Uppboðsmarkaðir sjávarafla

Fimmtudaginn 16. mars 2006, kl. 16:52:08 (6323)


132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[16:52]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem aðallega upp til að fagna því frumvarpi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur hérna fram. Jafnframt vil ég segja, velkominn í hópinn því ég fæ ekki betur séð en þetta frumvarp sýni ákveðin þroskamerki á hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Hann hefur, eins og við vitum sem höfum fylgst með honum af nokkurri vandvirkni á umliðnum árum, verið í innsta kjarna þess kórs sem jafnan hefur rekið upp gól og kyrjað gegn þeim sem hafa velt því upp að hugsanlega væri allt í lagi fyrir íslenskan sjávarútveg að fá erlent fjármagn og að það væri ekki bara allt í lagi heldur jafnvel gott fyrir íslenskan sjávarútveg að fá erlendar fjárfestingar. Við sem höfum verið í þeim hópi höfum haldið því fram að íslenskur sjávarútvegur mundi ekki bara standa sig vel ef svo mundi verkast að við gengjum í Evrópusambandið heldur hugsanlega blómstra enn frekar en hann gerir nú undir stjórn hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Ég tel að hérna sé stigið lítið skref í þá átt að liðka fyrir möguleikum erlends fjármagns inn í íslenskan sjávarútveg. Þetta er kannski ekki stórt skref en skref er það þó eigi að síður og það er tekið af yfirvegun. Ég trúi nefnilega öllu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra segir. Hann var spurður að því áðan af hv. þingmönnum í andsvari hvort þetta hefðu verið eins konar mistök hjá hv. formanni sjávarútvegsnefndar, Guðjóni Hjörleifssyni, eða aðgæsluleysi þegar málið var afgreitt út úr sjávarútvegsnefnd í fyrra. Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði að svo væri ekki og ekki ætla ég að taka undir að það hafi verið nein mistök. En af sjálfu leiðir að það hafi ekki verið hægt að álykta annað en þetta skref sé hugsað sem viðbót af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. sjávarútvegsráðherra, að þarna sé meðvitað verið að opna fyrir erlenda fjárfestingu í fiskmörkuðum og það er vel. Ég trúi því nefnilega þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra og ýmsir forkólfar íslensks sjávarútvegs segja að við Íslendingar séum betri en aðrir til að reka sjávarútveg. Við búum við minni ríkisstyrki en flestar aðrar þjóðir þótt vissulega sé hægt að færa full rök að því að sjávarútvegur sé upp að vissu marki ríkisstyrktur með ýmiss konar hætti hér á landi líka þá er það í minna mæli en annars staðar. Og ég held að hvað sem menn segja um samþjöppun í sjávarútvegi þá sé alveg ljóst að eins og þróunin hefur verið í útgerð og fiskvinnslu á Íslandi þá eru þar menn að verki sem eru afburða hæfir, menn sem kunna mjög vel að aka sínum seglum eftir þeim vindum sem blása í sjávarútveginum. Þeir hafa straumlínulagað fyrirtæki sín með því að sérhæfa sig, með því að sameinast og stækka og þeir reka fyrirtæki sín afskaplega vel.

Hæfni þessara manna og reynsla er mér ákveðin staðfesting á því að það sé engin vá fyrir dyrum þó að opnað yrði fyrir erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi og ég hef sagt það áður og ætla að segja það hér að ég tel það enga vá þó að erlent fjármagn mætti renna alla leið inn í útgerðina líka. Annaðhvort erum við Íslendingar bestir í því að reka sjávarútveg eða við erum það ekki. Ég hallast að hinu fyrrnefnda og hef fyrir mér orð hæstv. sjávarútvegsráðherra og margra sem þekkja þessa atvinnugrein miklu betur en ég geri í dag. Það er þess vegna sem ég er þeirrar skoðunar að þegar við höfum verið að ræða hugsanlega aðild Íslendinga að sjávarútvegi, þá sé það allt í lagi og ekki bara það heldur jákvætt fyrir íslenskan sjávarútveg.

Nú er það svo að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur deilt þeirri lífsreynslu með mér að ræða við einn helsta samningamann Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegs. Við heimsóttum hann, Claus Grubbe, sem t.d. við Íslendingar þekkjum og mætti segja að illu, í gegnum samninga okkar um síldina því þessi samningamaður Evrópusambandsins kom árum saman, ég held bara áratugum saman að fiskveiðisamningum fyrir hönd ESB og samdi t.d. við Íslendinga um norsk/íslensku síldina og var harður og illgjarn í þeim viðskiptum en maðurinn hefur yfirburðaþekkingu. Þetta er sá maður sem hafði forustu um endurskoðun á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sem lokið var held ég 2002.

