Uppboðsmarkaðir sjávarafla

Fimmtudaginn 16. mars 2006, kl. 16:41:34 (6318)


132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[16:41]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta litla frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra vera svolítið skrýtið. Hér sýnist mér að verið sé að reyna að uppfylla ákvæði vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem nú er orðinn 13 ára gamall samkvæmt lögum frá árinu 1993. Hér er verið að hnýta einhverjum ákvæðum við lög sem voru afgreidd frá hinu háa Alþingi í fyrra og ég hlýt að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum sáu menn þetta ekki fyrir þegar þeir voru að semja þessi nýju lög þá? Hver er skýringin á því?

Hið sama má segja varðandi aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Hér er vitnað í ákvæði stofnsamnings EFTA sem var undirritaður sumarið 2001. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningurinn fyrir EFTA eru hvor tveggja gamlir samningar en samt er eins og menn vakni allt í einu upp við vondan draum núna og átti sig á að breyta þurfi með þessum hætti lögum sem afgreidd voru í fyrra. Hvers vegna var þingið ekki upplýst um það þá? Hvers vegna var sjávarútvegsnefnd ekki upplýst um það þá að þessir meinbugir væru á þessu frumvarpi? Mér finnst þetta undarlegt og þetta vekur upp grunsemdir um að það sem hér er að gerast sé í raun og veru það að einhverjir erlendir aðilar vilji ná fótfestu á Íslandi og séu nú að ásælast það og hæstv. ráðherra reki hér erindi þeirra. Er það rétt?

Svo langar mig að spyrja um þennan fríverslunarsamning við Færeyjar. Hvernig er það, þarf ekki að leggja þennan samning fyrir þingið eða þarf ekki að kynna hann fyrir þinginu? Ég hef ekki enn þá séð þennan samning. Hann var undirritaður í lok ágúst árið 2005. Hvar í ósköpunum er þessi samningur? Hvenær fáum við að sjá hann? Hvað er í þessum samningi? Það hefur hvergi komið fram nema eitthvað óljóst í fréttum.