15. gr. svo dæmi sé tekið og í 18 gr. laganna er vísað í takmarkanir á nýtingarrétti. En í skýringum með frumvarpinu, m.a. með þeirri grein, segir að það séu ekki lögð nein sérstök bönd á fasteignareigendur hvað varðar nýtingu og ráðstöfun vatnsréttinda nema að því leyti sem greinir í þessi lagaákvæði.

Með frumvarpinu fylgja athugasemdir í allítarlegu máli. Ég ætla að víkja að nokkrum atriðum sem þar koma fram. Sagt er að frumvarpið sé samið að tilhlutan iðnaðarráðherra. Fram kemur að því sé ætlað að leysa af hólmi vatnalögin frá árinu 1923. Það er nokkuð sem vert væri að staldra við og velta vöngum yfir, hvers vegna grunnlöggjöfin um vatn og vatnsréttindi skuli hvíla hjá iðnaðarráðuneytinu en ekki hjá umhverfisráðuneyti eins og við höfum mælst til af hálfu stjórnarandstöðunnar.

Þess er getið að endurskoðun vatnalaga hafi hafist árið 2001 og að markmið þeirrar endurskoðunar hafi verið að samræma ákvæði vatnalaga annarri löggjöf sem sett hafi verið á þeim tíma sem liðinn er frá gildistöku laganna. Það er alveg rétt að búið er að setja ýmis lög á undanförnum árum sem lýsa á einn eða annan hátt eða eiga upphaf í vatnalögin frá 1923. Það má t.d. þar nefna lögin um vatnsveitur, nefna má auðlindalöggjöfina og nefna má ýmis lög sem lúta að sérstökum frumvörpum, sérstökum lögum sem snúa að vatnsréttindum.

Ég vísaði til þeirrar nefndar sem var falið árið 2001 að hefja endurskoðun á vatnalögunum. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram hverjir það eru sem skipuðu þá nefnd. Fram kemur að ráðherra hafi falið hæstaréttarlögmanni, Eyvindi G. Gunnarssyni, að semja drög að frumvarpi til nýrra vatnalaga sem taka skyldu mið af þessum atriðum og leysa gildandi vatnalög af hólmi. Hinn 20. mars árið 2003 skipaði ráðherra síðan nefnd sérfræðinga og hagsmunaaðila til að skila endanlegu frumvarpi til vatnalaga til ráðherra. Í þeirri nefnd áttu sæti Karl Axelsson, hæstaréttarlögmaður og lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Hann var formaður nefndarinnar. Eyvindur G. Gunnarsson hæstaréttarlögmaður, varaformaður, sá hinn sami og áður hafði verið falið að semja frumvarpsdrög, Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur, tilnefndur af Orkustofnun, Gunnar Sæmundsson bóndi, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, Hjörleifur B. Kvaran hæstaréttarlögmaður, þáverandi borgarlögmaður en nú lögfræðingur Orkuveitu Reykjavíkur, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigrún Ágústsdóttir lögfræðingur, tilnefnd af umhverfisráðuneytinu og Örlygur Þórðarson hæstaréttarlögmaður, tilnefndur af Samorku.

Það vekur athygli að það eru fyrst og fremst þeir aðilar sem eiga hagsmuna að gæta í eignarrétti að styrkja hann sem eru tilnefndir í nefndina en ekki … (BJJ: Ekki alveg.) ekki alveg, það er rétt hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, ekki alveg, og það má til sanns vegar færa að hagur talsmanna Orkuveitunnar liggi í því að treysta almannarétt svo lengi sem orkugeirinn er í almannaeign en það er nokkuð sem er mjög að breytast og raddir heyrast innan úr þeim geira sem taka undir með ráðherrum og talsmönnum Framsóknarflokksins sem vilja koma þessu öllu saman á markað sem allra fyrst og með eins miklu hraði og hugsast getur. En þetta eru sjónarmiðin sem eru kölluð til. (Gripið fram í.) Þetta eru þau sjónarmið sem eru kölluð til, þ.e. úr orkugeiranum en síðan er það eignarréttarhugmyndin.