Ég og núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra áttum fundi með þessu ágæta mann í Brussel á síðasta sumri ásamt dómsmálaráðherra, formanni Evrópunefndar og reyndar nefndinni allri, og þegar núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra spurði hann um hvernig lyktir mála yrðu varðandi aflahlutdeild og aflann ef við gengjum í Evrópusambandið þá var svarið sem hæstv. sjávarútvegsráðherra fékk frá þessum helsta samningamanni Evrópusambandsins í fiskveiðimálum: að ef við værum harðir í samningum væri líklegt að staða okkar mundi batna. Þessi ágæti danski sérfræðingur hefur þá væntanlega vera að vísa til þeirrar staðreyndar að það eru 27 samningar sem Evrópusambandið hefur gert við ríki utan þess, um fiskveiðar. Hann hefur væntanlega horft til þeirrar staðreyndar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur oft tekið sér í munn að Íslendingar eru betri en aðrir í sjávarútvegi. Þess vegna mundu þeir geta notað sér þessa möguleika og væntanlega er þetta undirstaðan fyrir þessari staðhæfingu. Það skyldi ekki vera að þrátt fyrir inngróna, innvígða, að ég segi ekki innmúraða andstöðu hæstv. sjávarútvegsráðherra gegn aðild okkar að Evrópusambandinu, þá hafi þarna þrátt fyrir allt í hans bolsévíska kolli kviknað á lítilli týru. Ég vona alla vega að þetta frumvarp sem hér er til umræðu sé fyrsti vísirinn að því að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé loksins, fjörinu feginn eftir að ný forusta er komin í Sjálfstæðisflokkinn, farinn að leyfa sér þann munað að hugsa svolítið frjálst, farinn að leyfa sér þann munað sem sérhver nútímalegur stjórnmálamaður á að leyfa sér að velta því fyrir sér hvort það sé svo slæmt að erlent fjármagn fái að leika alla leið inn í innviði íslensks sjávarútvegs.

Þetta frumvarp sem hæstv. ráðherra er með núna gerir það að verkum að útlendingar fá að fjárfesta í íslenskum fiskmörkuðum. Er það bara ekki jákvætt? Ég tel að svo sé. Ég tel að útlendingar eigi að fá að fjárfesta í íslenskri fiskvinnslu og ég er þeirrar skoðunar líka að það sé ekkert að því að íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi geti útvegað sér fjármagn með því að hleypa inn erlendu hlutafé. Ef hæstv. sjávarútvegsráðherra er til viðtals um svona hluti þá er ég alveg til reiðu að ræða hvort það yrði gert í einhvers konar skrefum þannig að ekki yrði óhóflega hröð þróun ef menn vilja fá reynsluna, en ég held að þetta sé prinsippið sem við eigum í reynd að taka upp.

Þá má rifja það upp að einn af fyrrverandi sjávarútvegsráðherrum, að vísu ekki í sama flokki og hæstv. ráðherra Einar Kristinn Guðfinnsson, því nú er ég að vísa til núverandi hæstv. forsætisráðherra, en hann hefur ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur þremur sinnum með einhvers konar hætti tekið upp þennan möguleika að útlendingar fái að fjárfesta í útgerð. Það hefur væntanlega verið á þessum sérkennilegu sveiflum í skapferli Framsóknarflokksins þegar á þá rennur einhver Evrópuhamur og þeir taka stundum upp heldur blygðunarlítið daður við Evrópusambandið en hrökkva svo jafnan undan eins og ungmær sem verður hálfhrædd þegar henni er sýndur of mikill áhugi. Samt er það þannig að þegar ég horfi yfir þetta finnst mér að innan ríkisstjórnarinnar sé að glæðast skilningur á þessu. Ég vísa til þess að hæstv. viðskiptaráðherra hefur opinberlega talað um þann möguleika að Íslendingar tækju upp evru. Hún hefur að vísu verið atyrt heldur hraklega, bæði af ritstjórum leiðandi dagblaða og sömuleiðis af ýmsum forustumönnum í Sjálfstæðisflokknum. En þetta var alla vega ný hugsun og nú hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra opnað glufu fyrir erlent fjármagn inn í íslenskan sjávarútveg og þegar ég legg þetta saman, frú forseti, þá kemst ég að þeirri niðurstöðu að hér sé um batnandi fólk að ræða og slíku fólki er best að lifa og við hæstv. sjávarútvegsráðherra segi ég bara: Bestu þakkir fyrir þetta framtak. Ég styð þetta frumvarp algerlega og vona að það sé einungis upphafið að því að hæstv. sjávarútvegsráðherra gangi í gegnum endurnýjun lífdaganna að því er varðar skoðun og viðhorf til Evrópusambandsins og útlenskra peninga í íslenskum sjávarútvegi.