Uppboðsmarkaðir sjávarafla

Fimmtudaginn 16. mars 2006, kl. 16:40:15 (6317)


132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[16:40]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þær skilgreiningar sem við höfum varðandi fiskmarkaðinn séu skýrar. Þau lög sem við höfum verið að setja og reglugerðir sem líka eru um starfsemi fiskmarkaðanna gera það að verkum að starfsemi þeirra er býsna skýr, enda held ég að almennt talað hafi fiskmarkaðarnir verið býsna ánægðir með þá löggjöf sem nú er í gildi og við erum að ræða.

Ef fiskmarkaður væri í þeirri stöðu að eignaraðildin væri að einhverju leyti í höndum útlendinga þá hefði það að sjálfsögðu takmarkandi áhrif á hvaða aðra starfsemi slíkur fiskmarkaður gæti tekið þátt í. Fyrir utan það að ég hygg að ekki séu ótakmarkaðar heimildir fyrir fiskmarkaði til að taka þátt í annarri útgerðarstarfsemi vegna þess að það er ætlunin að fiskmarkaðir hafi þá stöðu að vera sjálfstæðir og óháðir aðilar þannig að einhver hagsmunatengsl valdi ekki þeirri verðmyndun sem þar á sér stað. Ég hygg því að það sem hv. þingmaður er að nefna sé í rauninni ekki vandamál en er hins vegar sjálfsagt að menn velti fyrir sér.