Þetta er ekki alveg úr lausu lofti gripið og reyndar alls ekki, enda væri ég þá ekki að nefna þetta því að það kemur fram þegar farið er að skoða umræður þessara fulltrúa á sínum heimavettvangi hvað þeir telja hafa verið verkefni sitt í nefndinni. Mig langar til að vitna í ummæli fulltrúa Bændasamtakanna í nefndinni. Hvað skyldi fulltrúi Bændasamtakanna hafa sagt fyrir réttu ári á búnaðarþingi? Og vísa ég í ummæli Gunnars Sæmundssonar í fundargerðum Bændasamtakanna frá búnaðarþinginu fyrir réttu ári, í marsmánuði árið 2005. Ég vitna, með leyfi forseta:

„Gunnar Sæmundsson sagðist hafa setið í nefnd sem vann ný drög að vatnalögum. Hans vinna hefði fyrst og fremst snúið að því að skerpa eignaraðild að vötnum. Hann sagðist hafa fallist á vald Orkustofnunar þar sem á stundum hefði honum fundist ákvarðanir ráðherra vera teknar af geðþótta.“

„Að skerpa eignaraðild að vötnum.“ Þetta leit hann á sem hlutverk sitt í þeirri nefnd sem hæstv. iðnaðarráðherra hafði skipað til að ganga frá endanlegu frumvarpi til vatnalaga til ráðherra. „Að skerpa eignaraðild að vötnum.“ Þetta eru orð fulltrúa Bændasamtakanna í þeirri nefnd sem iðnaðarráðherra skipaði árið 2003 til að semja þetta frumvarp. Aðrir sem sátu í nefndinni voru fulltrúar orkugeirans, meira að segja fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga er núna starfandi hjá Orkuveitu Reykjavíkur, var áður lögmaður Reykjavíkurborgar en heldur áfram sem fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í nefndinni. Ég spyr: Hvar voru fulltrúar ASÍ? Hvar voru fulltrúar BSRB? Hvar voru fulltrúar Kennarasambands Íslands? Hvar voru fulltrúar Sambands bankamanna? Hvar voru fulltrúar þjóðkirkjunnar? Hvar voru fulltrúar Náttúruverndarsamtakanna? Hvar voru fulltrúar Landverndar? Hvar voru fulltrúar Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna?

Hvers vegna nefni ég þessi samtök? Vegna þess að þau samtök hafa látið þessi mál til sín taka, hafa komið saman til funda, efnt til ráðstefna, sent frá sér ályktanir og álitsgerðir. Hvers vegna var ekki hlustað á þetta fólk? Hvers vegna voru einvörðungu kallaðir til fulltrúar frá Samorku, Orkuveitu Reykjavíkur og Bændasamtökum Íslands sem vitað er að horfðu fyrst og fremst til þess að treysta eignarrétt bænda á vatni í sínu landi en ekki til annarra aðila? Þarna var að vísu, eins og ég gat um áðan og það skal áréttað, fulltrúi frá umhverfisráðuneytinu í nefndinni, væntanlega til að horfa til sjónarmiða sem undir það ráðuneyti heyra. En það er síðan saga út af fyrir sig að fylgjast með hvernig farið var með ábendingar úr umhverfisgeiranum. Þegar frumvarpið kemur fyrst fram og óskað er eftir álitsgerðum er Orkustofnun fengin til að gefa þessum aðilum einkunn. Hún fer yfir álitsgerðirnar sem fram koma og gefur þeim einkunn. Sumir falla, sumir dúxa og brillera en aðrir falla á prófinu. Eða hvað segja menn t.d. um orðalag á borð við þetta, með leyfi forseta?

„Orkustofnun telur það Umhverfisstofnun til verulegs vansa að láta frá sér fara aðra eins umfjöllun og raun ber vitni um lögfræðileg atriði.“

Þetta er ekki út álitsgerð Umhverfisstofnunar, að sjálfsögðu ekki. Þetta er ekki úr álitsgerð meiri hlutans á þinginu. Þetta er úr álitsgerð og einkunnabók Orkustofnunar sem er að fella dóma á umsagnir annarra aðila um vatnalögin.

