Veiðimálastofnun

Mánudaginn 20. mars 2006, kl. 21:43:59 (6445)


132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Veiðimálastofnun.

612. mál
[21:43]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég geti á margan hátt tekið undir með hv. þingmanni og tel reyndar að í skilgreiningu með þessu frumvarpi séu öll þessi atriði inni.

Í 4. grein segir, með leyfi forseta:

„Hlutverk Veiðimálastofnunar er:

1. að afla með grunnrannsóknum alhliða þekkingar á nytjastofnum ferskvatns og lífríkis þeirra og miðla upplýsingum þar um,

2. að hvetja til sjálfbærrar nýtingar ferskvatnsvistkerfa,

3. að treysta grunn vísindalegrar ráðgjafar um nýtingu nytjastofna ferskvatna,

4. að treysta grunn vísindalegrar ráðgjafar í fiskrækt í ám og vötnum,

5. að rannsaka hvernig fiskeldi og fiskrækt megi best stunda í sátt við íslenska náttúru og villta stofna,

6. að veita ráðgjöf um lífríki áa og vatna í sambandi við framkvæmdir og mannvirkjagerð,

7. að stunda rannsóknir á eldi vatnalífvera,

8. að annast þróunarstarf og leiðbeiningar í veiðimálum og annarri nýtingu lífríkis ferskvatns,

9. að veita lögboðnar umsagnir,

10. að annast rannsóknir á einstökum ferskvatnsvistkerfum gegn gjaldi,

11. að stunda rannsóknir í sjó á nytjastofnum ferskvatns,

12. að annast aðrar rannsóknir og tengd verkefni sem ráðherra felur stofnuninni með reglugerð.“

Þessari stofnun er falið með þessu frumvarpi gríðarlega mikið verkefni sem spannar óskaplega stórt vísindalegt svið hvað framtíðina varðar.