Uppboðsmarkaðir sjávarafla

Fimmtudaginn 16. mars 2006, kl. 16:46:06 (6321)


132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[16:46]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega mjög stórmannlegt af hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að reyna að skríða í skjól einhverra annarra þegar verið er að fjalla um lagasetningu sem við samþykktum á Alþingi í fyrra. Það er auðvitað á ábyrgð okkar þingmanna þegar við samþykkjum lög og hv. þingmaður situr í sjávarútvegsnefnd Alþingis og hlýtur að hafa verið í nákvæmlega sömu aðstöðu og ég til að kalla eftir svörum við þeim spurningum sem hann vildi leggja fram varðandi tiltekin efnisatriði. Og hafi hann ekki komið auga á þetta fremur en ég þá er það bara þannig að við erum á sama báti með málið, okkur hefur yfirsést að þarna væri um að ræða atriði sem hefði átt hafa öðruvísi við lagasetninguna og þess vegna erum við að fara yfir þessi lög núna og þess vegna erum við að leggja fram þessar breytingar hérna. Það þarf að gera þessar breytingar af ástæðum sem ég hef þegar rakið. Þetta eru bara efnislegar ástæður og það er eðlilegt að Alþingi breyti lögum þegar menn telja að betur megi fara.