Það er annað sem kemur fram í þessari einkunnagjöf Orkustofnunar. Það er höfnun á því að einhver skörun sé á milli þessa lagafrumvarps og annarrar lagasmíðar sem snertir vatnið þegar kemur að einhverju sem heitir umhverfisvernd, almannaréttur eða umhverfisvernd. Svo ég vitni aftur í einkunnabók frá Orkustofnun að þessu sinni um umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, með leyfi forseta:

„Þau mál eru hérlendis á forræði umhverfisráðuneytis og í umsjón Umhverfisstofnunar og gerir frumvarp til vatnalaga ekki ráð fyrir breytingum á þeirri skipan. Frumvarp til vatnalaga fjallar um aðrar hliðar vatnamála en ekki um vatnsverndun og vatnsgæði og er því hér ekki um skörun að ræða. Orkustofnun telur athugasemd þessa ekki eiga við hér og því beri að hafna henni.“

Burt með álit Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þetta er mergurinn málsins í gagnrýni okkar, stjórnarandstöðunnar, á frumvarpið, að hluta til alla vega. Við höfum sagt: Löggjöf um vatn á að skoða heildstætt, skoða á löggjöfina heildstætt og við höfum líka sagt hvar eigi að byrja. Ef við lítum svo á og tökum þar undir með almannasamtökum í landinu og tökum þar undir með ályktunum Sameinuðu þjóðanna og tökum þar undir með verkalýðshreyfingu og fjöldasamtökum um allan heim, ef við lítum svo á að vatn séu mannréttindi og eigi að vera almannaeign, þá eigum við að sjálfsögðu að byrja á þeim enda. Við eigum að byrja á því að horfa til umhverfisins og vatnsverndar og að horfa til þess hvernig við getum tryggt almenningi yfirráð yfir þessari ómetanlegu auðlind. Þeir sem þekkja til skorts á vatni vita að vatnið er ómetanleg auðlind. Það þekkja menn á þurrkasvæðum heimsins. Það þekkja menn á átakasvæðum heimsins þar sem stríðsaðilar kappkosta að hafa vatnið og vatnsbólin af andstæðingum sínum því þeir vita að þar með hafi þeir svipt þá lífsbjörginni.

Þetta var um þá nefnd sem skipuð var til að ganga frá frumvarpi fyrir iðnaðarráðuneytið á sínum tíma. Eins og við síðan fengum að kynnast var afrakstur þeirrar vinnu lagður fram í formi frumvarps til vatnalaga á 131. löggjafarþingi án þess að verða þar útrætt. Eins og hér hefur komið fram voru gerðar einhverjar lítils háttar breytingar á frumvarpinu en afar smáar í sniðum eins og mönnum er kunnugt.

Í athugasemdum með lagafrumvarpinu er greint frá því hvers vegna þörf hafi verið talin á endurskoðun vatnalaga frá 1923. Hér segir, með leyfi forseta:

„Vatnalög, nr. 15/1923, hafa um árabil verið helsta réttarheimildin um vatnsréttindi hér á landi. Í ýmsum öðrum lögum er þó minnst á vatnsréttindi með einum eða öðrum hætti. Tiltölulega fáar breytingar hafa verið gerðar á lögunum á þeim tíma sem liðinn er frá setningu þeirra. Má segja að lögin hafi staðist vel tímans tönn enda þótt þau séu komin nokkuð til ára sinna. Á þeim tíma sem liðinn er frá setningu vatnalaga hafa hins vegar orðið miklar samfélagsbreytingar, tækniframfarir hafa orðið og vægi umhverfisverndar hefur aukist til muna svo fátt eitt sé nefnt. Þá miða vatnalögin að ýmsu leyti að því að leysa önnur vandamál en þau sem eru efst á baugi nú á dögum. Má því segja að tímabært hafi verið að endurskoða lögin.“

