Uppboðsmarkaðir sjávarafla

Fimmtudaginn 16. mars 2006, kl. 16:37:03 (6315)


132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[16:37]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að sjávarútvegurinn er undanþeginn varðandi þessar tilskipanir og reglur um Evrópska efnahagssvæðið. Þar er verið að kveða á um annars vegar fiskvinnslustarfsemi og hins vegar útgerðina. Það er alveg skýrt í þeim efnum að bæði útgerð og fiskvinnsla eru undir þá sök seldar að þar er ekki heimiluð bein erlend eignaraðild.

Hins vegar gegnir öðru máli um ýmsa aðra þætti sem við tölum stundum um sem hluta af sjávarútvegi. Ég gæti t.d. í því sambandi nefnt markaðsfyrirtækin, ef við tökum t.d. fyrirtæki eins og Icelandic. Þar er eignaraðild útlendinga að vísu mjög lítil en hún er til staðar og það er ekkert sem bannar það, öðru nær. Ég hygg að við eigum eftir að sjá ýmis dæmi um að fyrirtæki af þessu tagi, þ.e. markaðsfyrirtæki sem starfa erlendis, eru að mörgu leyti að breyta um svip. Þau eru að verða alþjóðleg fyrirtæki sem versla með fisk, ekki bara íslenskan fisk, og þau munu í vaxandi mæli, hygg ég, sameinast útlendum fyrirtækjum og þannig verður til erlend eignaraðild þar í einhverjum mæli. Þannig er það a.m.k. eins og ég sé málið fyrir mér núna og hefur verið að gerast.

Ef við veltum fyrir okkur hvað fiskmarkaður er í rauninni þá er fiskmarkaður auðvitað fyrst og fremst tæki til að búa til verðmyndun á fiski. Vitaskuld er þetta tengt sjávarútvegi en eins og samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði er úr garði gerður þá ná þessar tilskipanir ekki til hans. Þegar við fórum betur yfir þessi mál í ljósi reynslunnar og samkvæmt ábendingum þá kom það einfaldlega á daginn að heimildir til þessarar takmörkunar á fjárfestingum útlendinga náðu í rauninni ekki til fiskmarkaðanna og þess vegna var okkur ekki annar kostur fær en að breyta þessum lögum.