Undir þetta tek ég að sjálfsögðu. Enda benti ég á það áðan að þótt Framsóknarflokkurinn kunni að hafa haft ástæðu til þess fyrr á tíð og sú afstaða hans hafi verið skiljanleg fyrir nokkrum áratugum, að vilja treysta eignarrétt bænda yfir vatni á landareignum þeirra, þá eru aðrir tímar núna. Við lifum á öld einkavæðingar, á tímum þar sem fjármagn, ekki síst alþjóðlegt fjármagn, ásælist ýmislegt sem áður var í eigu samfélagsins og á þess vegum. Veiturnar, vatnsveiturnar og raforkuveitur, jafnvel skolpið, allt vilja þessir aðilar komast yfir. (Gripið fram í.) Skolpið, þeir vilja hagnast á því líka. Hér er þetta tilgreint í greinargerð með frumvarpinu enda kemur fram að menn þurfi í ríkara mæli en áður að horfa til umhverfisins og umhverfisþátta. Okkur sé nauðsyn á slíku.

Í greinargerðinni segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Hafa verður í huga að vatnalögin voru á sínum tíma heildarlöggjöf um vatnsréttindi. Lögin tóku jafnt til einkaréttarlegra hagsmuna eigenda vatnsréttinda og almannahagsmuna. Þannig falla lögin bæði innan sviðs allsherjarréttar og einkaréttar. Reglur allsherjarréttarins eru fyrst og fremst settar til verndar hagsmunum samfélagsins í heild, t.d. náttúruvernd, en reglur einkaréttarins eru settar til verndar tilteknum einstaklingshagsmunum, þótt engan veginn sé flokkun þessi einhlít. Við samningu frumvarps þessa hefur verið tekið tillit til þess að sett hefur verið ýmiss konar löggjöf á sviði allsherjarréttar sem tekur til vatns. Sem dæmi má nefna að lög og reglugerðir á sviði umhverfisréttar taka nú til óhreinkunar vatna. Þá eru sérstök lög um vatnsveitur sveitarfélaga. Einnig má eðlilegt teljast að um holræsi sé mælt fyrir í öðrum lögum en vatnalögum. Við samningu þessa frumvarps hefur þessum þáttum verið haldið fyrir utan. Engu að síður er ljóst að vatnalög geta ekki einungis tekið til einkaréttarlegra hagsmuna heldur hljóta opinberir hagsmunir einnig að koma þar við sögu. Hagsmunir samfélagsins af hagkvæmri nýtingu vatns og skynsamlegri stjórn þeirrar auðlindar sem felst í vatni eru miklir.“

Hér segir síðan, með leyfi forseta:

„Með aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var tekin ákvörðun um að lögleiða í íslenskan rétt hluta af rétti Evrópusambandsins. Sem stendur er unnið að lögleiðingu vatnatilskipunar ESB frá 2000 … hér á landi. Tilskipunin tekur til vatnafars og vatnabúskapar í víðasta skilningi þar sem lögð er áhersla á umhverfið og verndun þess.“

Bíðum við. Hvað er eiginlega verið að segja hér? Í fyrsta lagi er okkur sagt að lögin frá 1923 hafi verið afar víðfeðm og hafi tekið til einkaréttarlegra hagsmuna eigenda vatnsréttinda annars vegar, vegna þess að það er áherslan í vatnalögunum frá 1923. Hins vegar segir að þau hafi tekið til almannahagsmuna. Síðan segja frumvarpshöfundar og greinargerðarsmiðir að í öðrum lagabálkum horfi menn til þess sem snúi að almannahag, m.a. sé í smíðum reglugerð á vegum Evrópusambandsins og á grunni hennar eigi að setja lög sem snúa að þessu. Ég ítreka að við tölum einnig fyrir því að horft sé heildstætt á málin en byrjum á hinum endanum. Við bíðum með breytingu á þessum lögum þar til að við höfum fengið lögin um vatnsréttinn.

Í greinargerð er jafnframt vísað í aðra lagasmíð sem snýr að vatninu, þ.e. lög um vatnsveitur sveitarfélaga. Það var ekki svo lítið tekist á um það frumvarp í þingsölum á sínum tíma. Eins og frumvarpið var upphaflega var gert ráð fyrir því að vatnsveitur í landinu mætti hlutafélagavæða og þar með einkavæða. En því var snúið eftir mikið þref og mikinn þrýsting bæði innan þings og ekki síður utan — nokkuð sem ég þekki vel til vegna þess að samtök sem ég kem að málum hjá, BSRB, hafa lagt ríka áherslu á að varðveita eignarrétt og umsjá opinberra aðila yfir grunnþjónustu á borð við veiturnar í landinu, þar á meðal vatnið. BSRB lagði hart að stjórnvöldum með að setja inn í lögin ákvæði sem kæmu í veg fyrir að einkaaðilar kæmust yfir vatnið. Fyrst var reynt að koma í veg fyrir að vatnsveitur yrðu hreinlega gerðar að hlutafélögum, að við nýttum okkur ekki það form varðandi vatnið. Við töluðum fyrir því að lagaumgjörðin heimilaði einvörðungu opinbert eignarhald á þessari auðlind og nýtingu hennar. En niðurstaðan varð sú að farið var bil beggja. Í lögunum var heimiluð hlutafélagavæðing vatnsveitna með því skilyrði að hlutafélögin væru í meirihlutaeign sveitarfélaga. Reyndar geta málin skipast þannig vegna eignarsamsetningarinnar að einkaaðilar nái þar lykilstöðu en þetta varð niðurstaðan.

Þetta er nokkuð sem tekist er á um í heiminum öllum þegar vatn og vatnsveitur eru annars vegar. Menn berjast á mismunandi forsendum vestan hafs og austan. Í Evrópu hafa verkalýðssamtökin og almannasamtök reynt að koma í veg fyrir að vatnsveiturnar yrðu einkavæddar. Þar hafa menn orðið undir víða en þó eru hjólin farin að snúast með gæslumönnum almannahags, skulum við kalla það. Reynslan af einkavæðingu vatnsveitna hefur verið slæm. Vatnið hefur orðið dýrara. Vatnsveiturnar reknar með það að leiðarljósi fyrst og fremst að skapa eigendum sínum arð. Menn eru farnir að sjá í gegnum þetta og snúast öndverðir gegn þeim breytingum. En þar hefur áherslan sem sagt verið sú að reyna að koma í veg fyrir að vatnið yrði einkavætt.

Vestan hafs, þar sem hin frjálsu lögmál markaðar hafa síður verið heft frá gamalli tíð, hafa menn farið í aðra átt og reynt að setja markaðnum skorður. Þar er talað um reglugerðarskorður, „regulation“, að regúlera markaðinn. Eitt af því sem gert hefur verið í því skyni að hafa hemil á markaðnum er að festa í reglugerðir ákvæði þess efnis að aðeins sé heimilt að taka arð upp að tilteknu hlutfalli út úr þessum stofnunum. Þetta hefur reyndar einnig verið uppi á borði hjá okkur og er, ef ég man rétt, inni í lögunum um vatnsveitur sveitarfélaga. Það er nokkuð sem við tókumst á um í þinginu á sínum tíma.

Athugasemdirnar í greinargerðinni með frumvarpinu urðu mér tilefni til þessara vangaveltna. Hér er, eins og ég gat um áðan, annars vegar vísað í einkaréttinn og hins vegar í allsherjarrétt, sem það mun vera kallað er lýtur að almannahagsmunum. En það er allur gangur á því hvernig tekið hefur verið á þessum málum í lagasmíð á undanförnum árum. Hrikalegasta dæmið þar um er að sjálfsögðu auðlindalöggjöfin frá árinu 1998, sem er eiginlega mesta afturför í lagasmíð sem hér hefur orðið um langt árabil.

Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um inntak vatnsréttinda samkvæmt vatnalögunum frá 1923. Þar kem ég að deilunni sem menn hafa viðrað í tengslum við þetta frumvarp. Annars vegar er það sjónarmið að einvörðungu sé verið að breyta forminu á réttindum sem kveðið er á um í lögunum en ekki inntakinu. Hins vegar eru sjónarmið þeirra sem segja að svo sé í reynd, að inntaki laganna verði breytt og eignarréttarákvæðin treyst í sessi. Það er ekki að undra að farið sé nokkuð ítarlega í þetta í greinargerð með frumvarpinu. En hér segir, með leyfi forseta:

„Algengt er að telja einstakar heimildir eða þætti eignarréttar yfir fasteignum sem sérstök réttindi. Eitt dæmi þess eru vatnsréttindi en einnig má nefna námuréttindi, veiðiréttindi, rekaréttindi o.fl. Slíkt haggar því þó ekki að umrædd réttindi eru hluti tiltekinnar fasteignar og nýting þeirra og ráðstöfun því þáttur í ráðstöfun og nýtingu fasteignarréttinda nema réttindin hafi löglega verið skilin frá fasteigninni og fengin öðrum aðila í hendur.“

Það er umhugsunarvert sem hér er sagt, nokkuð sem ég vík að síðar í ræðu minni þegar ég fer að rifja upp umræðu sem varð í þingsölum árið 1998 um auðlindalöggjöfina þar sem einmitt var verið að fjalla um réttindi versus fasteign og eignarhald á henni. Í greinargerðinni segir í framhaldinu, með leyfi forseta:

„Samkvæmt framansögðu eru vatnsréttindi flokkuð sem sérstök eignarréttindi að fasteignum. Þau fjalla um þær heimildir fasteignareiganda sem beinlínis lúta að umráðum og hagnýtingu vatns á landareign. Sú meginregla kemur fram í 2. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, að landareign hverri fylgi réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, sem á henni er, á þann hátt sem lögin heimila.“

Þar er hins vegar um að ræða allar helstu hagnýtingarheimildir sem máli skipta, þar á meðal réttinn til orkuvinnslu samkvæmt 49. gr. laganna. Sú afmörkun á inntaki eignarráða vatnsréttinda fasteignareigenda, sem birtist í meginreglu þessari, hefur mikla sérstöðu í samanburði við almenna skilgreiningu eignarréttarhugtaksins. Ástæðan er sú að hér er á jákvæðan og tæmandi hátt kveðið á um hvað felist í tilteknum heimildum eignarréttar að vatni. Skal nú nánar að þessu vikið.

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að lesa áfram úr þessari greinargerð því þetta er lykilatriði í þeirri deilu sem stendur um þetta frumvarp, þ.e. skilgreiningin á eignarréttarhugtakinu, með tilvísun í vatn. Og áfram segir, með leyfi forseta:

„Hugtakið eignarréttur hefur almennt verið skilgreint svo í síðari tíma lögfræði að um sé að ræða einkarétt ákveðins aðila, eigandans, til þess að ráða yfir tilteknu verðmæti, innan þeirra marka, sem þessum rétti eru sett í lögum og af takmörkuðum eignarréttindum annarra manna, sem stofnað hefur verið til yfir verðmætinu. Hér er um að ræða svokallaða neikvæða skilgreiningu, þ.e. hún tilgreinir ekki með upptalningu hverjar heimildir eigandinn hefur yfir verðmætinu heldur er gengið út frá því að eigandinn njóti allra heimilda nema þeirra sem eru með beinum hætti undanskildar eignarráðum hans, hvort heldur sem það hefur gerst með lögum eða samningi.“

Ástæða þess að fremur er stuðst við neikvæða skilgreiningu á hugtakinu eignarréttur er sú að jákvæð skilgreining, þ.e. skilgreining þar sem taldar eru upp allar heimildir eiganda, sem í eignarrétti geta falist, yrði of viðamikil og sennilega aldrei tæmandi og því í eðli sínu ófullkomin. Í íslenskum lögum er víða byggt á því grundvallarsjónarmiði að á bak við eignarrétt búi heimildir til hvers konar nýtingar og ráðstafana nema sérstakar takmarkanir séu á því gerðar. Kemur þetta einkum fram í löggjöf sem mælir fyrir um hagnýtingu tiltekinna réttinda sem tengjast fasteignum og svo í ákvæðum friðunarlöggjafar af ýmsu tagi, sbr. t.d. 3. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Þess eru fá dæmi að í lögum sé á jákvæðan og tæmandi hátt kveðið á um það hvað felist í tilteknum heimildum eignarréttar en glöggt dæmi þess eru þó vatnsréttindi, sbr. 2. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, en þar segir að landareign hverri fylgi réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, sem á henni er, á þann hátt sem lögin heimila. Þar er á hinn bóginn um að ræða allar helstu hagnýtingarheimildir sem máli skipta, þar með talinn rétturinn til orkuvinnslu.

Ég er hér með lögin frá 1923 og þar á meðal þessa 2. gr. þar sem kveðið er á um skilgreiningu á réttindum landeiganda. Ég ætla ekki að fara að lengja mál mitt með því að vísa óþarflega mikið í þessi lög en vildi vekja athygli þingsins á þessum þætti umræðunnar. Því eins og ég skil það hér þá er breytingin sú að í gömlu lögunum frá 1923 er kveðið á um það sem frumvarpshöfundar kalla jákvæðan eignarrétt eða jákvæð ákvæði. En í þeim lögum sem við höfum fyrir framan okkur núna er þessi réttur þá neikvæður, það er stuðst við neikvæða skilgreiningu á hugtakinu eignarréttur, að hann taki til alls nema þess sem skilgreint er að hann eigi ekki við um. En í gamla frumvarpinu er tilgreint til hvaða þátta eignarrétturinn tekur.

Síðan er mjög fróðlegur kafli í athugasemdunum um bakgrunn hinnar jákvæðu skilgreiningar á vatnsréttindum fasteignareigenda skv. 2. gr. vatnalaganna frá 1923 sem hér var vikið að. Í athugasemdum með frumvarpinu er spurt hver hafi verið ástæða þess að vatnsréttindi fasteignareigenda hafi verið skilgreind með jákvæðum hætti en ekki neikvæðum eins og almennt tíðkast í löggjöf sem mælir fyrir um hagnýtingu eignarréttinda sem tengjast fasteignum. Frumvarpshöfundar segja ástæðuna hafa verið sögulegs eðlis og hafi átt rætur sínar að rekja til ágreinings, bæði af stjórnmálalegum og lagalegum toga. Þar segir að allt fram til 20. aldar hafi verið byggt á reglum Jónsbókar um vatnsréttindi. Þegar tekist hafði að vinna raforku út vatnsafli hafi komið til sögunnar ný og mikilvæg afnot af rennandi vatni og skilyrðin til að gera það arðberandi. Hafi það leitt til að um og upp úr aldamótunum 1900 hafi áhugi ýmissa manna, bæði innlendra og erlendra, vaknað á því að kaupa eða leigja vatnsréttindi hér á landi. Þá hafi margir tekið að óttast að þessi auðlind þjóðarinnar gæti glatast, þ.e. ef menn færu ekki varlega.

Með samþykkt svokallaðra fossalaga á Alþingi 1907, um takmörkun á eignar- og umráðarétti á fossum o.fl., átti að koma í veg fyrir að útlendingar næðu yfirráðum yfir vatnsaflinu hér á landi. Fossalögin frá 1907 byggðust á þeirri forsendu að fasteignareigandi ætti vatnsafl þeirra vatna sem féllu á lendu hans. Þau voru fyrsti þýðingarmikli lagabálkurinn sem bannaði að meginstefnu eignar- og afnotarétt útlendinga á íslenskum fossum. Samkvæmt fossalögunum frá 1907 skyldi konungur eða umboðsmaður hans veita undanþágu eða leyfi þar sem þess væri þörf.

Ítarlegar er fjallað um fossalögin í álitsgerð með frumvarpinu en síðan vikið að því að í lok janúar árið 1919 hafi komið upp djúpstæður ágreiningur í fossanefndinni og hljóp ég þar yfir þann sögulega þátt að á árunum fyrir 1920 var ráðist í að smíða nýja löggjöf, löggjöf um vatnsréttindi, vatnalög, og skipuð sérstök nefnd til að annast það verk, nefnd sem var kölluð fossanefndin. Og það sem ég var byrjaður að nefna, að í lok janúar árið 1919 hafi komið upp djúpstæður ágreiningur í þessari nefnd um hvort vatnsréttindi almennt væru eða ættu að vera í eigu þeirra einstaklinga sem eignarrétt ættu á landinu undir vatninu eða hvort vatnsréttindi væru að öllu leyti ríkiseign og einstaklingum aðeins heimil þau afnot sem lög leyfðu sérstaklega.

Frá því er skemmst að segja að þessi nefnd klofnaði í meiri hluta og minni hluta. Meiri hlutinn taldi öll vatnsréttindi vera ríkiseign, lagði áherslu á almannaeign, en minni hlutinn hafi hins vegar talið að vatnsréttindi ættu að vera háð eignarumráðum landeigenda.

Í greinargerð með frumvarpinu segir á þá leið að sjónarmið bæði meiri og minni hluta fossanefndar hafi átt rætur að rekja til mismunandi stjórnmálaviðhorfa og hafi verið lagaleg rök sótt til íslenskra laga að fornu og nýju. Megi því segja að deilan í fossanefndinni hafi verið ágreiningur bæði af stjórnmálalegum og lagalegum toga, en aðallega þó af stjórnmálalegum toga.

Í frumvarpi meiri hluta fossanefndar til vatnalaga var lagt til grundvallar að mælt yrði fyrir um yfirráð ríkisins yfir vatni og nytjum þess. Ríkið skyldi hafa umráð yfir öllu vatni, bæði straumvatni og stöðuvatni, að undanskildu eftirfarandi: a) vatn skyldi landeigendum frjálst til heimilis, jarðræktar og smáiðnaðar, b) yfir minni háttar vatni skyldu heimiluð sérstök yfirráð landeigenda, svo sem yfir lindarvatni, tjörnum, leysinga- og dýjavatni o.s.frv., c) til landsgæða skyldu teljast laugar, hverir og ölkeldur, eða d) vatn sem hefði verið virkjað eða veitt úr farvegi til notkunar samkvæmt heimild í lögum eða samkvæmt löglegu leyfi eða sérleyfi skyldi teljast í einkaumráðum, enda væri það ekki komið aftur í eðlilegan farveg.

Frumvarp minni hluta fossanefndar byggðist á því að landi hverju fylgdi réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni sem á því væri, hvort sem það væri rennandi eða kyrrt, með þeim takmörkunum sem lög, venjur eða aðrar heimildir hefðu í för með sér. Í því frumvarpi var ekkert ákvæði um ríkisumráð yfir vatni.

Þessi nefnd náði ekki samkomulagi og þar sem útséð þótti að Alþingi gæti sjálft samið lög sem nytu stuðnings meiri hluta þingmanna var Einari Arnórssyni prófessor falið að semja nýtt frumvarp til vatnalaga og var frumvarp hans var lagt fram á Alþingi árið 1921 en varð ekki að lögum fyrr en tveimur árum síðar, þ.e. vatnalögum, nr. 15/1923.

Síðan ganga rökin út á það að hann, Einar Arnórsson prófessor, hafi stuðst við álit minni hlutans sem hafði lagt áherslu á einkaréttarsjónarmiðin en ekki við meiri hluta nefndarinnar sem lagði áherslu almannaeign á vatni. Þess vegna segja frumvarpshöfundar nú að þegar þeir sem tala fyrir þessu frumvarpi leggi áherslu á eignarrétt einstaklinganna þá séu þeir ekki í neinu að hverfa frá þeim sjónarmiðum sem komu fram í frumvarpinu frá 1923.

En þá ítreka ég, hæstv. forseti, að þetta er nú ekki alveg svona augljóst. Vegna þess að eftir þennan tíma hafa komið fram önnur sjónarmið. Þessi sjónarmið voru ítarlega reifuð í umræðu um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu sem fram fór hér á Alþingi 1998. En áður en ég vík að þeirri umræðu vil ég fjalla bæði um meirihlutaálit og minnihlutaálit.

(Forseti (SP): Forseti vill fara þess á leit við hv. þingmann að hann geri hlé á ræðu sinni enda ætlar forseti nú að eiga stuttan fund með formönnum þingflokka þar sem nærveru hv. þingmanns er óskað. Fundi er frestað í hálfa klukkustund til kl. korter í tólf.)